Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það vekur vissulega eftirtekt að hér skuli vera til umræðu á Alþingi tillaga frá fjórum þm. Framsfl., sem að sjálfsögðu er stórpólitísk og snertir náttúrlega stjórnarstörfin sem fram fara um þessar mundir hér í stjórnarráðunum.
    Ég mætti kannski minna hv. 1. flm. þessarar tillögu á að þegar við vorum saman í stjórnarsamstarfi flutti ég þáltill. um landbúnaðarmál, vel unna og vandaða tillögu um næstu verkefni í landbúnaðarmálum. Og hv. 1. flm. þessarar tillögu hafði mörg orð um það þá að slík tillaga ætti að sjálfsögðu að koma fram frá landbrh. en ekki einhverjum öðrum stjórnarliða.
    Hér er að sjálfsögðu brugðið venju að þessu leyti þar sem blóminn úr Framsfl., fjórir þm. hans leggja hér fram tillögu um stefnumótun í efnahagsmálum. Spurningin er þessi: Hér er málefnasamningur ríkisstjórnarinnar grár og gugginn og ekki kominn mikið til ára sinna, hann er frá 10. sept. árið 1989. Því í ósköpunum notuðu nú þm. Framsfl. ekki tækifærið við endurskoðun þessa samnings til að fá tillögum sínum framgengt? Það vekur líka eftirtekt að málsvarar þeirra í þessari umræðu hafa haft orð á því að það gerði hinn pólitíska gæfumun í öllum þessum efnum að efnahagsmálin væru nú komin í hendur á Framsfl. Og þess vegna verður það enn þá furðulegra, miðað við allar þessar upplýsingar hjá þessum hv. þm. sjálfum, hvers vegna í ósköpunum mennirnir koma þessu ekki í framkvæmd.
    Nú vill svo til að bæði þm. Alþb. og Borgfl. sem hafa talað í þessu máli hafa lýst yfir stuðningi við þessa tillögu. Svo koma þm. Framsfl. hér hver á fætur öðrum og tala um afstöðu Sjálfstfl. og fyrri samskipti Sjálfstfl. í samstarfi þessara flokka. Auðvitað er alveg guðvelkomið að ræða þau mál. En þm. Framsfl. báru ekki þá fram neinar svona tillögur. Engar tillögur af þessum toga voru þm. Framsfl. með í okkar samstarfi. Nú hafa þeir vaknað af værum
svefni eða er þörfin meiri núna en hún var þá? Það er þess vegna alveg útilokað annað en menn líti til þessa máls eins og hvers annars yfirboðs. Auðvitað meina þm. Framsfl. ekki nokkurn skapaðan hlut með þessu.
    Við þinglokin í fyrravor sagði 1. flm. þessarar tillögu um málefni sem þá var verið að ræða, ég held á næstsíðasta degi þingsins, að hann ætlaði að láta það bíða þingflokksfunda Framsfl. að ræða afkomuna í sjávarútvegi og efnahagsmálin. Og það var út úr þeirri umræðu sem þessi nefnd kom og þessi tillöguflutningur.
    Það er einkennilegt miðað við þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta að ríkisstjórnin skuli ekki virða þessa þm. og skoðanir þeirra, ekki í neinu. Skv. þessu virðist sem þeir hafi ekki komið sínum málum áfram við fjárlagagerð og þeir virðast ekki heldur hafa komið sínum málum áfram við endurskoðun á stjórnarsáttmálanum og nú eru þeir komnir í þingið. Það virðist þá helst mega álykta að helst geti þessir hv. þm. búist við liðsstyrk frá stjórnarandstöðunni til að koma þessu máli fram. Ef það væri ekki skoðun

þeirra, þá mundu þeir náttúrlega halda áfram þeirri leið sem að öðru jöfnu er langsamlega beinust og greiðust fyrir stjórnarþingmenn, að koma sínum málum áfram í ríkisstjórnarsamstarfinu.
    Það getur þess vegna ekki verið nema um annað tveggja að gera með þessari tillögu. Annaðhvort að sýnast, annaðhvort að segja þjóðinni frá því eða geta sagt henni það síðar meir að framsóknarmenn hafi verið góðu börnin. Þegar ríkisstjórnin hafi bilað, þá hafi þeir flutt málið inn á Alþingi og svona séu framsóknarmenn góðir. Þeir eru kannski að skapa sér eitthvað svipaða vígstöðu með þessum tillöguflutningi gagnvart samstarfsmönnum sínum núna og þeir hafa verið að bera fram gagnvart okkur sem fyrrverandi samstarfsmönnum. Þetta eru e.t.v. bara þessar hefðbundnu framsóknaraðfarir sem hér eru á ferðinni. Eða þá hitt, sem maður verður að áætla, að óreyndu að þm. sjái von í því að koma þessari tillögu fram í samstarfi við stjórnarandstöðu. Þess vegna eru náttúrlega þessar kveðjur frá þm. Framsfl. til okkar sjálfstæðismanna býsna sérkennilegar og er alveg sjálfsagt að ræða þær síðar meir.
    Það væri t.d. afar þýðingarmikið að fá vitneskju um þau byggðarlög sem forsrh. sem fer með efnahagsmálin var að lýsa yfir í sjónvarpinu að ætti að leggja af á Íslandi. Hann tilgreindi reyndar bara eitt, Kópasker, en það væri gaman að vita hvað það væru mörg Kópasker í öðrum kjördæmum. Það væri gaman að fá að sjá þennan lista hjá Framsfl. um niðurskurð eða úreldingu á byggðarlögum á móts við Kópasker eins og forsrh. hefur lýst yfir að nýjar áherslur í byggðamálum ættu að byggjast á. Það vekur nefnilega býsna mikla eftirtekt að á því sem framsóknarmenn voru að þrætast á um hér í fyrravor er ekkert tekið í þessari tillögu. Þetta er bara venjulegt yfirlýsingargutl sem sýnir einungis frómar óskir.
    Hér hef ég lýst og rætt sérstaklega þessi vinnubrögð og þennan málflutning og vera má, eins og ég sagði áðan, að þetta boði betri tíð með blóm í haga hjá blómanum úr Framsfl. en umræðurnar skýra það ekki og vinnubrögðin skýra það ekki því þá gátu geta menn ekki ráðið fyrr en framsóknarmenn komast til verka
í þessum málum.