Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Það hlýtur óneitanlega að vekja athygli þegar fjórir þm. úr flokki sem styður ríkisstjórnina flytja hér till. í því formi sem hér er. Till. sem er í sjálfu sér athyglisverð og þess verð að um hana sé rætt og skoðað hvaða hugsanlegum árangri hún getur skilað. En menn hljóta að hugleiða hvers vega þessir stjórnarsinnar leggja fram slíkt plagg nú. Treysta þeir ekki þeirri ríkisstjórn sem þeir þó styðja til að koma á þeirri hagræðingu í ríkiskerfinu sem málefnasamningur ríkisstjórnarinnar boðar? Treysta þeir ekki þeim ráðherrum sem þeir hafa kosið að styðja til þess að koma fram hagræðingu og sparnaði?
    Hér er drepið á mikilsvert mál sem vissulega getur skipt miklu máli fyrir afkomu ríkissjóðs. Mér býður í grun að þangað hafi hugurinn leitað við samningu þessarar till. Það hefur lengi verið áhugamál kvennalistakvenna, og að ég held enda komið fram í máli þeirra við flestar fjárlagaumræður síðan þær settust á þing, að endurmeta starfssvið ríkisstofnana, meta á ný hver þörfin er fyrir þær, hvaða skyldum þær eigi að gegna og hvaða tilkostnað það hefur í för með sér að því gefnu að þar verði gætt hagræðingar og sparnaðar á öllum sviðum. Þetta höfum við viljað að gert yrði og getum því tekið undir ýmsa þætti þessarar tillögu. Það er ljóst að á undanförnum áratugum hefur umfang ýmissa ríkisstofnana og ekki síður stjórnkerfisins sjálfs farið sívaxandi og kostnaður við hvort tveggja aukist að sama skapi. Í kynningu hæstv. fjmrh. á frv. til fjárlaga í haust var hæstv. ráðherra uppi með hávær fyrirheit um að starfsemi ríkisstofnana yrði endurmetin og reiknuð frá núllgrunni. Þetta virðist þó ekki vera sá andi sem svífur yfir vötnum innan ráðuneytanna úr því að stjórnarþingmenn sjá sig tilknúna að flytja þá till. sem hér er til umfjöllunar og ekki hafa borist neinar fregnir af því að hæstv. fjmrh. hafi uppi tilburði til að framfylgja þeim fyrirheitum sem hann lét svo drjúgt af í
haust. Þó hefur verið dregið stórlega úr fjárframlögum til ýmissa ríkisstofnana en það hefur alls ekki gerst á þann hátt sem menn hefðu kosið að sjá. Niðurskurðurinn er ómarkviss, það er skorið niður á þeim sviðum sem auðveldast er að ná til, án tillits til hvaða þjónusta er þá skert og hvernig það kann að koma niður á þegnunum. Þessi happa og glappa aðferð í ríkisbúskapnum er auðvitað hreint glapræði. Hún veldur glundroða í kerfinu og veldur því að sú þjónusta sem ríkisstofnanir veita verður ómarkviss og leiðir oft til aukins kostnaðar á öðrum sviðum. Ég get fyllilega tekið undir það sem þessi tillaga gengur út á.
    Á undanfarandi áratugum hefur farið fram víðtæk og nauðsynleg uppbygging t.d. í sjúkrahúsa- og heilsugæslustöðvamálum vítt um landið og nú er talið að hilli undir það takmark að húsakostur heilbrigðisþjónustunnar verði nægjanlegur. En þá fer maður að spyrja um skipulagið. Hverju sætir það að dýrar byggingar og tæki standa ónýtt hluta úr árinu

eins og gerist þegar heilum deildum á sjúkrahúsunum er lokað í ,,sparnaðarskyni``? Er sannanlegur sparnaður fólginn í slíkum aðgerðum? Og mér er spurn hvort það hefur einhvern tíma verið rannsakað hvaða sparnaður hlýst af því, hvort hann kemur þá ekki fram í kostnaði á öðrum sviðum. Ég held að það sé fullkomin ástæða til að athuga það.
