Meðferð opinberra mála
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég held enn áfram með þetta mál því ekki veitir af að ýta við því og aftur vík ég máli mínu að hæstv. dómsmrh.
    Í nauðgunarmálanefndinni kom fram að hún taldi nauðsynlegt að lögum um meðferð opinberra mála yrði breytt. Markmið lagabreytinganna sem hún hafði í huga voru fyrst og fremst að draga úr skaðlegum áhrifum brota og málsmeðferðar á brotaþola, tryggja þeim bætur fyrir fjártjón og miska og að styrkja refsivörslukerfið í baráttu við refsiverð brot. Þetta voru meginmarkmið tillögugerðarinnar. Þær voru miðaðar við nauðgunarbrot og önnur þau kynferðisbrot sem falla undir verksvið nefndarinnar en flest af því sem lagt er til á í raun einnig við um önnur kynferðisbrot og sumt einnig við ofbeldisbrot almennt.
    Ég vil lesa, með leyfi forseta, fsp. þar sem spurt er hvort dómsmrh. hyggist leggja fram frv. til laga um:
    1. að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur,
    2. að vikið verði frá frjálsu sönnunarmati varðandi fyrri kynferðishegðun brotaþola í nauðgunarmálum eins og þegar hefur verið gert meðal margra annarra ríkja,
    3. að tilgreint verði tæmandi í lögum hvenær ákæruvaldið megi falla frá saksókn í nauðgunarmálum; einnig að sett verði ákvæði um rökstuðning fyrir niðurfellingu í nauðgunarmálum og hverjum hún skuli kynnt,
    4. að brotaþoli í nauðgunarmálum öðlist skýlausan rétt til að krefjast þess að með mál verði farið fyrir luktum dyrum,
    5. að heimiluð verði skýrslutaka af brotaþola án návistar hins brotlega,
    6. að ákveðnar reglur verði settar um fortakslaust fréttabann á persónulegar upplýsingar um brotaþola nema knýjandi nauðsyn sé til þess að birta slíkar upplýsingar opinberlega,
    7. að brotaþola/konu verði tryggð greiðsla þeirra bóta, sem dómstólar dæma henni, með því að ríkissjóður greiði henni bæturnar og endurkrefji síðan dómþola.