Gleraugnakaup barna og unglinga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Það er von að spurt sé: Hvers vegna ekki? Hvers vegna er ekki þetta gert og hvers vegna er ekki hitt gert? Hvers vegna bætum við ekki og höfum ekki enn öflugra tryggingakerfi en við þó höfum í raun í dag? Og við því er svo sem ekki annað svar en það sem kom fram í máli mínu áðan að þessu fylgir auðvitað verulegur útgjaldaauki og tryggingaráð er á hverjum tíma að reyna að meta það og vega hvað beri að hafa forgang, hvað skuli styrkja og bæta og hefur ekki enn treyst sér til þess að taka þennan þátt inn á hjálpartækjalistann sem styrkt er samkvæmt. Endurskoðunin, eins og að henni hefur verið staðið, hefur að hluta til miðað að því að þó að nýir þættir væru teknir inn í tryggingalöggjöfina sem bótaskyldir væri reynt að skoða það hvort aðrir þættir, sem í dag eru bættir, gætu ekki jafnvel leitt til sparnaðar á einhverjum sviðum og þar höfum við m.a. rætt um tekjutengingu alls lífeyris, en þá umræðu ætla ég ekki að taka upp hér og nú. Það á ábyggilega eftir að koma að því síðar og til frekari umræðu.
    Varðandi það að vísa sífellt í þá endurskoðun á lögunum sem í gangi er, þá get ég tekið undir það með hv. þm. og sjálfsagt fleiri þm. en þeim sem bar fram fsp. að ég er líka að verða óttalega leiður á því að endurtaka þetta hér og þess vegna vonast ég til þess, eins og ég sagði áðan, að það styttist nú mjög í það að þessari endurskoðun ljúki og reyndar veit ég að svo er. En að hún hafi staðið í áratug er reyndar ekki rétt. Auðvitað hafa forverar mínir í ráðherrastóli eitthvað verið að láta endurskoða þessi lög en sú endurskoðun sem nú er í gangi hefur þó ekki staðið lengur en tæplega þann tíma sem ég hef setið sem ráðherra vegna þess að ég setti þá þessa nefnd fljótlega í gang, en það hefur nú þegar tekið meira en tvö ár og er það að sjálfsögðu líka langur tími þó það sé ekki og nálgist ekki enn að vera áratugur.