Afnám jöfnunargjalds
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Er það ekki dæmalaust að hæstv. fjmrh. skuli koma hér í ræðustól á hinu háa Alþingi og segja að ekki hafi enn verið tekin ákvörðun um það hvenær gjald skuli fellt niður sem gert var ráð fyrir að yrði fellt niður þegar lög voru samþykkt um virðisaukaskatt og hæstv. ráðherra lofaði í tengslum við kjarasamninga fyrir ári síðan að fellt yrði niður um áramótin þegar virðisaukaskatturinn yrði tekinn upp? Hann ber fyrir sig að menn hafi nú mismunandi skoðanir á því hvort þetta sé góður eða vondur skattur. Staðreynd málsins er sú að þessi lög voru sett á vegna þess að hér var söluskattskerfi og það var öllum ljóst, á öllum stigum málsins, að þetta gjald skyldi fellt niður þegar virðisaukaskatturinn væri tekinn upp.
    Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra og vonast til þess að hann svari því skýrt og skorinort: Hvenær verður tekin ákvörðun um það hvenær þetta gjald eigi að falla niður? Það er alveg ljóst af fjárlögum íslenska ríkisins að gjaldinu er ekki ætlað að vera í núverandi mynd sinni út þetta ár.