Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beinir hér enn fsp. til mín á þskj. 562. Þar er ég spurður hvort ég hafi beitt mér fyrir að koma á skipulegri málsleið fyrir brotaþola í nauðgunarmálum í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar og hvort haldin hafi verið sérstök námskeið fyrir lögreglumenn til að fræða þá um kynferðisafbrot og áhrif þeirra á brotaþola og hvort slík fræðsla hafi verið felld inn í grunnnám lögreglumanna eða hvort hún verði tekin upp sem hluti af reglubundinni endurmenntun þeirra.
    Ég hef kynnt ríkisstjórninni tillögur nauðgunarmálanefndar, eins og raunar hefur komið hér fram fyrr í þessum umræðum eða svörum við fsp. Á þessu stigi hafa ekki verið teknar aðrar ákvarðanir varðandi tillögur nefndarinnar en að endurflytja frv. til laga um breytingu á XXII. kafla almennra hegningarlaga, sem einnig hefur komið fram í þessum umræðum.
    Ég tel að beint samhengi sé á milli tillagna nefndarinnar um neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota og þeirrar skipulögðu málsleiðar sem fsp. þessi beinist að sem og tillagna nefndarinnar um menntun og endurmenntun lögreglumanna. Ég skil tillögur nauðgunarmálanefndar m.a. þannig að það sé ekki síst í verkahring forstöðumanns umræddrar neyðarmóttöku að taka þátt í að skipuleggja umrædda málsleið og að undirbúa og taka virkan þátt í þeirri fræðslustarfsemi sem tillögur nefndarinnar ganga út á.
    Ég mun nú á næstunni hafa frumkvæði að frekari úrvinnslu á tillögum nauðgunarmálanefndar, m.a. í samráði við heilbrrh. eins og hér hefur fyrr fram komið, menntmrh. og félmrh. í þeim tilgangi að hægt verði að taka afstöðu til þess að hve miklu leyti og með hvaða hætti hægt er að hrinda tillögunum í framkvæmd. Í þessu sambandi tel ég rétt að minna á, sem hefur raunar einnig komið fram í þessum umræðum, að samkvæmt upplýsingum frá Fjárlaga- og
hagsýslustofnun er á fjárlögum þessa árs fjárveiting fyrir einni stöðu hjúkrunarfræðings til þess að sinna konum er sætt hafa kynferðislegu ofbeldi.