Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga sem hér liggur fyrir er athyglisverð fyrir margar sakir.
    Í fyrsta lagi er hún athyglisverð fyrir þá sök að þessir fjórir þingmenn Framsfl. sem að henni standa lýsa með frumvarpstextanum yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Fjórir þingmenn sem veittu ríkisstjórninni traust og stuðning hinn 30. nóv. sl. hafa með þessum tillöguflutningi tekið þá traustsyfirlýsingu til baka. Tillagan hefst með þessum orðum: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja nú þegar á fót vinnuhópa til að móta tillögur um hagræðingu og uppskurð í ríkiskerfinu.``
    Nú vill svo til að í ríkisstjórnum er það siður að einn ráðherra frá hverjum samstarfsflokka hefur þetta verkefni, að vinna að hagræðingu í ríkiskerfinu. Það hefur jafnan verið svo áður en fjárlög eru fram sett að stjórnarflokkarnir hafa sett á fót vinnuhóp sem hefur einmitt það verkefni sem hér er lýst, að gera tillögur um hagræðingu og hér er talað um uppskurð í ríkiskerfinu. Ekkert frumkvæði að þessu leyti hefur komið fram í málflutningi einstakra ráðherra. Þvert á móti eru þau frv. sem núv. stjórnarflokkar leggja ríkasta áherslu á í þinginu til þess fallin að auka rekstrarútgjöldin, auka ríkisútgjöldin, en ekki til þess fallin að draga úr þeim.
    Við getum byrjað á því að rifja upp hvernig þessi ríkisstjórn varð til sem nú situr. Áður höfðu ráðherrar í ríkisstjórninni verið níu. Hugmyndin var sú að reyna að ná einum stjórnarflokki til viðbótar inn í ríkisstjórnina og þá var um það verslað að tveir ráðherrar skyldu bætast í hópinn. Þó lá fyrir að ekki var samkomulag um það hjá stjórnarflokkunum að deila niður þeim ráðuneytum sem fyrir voru heldur var brugðið á það ráð, sem er einsdæmi í sögunni, að skipa sérstakan ráðherra Hagstofu Íslands og síðan hefur hálfkarað ráðuneyti umhverfismála verið við lýði. Ef við lítum á fjárlög og reynum að
átta okkur á þeim viðbótarkostnaði sem þessi framkoma hefur haft í för með sér liggur það fyrir í fjárlögunum sjálfum að umhverfisráðuneyti kostar 23 millj. kr. án þess að nokkurt verkefni sé undir það sett. Það er frá því gengið að fjárveitingar vegna sérstakra verkefna flytjist til þessa umhverfisráðuneytis frá öðrum ráðuneytum ef um það verður að ræða að þangað séu málaflokkar fluttir. Þannig að þessar 23 millj. eru eingöngu nettóútgjöld vegna þess að ríkisstjórnin gat ekki komið sér saman um að halda sig við ráðherratöluna níu. Ef við horfum á hæstv. dómsmrh. geri ég ráð fyrir að viðbótarkostnaður vegna hans embættis sé 7--10 millj. kr. á ári.
    Nú má vera að flutningsmönnum þessarar till. þyki þetta ekki háar fjárhæðir, en þetta sýnir með öðru hversu lítil alvaran er á bak við þennan tillöguflutning. Við getum tekið annað dæmi. Hér stendur í 2. tölul.: ,,Stofnanir verði sameinaðar, starfsemin einfölduð og hagræðingu komið á. Lagðar verði niður stofnanir þar sem færa má starfsemina undir aðrar stofnanir.``

    Á síðasta þingi, á vordögum þá, fór allur kraftur framsóknarmanna og annarra stjórnarmanna í það að setja á laggirnar tvær nýjar stofnanir. Annars vegar Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, hins vegar Hlutabréfasjóð. Báðir þessir sjóðir eru í sömu húsakynnum og Byggðasjóður, þannig að þar eru nú höfuðin þrjú í staðinn fyrir eitt áður. Verulegur kostnaður fylgir þessum nýju stofnunum og ekki nóg með það, þessi stofnkostnaður fellur ekki aðeins á skattgreiðendur og ríkið, heldur fylgir þessari þrígreiningu margvíslegt óhagræði og hún veldur því að viðbrögð eru seinni en ella mundi. Líka þarna hafa flm. þessarar þáltill. sýnt að hugur fylgir ekki máli. Ef þeim svo sýnist hika þeir ekki við að fjölga stofnunum. Í þessu tilviki þegar talað er um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og Hlutabréfasjóð var ástæðan sú að stjórnarsinnar gátu ekki fellt sig við að stjórnarandstaðan ætti neina aðild að þessum sjóðum eins og er um Byggðastofnun. Þarna fylgdi því alvara ekki máli.
    Á síðasta þingi voru það þessir sjóðir, á þessu þingi er það umhverfisráðuneytið. Það fer ekkert leynt, hæstv. forseti, hér á göngum þingsins að margir stjórnarþingmenn kveinka sér yfir því að hafa þurft að standa að því að knýja umhverfisráðuneytið í gegn, eins og gert er, án þess að þörf sé fyrir það. Og auðvitað finnst þeim smánarlegt að til alls þessa kostnaðar skuli stofnað án þess að áður hafi verið fyrir því séð að verkefni yrðu færð til væntanlegs umhverfisráðuneytis.
    Í 1. tölul. þessarar greinar er komist svo að orði að afnema skuli ,,sjálfvirkni í útgjöldum``. Þá er spurningin: Hafa þeir framsóknarmenn í raun og veru hug á að afnema sjálfvirkni í útgjöldum? Er það hugsanlegt að fyrir þinginu liggi nú frv. sem einmitt felur í sér aukna sjálfvirkni? Er ég þar að tala um hinn dæmalausa skatt sem lagður er á hóffjaðrir og ætlað er að renna til ákveðinna verkefna. Ég get á hinn bóginn, og það skulu vera mín lokaorð til að tefja ekki, viðurkennt að ríkisstjórnin hefur afnumið sjálfvirkni í útgjöldum hvað varðar þjóðarbókhlöðuskattinn því að það er búið að stela honum
öllum, og rúmlega það, með afgreiðslu síðustu fjárlaga.