Aðgerðir vegna tillagna nauðgunarmálanefndar
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna þessara ummæla um neyðarmóttökuna. Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega að vissulega var henni valinn kjörstaður á slysadeild Borgarspítalans eftir að nefndin hafði kannað ýmsa aðra möguleika á höfuðborgarsvæðinu. En ég vek athygli hæstv. ráðherra og annarra á því að í könnun nefndarinnar á árunum 1981--1983 kom í ljós að að meðaltali voru kærðar um 25 nauðganir á ári, eitthvað því um líkt. Auðvitað eru nauðganir mun fleiri. Þær eru bara yfirleitt ekki kærðar. Rannsóknir hafa sýnt að það er ekki nema lítið brot af þeim nauðgunum sem raunverulega fara fram sem kemur upp í dagsljósið. Jafnvel þó þær væru eitthvað fleiri, þá yrði meðhöndlun og meðferð brotaþola aldrei nema lítill hluti af daglegu starfi fólks á deild eins og slysadeild. Þess vegna þarf ekki að bæta við mörgu fólki. Það þarf fyrst og fremst að mennta fólk. Það þarf manneskju til að sjá sérstaklega um þessa meðferð en það þarf fyrst og fremst að mennta bæði heilbrigðisstarfsfólk, lögreglumenn og aðra þá sem annast brotaþola í nauðgunarmálum. Þetta er fyrst og fremst spurning um skipulag og samræmingu og um leið og bættur verður húsakostur og aðstæður slysadeildarinnar er enginn vandi að koma þessu fyrir ef vilji er fyrir hendi.