Breytingar á XXII. kafla hegningarlaga
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans og fagna því að nú skuli þetta frv. lagt fram aftur þannig að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um það. Ég hefði kosið að tekið hefði verið tillit til þeirra breytinga sem fram komu a.m.k. að einhverju leyti, áður en það hefði verið lagt fram aftur. En það gefst tækifæri til að koma þeim á framfæri við umfjöllun málsins hér. Ég vona að það nái fram að ganga á þessu þingi þó að ég viti vel að tíminn á eftir að fljúga frá okkur þangað til þingi lýkur. Ég mun sannarlega gera mitt til þess að þetta mál nái í gegn og reyni að ná fram þeim breytingum sem ég tel æskilegar á málinu.