Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Á langri ævi lærist manni að hætta að vera hissa á skeytingarleysi samfélagsins gagnvart þeim sem minnst mega sín. Ég hef nú samt orðið hissa hérna í dag. Í heilum ráðuneytum eru þessi mál bara ekki rædd, skýrslur sjást ekki, veittar eru stöður á Borgarspítalanum en þær eru ekki notaðar. Og allt finnst mér vera eftir þessu nema hvað það gleður mig mikið að heyra að hæstv. dómsmrh. hefur áhuga á að leggja fram tillögur og vona ég að úr því verði hið fyrsta.
    Hér er dreift yfir okkur á Alþingi miklu pappírsflóði, misjafnlega gagnlegu. Hvernig væri ef við fengjum þessa skýrslu eða a.m.k. að okkur væri boðin hún til kaups einhvers staðar í þinghúsinu svo við gætum kynnt okkur þetta betur og þá sérstaklega þeir sem alls ekki gefa sér tíma til að hlusta einu sinni á neitt sem rætt er um þetta hér?