Skipulag svæðisins umhverfis Gullfoss og Geysi
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. greinargóð svör sem ég hefði þó kosið að væru kannski nokkuð á aðra lund. Engu að síður er það gott að það skuli vera í gangi vinna við framgang málsins en ég held að hún hefði svo sannarlega mátt ganga svolítið hraðar fyrir sig. Þó er mér vissulega ljóst að þetta er mál sem kannski er ekki að öllu leyti auðvelt viðfangs. Það ber hins vegar að fagna því að innan skamms muni liggja fyrir tillaga um skipulag þessa svæðis sem verður þá auglýst og kynnt eins og lög gera ráð fyrir. Það er vissulega af hinu góða.
    Mín skoðun er hins vegar sú að á þessu svæði eigi að ganga öllu lengra og það eigi að athuga það til hlítar að gera þetta svæði, Gullfoss/Geysissvæðið, að þjóðgarði vegna þess að þetta eru perlur íslenskrar náttúru og ég held að aðgangur og umgangur almennings og þjóðarinnar á þessu svæði verði best tryggður með því að gera svæðið að þjóðgarði. Ég held að það sé mikilvægt og ég er sannfærður um að það mun gerast í framtíðinni. Ég ítreka þakkir til ráðherra fyrir svörin og vona að það gangi eftir sem hún sagði að þessari vinnu verði hraðað vegna þess að það er mikilvægt.