Meðferð opinberra mála
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beinir til mín á þskj. 561 nokkrum viðbótarspurningum. Þar er ég spurður hvort ég hyggist leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar. En í fsp. eru tillögur nefndarinnar um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála raktar.
    Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvort eða að hve miklu leyti ég hyggst láta semja frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar. Sumar tillögur nefndarinnar um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála hafa talsverð útgjöld í för með sér og um þær, sem og aðrar tillögur nefndarinnar á þessu sviði, eru skiptar skoðanir.
    Áður en ég tek afstöðu til þessara tillagna hef ég ákveðið að óska eftir því við réttarfarsnefnd að hún láti mér í té rökstudda afstöðu til þeirra tillagna sem raktar eru í fsp. og í framhaldi af því mun ég taka ákvörðun um framhald málsins.