Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið upp og stutt þetta mál fyrir þeirra þátt í umæðunni og einnig hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans.
    Ég vil af því tilefni segja að mikilvægt fræðslustarf hefur verið unnið nú þegar á vegum kvenna í Samtökum gegn kynferðislegu ofbeldi og einnig á vegum kvenna frá stuðningshópi Kvennaathvarfsins við brotaþola í kynferðisbrotamálum.
    Þær höfðu fræðslunámskeið í Odda á sl. hausti og ég veit að það sóttu m.a. nokkrir rannsóknarlögreglumenn og voru mjög ánægðir með þá fræðslu. Þær hafa nú þegar fengið til þess nokkurt fé og var það veitt á síðustu fjárlögum reyndar en auðvitað þurfa þær meira.
    Ég veit einnig til þess að Rannsóknarlögreglan hefur haft frumkvæði að því að hafa fræðsluerindi á sínum vegum fyrir starfsmenn sína um nauðgunarmál og þeir hafa tekið upp skýrslu eða skýrsluform sem kemur fram í tillögum og skýrslum nauðgunarmálanefndarinnar. Lögregluskólinn hefur einnig haft frumkvæði að því að biðja um þessa fræðslu bæði í fyrra og einnig nú í ár, hygg ég.
    Það er rétt sem hæstv. dómsrh. segir, málsleiðin og skipulagning hennar á auðvitað að vera á vegum þeirrar forstöðumanneskju sem sér um að skipuleggja starf neyðarmóttökunnar og samræma starf allra aðila. En það er þó fyrst og síðast nú á ábyrgð ráðherra og ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan: meðan við höfumst ekki að þá verður ekkert lát á brotum. Vandi þeirra sem lenda í slíkum brotum er samur og áður og jafnbrýnn. Það verður ekki lengur unað við aðgerðarleysi í þessum málum. Þess vegna hvet ég og brýni hæstv. dómsmrh., því til embættis hans var skýrslunni skilað, reyndar áður en hann sjálfur varð dómsrh. En það er á ábyrgð dómsrn. að hafa frumkvæði í málinu og fá með sér aðra ráðherra
í ríkisstjórninni og aðila í kerfinu sem geta hrundið málum til framkvæmda. Ég vona að þessi umræða hér og nú hafi orðið til þess að vekja menn til umhugsunar og að vekja með þeim góðan vilja til úrbóta.