Afnám jöfnunargjalds
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég kem nú bara upp af því að ég var spurður í þessari stuttu athugasemdaræðu. Ég hafði enga athugasemd að gera við ræðu hv. þm.
    Svarið er einfalt: Þessum tekjum er ekki varið til þess að greiða uppsafnaðan söluskatt á þessu ári. ( Gripið fram í: Frá sl. ári.) Já, já, frá sl. ári. Þeim er ekki varið til þess. Hins vegar, eins og hv. þm. veit, var bætt við 350 millj. í fjáraukalögum í desembermánuði sl. sem komu til greiðslu fyrir síðustu áramót til viðbótar við það sem áætlað var í fjárlögum fyrir 1989 af uppsöfnuðum söluskatti. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki vegna fisks. Iðnaðurinn hefur fengið ákveðinn hluta af þeim greiðslum og aðrar þær greinar sem hafa notið slíkra greiðslna.