Meðferð opinberra mála
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég vil vegna svara hans benda hæstv. ráðherra og öðrum á að það eru raunar aðeins tveir liðir þessara tillagna sem hafa einhver útgjöld í för með sér. Það er fyrsti liðurinn sem varðar heimild til aðstoðar löglærðs talsmanns fyrir brotaþola og síðasti liðurinn, að ríkissjóður tryggi greiðslur bóta þannig að brotaþoli, konan, þurfi ekki sjálf að eltast við brotamanninn sem oft er ekki borgunarmaður. Það er óþolandi fyrir brotaþola að þurfa sjálf að leita bótanna eða kosta til þess aðstoð lögfræðings. Það er í raun og veru réttlátara að ríkið sjái um þessa greiðslu og sjái síðan um að endurkrefja dómþola. Það eru þessi tvö atriði sem hafa kostnað í för með sér.
    Ekkert hinna fimm atriðanna hafa neinn sérstakan kostnað í för með sér svo framarlega sem ég get séð. Það er fyrst og fremst spurning um viðhorf til brotaþola og vernd brotaþola gagnvart bæði fjölmiðlum og öðrum og stuðningur við brotaþola til þess að öðlast sjálfsvirðingu sína á ný. Mér finnst eiginlega einkennilegt að um þetta geti ríkt skiptar skoðanir, þ.e. þessi fimm atriði. Ég get skilið að á niðurskurðartímum hiki menn við að stofna til útgjalda, en þá vil ég benda á að þau eiga bara við þessa tvo liði.
    Ég vona að réttarfarsnefnd verði snarari í snúningum en kerfið hefur verið hingað til og verði ekki til þess að tefja e.t.v. góðar fyrirætlanir hæstv. dómsmrh. um að sinna þessum þætti tillagnanna sem ég er viss um að hann hefur fullan hug á.