    Vissulega er nauðsyn þess víða í ríkiskerfinu að stofnanir séu sameinaðar og það er hægt að ná fram hagræðingu í mörgum þáttum við slíka sameiningu. Það er líka nauðsynlegt að leggja mat á þörf fyrir stofnanir af ýmsu tagi og þörfina fyrir þá þjónustu sem þær veita og athugun á því hvort það er eðlilegt að ríkið hafi þau umsvif með höndum eða hvort eðlilegra er að það sé einkaframtakið sem gerir það og þegnarnir sem borga beint. Þetta þarf allt athugunar við.
    En það er sérstaklega einn þáttur í þessari tillögu sem ég vildi gjarnan gera að umræðuefni hér. Það segir hér að fjármálaráðherrar undanfarinna ára hafi nánast starfað sem rukkarar og sjaldan séð önnur úrræði til að auka ríkistekjur heldur en að hækka skatta og herða innheimtu og að þetta gangi ekki lengur. Það er vissulega satt að skattheimtan er komin á það stig að það verður varla unað við öllu meira í þeim málum. En hér segir líka að það sé nauðsynlegt að ríkið dragi úr umsvifum sínum og starfsmannahaldi af því að það séu samdráttartímar. Það eru uppi ýmsar kenningar um það hvernig á málum skuli haldið á samdráttartímum. Það ber víst öllum saman um það að þegar þensla ríkir í þjóðfélaginu sé heppilegra að ríkið dragi úr sínum umsvifum. En á samdráttartímum held ég að ýmsir hagfræðingar telji heppilegra að ríkið dragi ekki mikið úr sínum umsvifum heldur reyni að halda uppi eðlilegri þjónustu og eðlilegri starfsemi til að magna ekki kreppuna upp. Því að þegar samdráttur er í einkageiranum og atvinnulífinu og ef ríkið dregur úr líka, þá hlýtur að verða víxlverkun þannig að tekjur ríkisins verða sjálfkrafa minni. Það getur ekki verið heppilegt fyrir ríkið að draga svo mjög úr sínum umsvifum þegar lítið er um að vera á öðrum sviðum. Það hlýtur að valda því að kreppan magnist upp og þá verður erfiðara þegar úr rætist að koma öllu í eðlilegt form á ný.
Við þessar kenningar flm. set ég því sannarlega spurningarmerki.
    Hér stendur að heimili og atvinnulíf geti ekki greitt meira til að standa undir aukinni þjónustu ríkisins og það er vissulega rétt. En þá ber að athuga það, eins og stendur í þessari tillögu, hvernig best sé að minnka umsvif ríkisins. Og það verður að gerast á þann hátt, eins og í till. stendur, að endurmeta ríkisstofnanir, starfssvið þeirra, markmið og hvernig þær eigi að koma fram sínum málum. Og þá bendi ég enn á þann glundroða sem hefur orðið vegna þess að niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar í samdrætti undanfarinna ára hafa verkað þannig, að það er einungis skorið á þá þætti sem auðveldast er að ná til án tillits til hverjum það bitnar á. Við sjáum það í skólakerfinu að þar eru gripnir burt einstakir þættir

sem er auðvelt að ná til, eins og verkleg kennsla og sérkennsla. Þar er sannarlega ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur því að ég held að öllum beri saman um það sem að fræðslumálum standa að þessir tveir þættir séu það sem laklegast hefur verið staðið að undanfarin ár í uppbyggingu og ætti síst af öllu að skerða.
    Ég hefði kosið að sjá fleiri í salnum við umræðu um þessa tillögu því að mér finnst drepið þarna á merkilegt mál og ég mundi vilja sjá bæði að menn tækju afstöðu í þessum málum og eins að það yrði unnið faglega að því að ná fram þeim markmiðum sumum hverjum a.m.k. sem þessi tillaga miðar að.