Flugfélagið Flying Tigers
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans og þó sérstaklega fyrir þá afdráttarlausu yfirlýsingu að hann telur það verkefni samgrn. að vinna að sem frjálsustu flugi til landsins. Það tel ég að sé stórmál sem skipti öllu máli í þessu sambandi. Ég tel að brotið hafi verið blað í möguleikum íslenskra útflytjenda þegar þetta flug hófst. Ég hefði talið eðlilegt að þeir hefðu einnig fengið flugréttindi með flutning til Ameríku að fullu, því við erum með gagnkvæman loftferðasamning í þessum efnum. Og ég ætla að undirstrika eitt. Það eru númer eitt, tvö og þrjú hagsmunir Íslendinga að þetta flug haldi áfram. Þetta eru smámunir fyrir þá aðila sem eiga þessar vélar og reka þessi félög, það eru fyrst og fremst hagsmunir Íslendinga að þetta flug haldi áfram.
    En ég vil taka undir það að það kerfi sem nú gildir um lestun flugvéla á Keflavíkurflugvelli og þjónustugjöldin og öll sú uppsetning á gjaldskrá er slíkur fáránleiki að það kallar að sjálfsögðu á það að það mál verði rætt við hæstv. utanrrh. næst þegar hann hefur lendingarleyfi á Íslandi.