Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það er rétt í framhaldi af því sem kom hér fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns að vekja sérstaka eftirtekt á því sem 1. flm. tillögunnar hafði hér á orði í ræðu þar á undan eða næst þar á undan þegar hann sagði að eina vonin til að fá breytingar í þessum efnum væri að nota þennan vettvang hér. Það væri að nota þingið. Þetta er afar mikilvæg yfirlýsing, þetta er grundvallaryfirlýsing vegna þess að hún sýnir að þm. Framsfl. hafa ekki náð fram þessum markmiðum innan ríkisstjórnarinnar. Þess vegna nota þeir þingið, þess vegna er það eina leiðin. Og þá væntanlega vegna þess að þeir eru að leita eftir stuðningi stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Sjálfstfl. við að koma fram þessum málum sínum.
    Það er mikil ástæða til að vekja sérstaka eftirtekt á þessu, enda hafa þeir ekki notið mikillar virðingar af hendi flokksbræðra sinna eða ríkisstjórnarinnar hér í þessari umræðu. Ég held að enginn ráðherra Framsfl. hafi rekið hér inn nefið meðan á umræðunni hefur staðið, þaðan af síður alþýðuflokksmenn eða alþýðubandalagsmenn. Og þm. úr þeim flokkum hafa --- ja, ég man ekki eftir að hafa séð nema einn eða tvo, kannski þrjá. Eins og einn mann úr hverjum flokki. Svo eru þeir að rífast um það að við sjálfstæðismenn skulum ekki sýna þeim sérstaka tillitssemi. ( Forseti: Forseti vill gefa þá skýringu vegna umræðna um fjarveru þm. að breyting varð á dagskrá þessa fundar og munu allmargir hv. þm. ekki hafa gert ráð fyrir fundi milli kl. 1 og 2.) Þá leiðir það væntanlega af því að forustumenn þessarar tillögu hljóta að óska eftir því að umræðu verði frestað þar til ráðherrum t.d. Framsfl. gefist kostur á að hlýða hér á mál þeirra og lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessarar tillögu.
    En það var líka í framhaldi af þessu sem hv. þm. hafði mörg og stór orð um það hvað ég hefði vikist ódrengilega að forsrh. vegna þess sem ég hafði eftir honum um ummæli er hann viðhafði í sjónvarpsþætti. Nú vill svo til að ég er með útskriftina úr þessum sjónvarpsþætti og ég skal hafa hana hér yfir, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. þann hluta sem hér er sérstaklega fjallað um. Þar segir svo:
    ,,En málið er ekki svo mjög flókið og málið getur þýtt það að menn þurfa að þjappa eitthvað saman byggð og það er viðkvæmt. Ég er sannfærður um að þetta hlýtur að þýða að það þarf, eigum við að segja, að velja svona meginpunkt á landsbyggðinni þar sem rétt verður að veita sem mest af þeirri þjónustu sem fólkið vill fá og þarf að hafa. Og það getur náttúrlega þýtt að eitthvað sé dregið frá öðrum stöðum í nágrenninu.``
    Hvað haldið þið að þetta muni nú þýða? Ef teknar eru stjórnvaldsákvarðanir eða gefnar stjórnvaldsyfirlýsingar af þessum toga, hvernig haldið þið þá að þessum fámennari byggðum gangi að berjast fyrir sínum málum? Og svo er þessari sjónvarpssendingu lokað með þessu niðurlagi, með leyfi forseta: ,,... að ýmis þjónusta sem menn hafa

reynt að reka á smáum stöðum eins og Kópaskeri verði ekki veitt þar og menn verða þá að sætta sig við að fara lengra til að fá hana.`` Hvað haldið þið að svona ákvörðun gagnvart litlum og fámenum byggðarlögum þýði annað en dauðadómur? Auðvitað ekkert annað.