Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég gat þess í ræðu minni áðan að augljóst væri að þeir hv. fjórir þm. Framsfl., sem flytja þessa tillögu, líti svo á að þörf sé úrbóta í meðferð ríkisfjármála eins og þau eru nú um þessar mundir og að út af fyrir sig sé ekki við þá hv. þm. að sakast. Nú hefur hv. 1. flm. tillögunnar upplýst að þessar tillögur, bæði þessi tillaga og aðrar sem þeir fjórmenningar hafa í sínu farteski, eigi mikið fylgi innan Framsfl. og hafi hlotið mikinn stuðning á miðstjórnarfundi Framsfl. Nú hlýtur að verða spurt: Ef þessi skoðun er ríkjandi innan Framsfl., hver nauður rekur þá hv. þingmenn til þess að flytja tillögu af þessu tagi hér á Alþingi þar sem formaður Framsfl. er nú hæstv. forsrh. og þessi flokkur er ekki einungis forustuflokkur ríkisstjórnarinnar, heldur á hann þar öfluga forustumenn? Þá hlýtur það að liggja fyrir annað tveggja, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að í raun og veru sé hér verið að lýsa vantrausti á hæstv. ríkisstjórn í meðferð hennar á fjármálum ríkisins og þar með vantrausti á aðild Framsfl. að þessari ríkisstjórn, ellegar að hér sé meira eða minna um sýndarmennsku að ræða. Ég vitna þó til þess að í grg. með tillögunni er gerð nokkuð góð tilraun til þess að sýna fram á mismunun í því hvernig farið er með fjármál ríkisins annars vegar og fjármál heimilanna og fyrirtækjanna hins vegar. Heimilin og fyrirtækin í landinu verða í sífellu að draga saman á meðan útgjöldin þenjast út hjá ríkissjóði. Þetta er nákvæmlega í samræmi við það sem ég er margsinnis búinn að sýna fram á í mínum málflutningi um þessi mál. Til að mynda á þessu ári vaxa rekstrarútgjöld ríkissjóðs um 2% að raungildi. Á meðan er samdráttur í kaupmætti launafólks og samdráttur er í því fé sem fyrirtækin í landinu hafa til ráðstöfunar. Það þýðir að bæði einstaklingarnir og fyrirtækin skuli borga meira til ríkisins en áður á meðan þau hafa minna handa á milli til að geta staðið skil á þessum greiðslum til ríkissjóðs, þannig að þetta er út af fyrir sig alveg hárrétt.
    Það virðist vera þannig að áhrif Framsfl. innan ríkisstjórnarinnar varðandi fjármál ríkissjóðs séu svo lítil, ef þessi tillöguflutningur er eitthvað sannferðugur, að þessir fjórir hv. þm. telja sér nauðsynlegt að flytja vantrauststillögu á Alþingi á meðferð þessara mála. Það er út af fyrir sig þeim ekki til lasts ef sá er tilgangurinn, en ef hinn er tilgangurinn, að vera hér einungis með sýndartillögu á ferðinni, þá er það auðvitað þeim lítið til hróss.
    Á undanförnum árum hafa útgjöld ríkissjóðs þanist út og starfsmannafjöldi ríkissjóðs hefur farið vaxandi eins og ég hef iðulega rakið. Á tímabilinu 1980--1990, miðað við þau fjárlög sem fyrir liggja, fjölgar starfsmönnum í A-hluta ríkissjóðs um 3328 manns. Auðvitað er þetta ekki allt núverandi ríkisstjórn að kenna. En þetta sýnir hvernig þróunin er á heilum áratug. Á sama tíma hefur það gerst að ríkisútgjöldin hafa vaxið að raungildi um 20,7% og eru á árinu 1989 28,8% af vergri landsframleiðslu meðan þau

voru 22,8% á árinu 1984.
    Þetta sýnir meðferð ríkisfjármála á síðari árum. Það sýnir einnig að við alla þessa starfsmannafjölgun, til að
mynda á árunum 1982--1988, fjölgaði starfsmönnum í einni aðalskrifstofu Stjórnarráðsins um 113%. Hér um bil allan þennan tíma var framsóknarmaður þar í forustu. Þetta var í landbrn. Þegar ég var í landbrn. 1982 voru þar 7 1 / 2 stöðugildi, en árið 1988 hafði þeim fjölgað um meira en helming, um 113%. Og þeim er enn að fjölga, það er enn verið að innrétta í því ráðuneyti fyrir nýja starfsmenn.
    Það er því öðru nær en að þeir sem hafa verið í forustu fyrir Framsfl. hafi eitthvað sérstaklega haldið vel á málum og forðast að auka starfsmannahald ríkissjóðs eða eyðslu á þessum árum. Og þó að tillögur af þessu tagi kunni að eiga í orði kveðnu mikinn hljómgrunn á miðstjórnarfundi Framsfl., þá sýna störf núv. ríkisstjórnar að það er bara ekkert að marka. Útgjöldin þenjast út þrátt fyrir að Framsfl. eigi þar fulla aðild að og hafi stjórnarforustu í ríkisstjórninni. Ef það væri svo að þetta væri raunverulegt vantraust á ríkisstjórnina í ríkisfjármálum af hálfu þessara fjórmenninga, þá væri það góðra gjalda vert. En þá eiga þeir að sýna í raun að þeir séu tilbúnir að snúa við, að þeir séu tilbúnir að taka málið öðrum tökum og þeir séu tilbúnir til að hætta stuðningi við þessa ríkisstjórn ef hún heldur áfram á sama vegi. Það er það sem gildir. Og öðruvísi verður málum ekki komið fram eða snúið við af hálfu þessarar ríkisstjórnar því þessir hv. þm., sem ég vænti að meini allt vel með sínum tillöguflutningi, fá auðvitað engu ráðið nema þeir sýni ríkisstjórninni í tvo heimana.
    Þetta er svo þeim mun eftirtektarverðara sem meðal þessara fjögurra flm. tillögunnar eru einmitt tveir félagar mínir úr hv. fjvn. sem eru þar með aðaltalsmenn Framsfl. í fjármálum ríkisins hér á Alþingi. Þeir telja sig samt knúða til að flytja slíka vantrauststillögu hér í þingsölum.