Afnám jöfnunargjalds
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fjármálaráðhera (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson ber hér fram tvær fsp. Sú fyrri er: ,,Hvenær á árinu verður jöfnunargjaldið afnumið?`` Svarið við þeirri spurningu er að ekki hefur verið tekin ákvörðun um það, þannig að ekki er hægt að veita svar við þeirri spurningu.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Verður hlutfallið óbreytt þangað til gjaldið verður afnumið eða verður það lækkað í áföngum?`` Svarið við þessari spurningu er að ekki hefur heldur verið tekin nein ákvörðun á þessu stigi máls um það með hvaða hætti gjaldinu yrði breytt eða hvort því yrði breytt. Svörin við þessum spurningum liggja því ekki fyrir. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til þess að geta um að mjög mismunandi skoðanir eru á þessu jöfnunargjaldi. Ýmsir telja þetta gott og eðlilegt gjald og til styrktar mikilvægum þáttum í íslensku atvinnulífi. Aðrir hafa á því þær skoðanir sem hv. þm. var að lýsa hér áðan svo að það er nú ekki einhlítt að almenn samstaða ríki um það að þetta gjald eigi að fella niður. Margir telja að það sé í eðli sínu mjög mikilvægt fyrir ákveðna veigamikla þætti í framleiðsluatvinnuvegum okkar Íslendinga.
    Svarið við spurningunum tveimur sem hér eru bornar upp eru á þann veg sem ég hef gert grein fyrir.