Málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að lausn verði fundin á fjármögnun nýsmíðaverkefnisins sem stendur á stokkum í Slippstöðinni á Akureyri til að tryggja þeirri stöð verkefni og til að félagið, sem ákveðið hefur að kaupa þetta skip, geti fengið það inn í sinn rekstur sem fyrst. Samningar hafa tekist milli væntanlegs kaupanda og Slippstöðvarinnar um að þessi kaup verði að veruleika. Sjútvrn. hefur fyrir sitt leyti fallist á að taka megi annað skip upp í kaupin og að fresta afskráningu þess skips, en það skiptir miklu máli fyrir framkvæmd málsins. Þetta hefur tekist með samstarfi iðnrn., sjútvrn. og fjmrn. en þessi þrjú ráðuneyti tóku upp samstarf í haust til að leysa fjármögnunarvanda og annan vanda sem risið hefur vegna þessarar nýsmíðar sem í var ráðist án þess að kaupandi væri fenginn að skipinu.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að því miður hafnaði stjórn Fiskveiðasjóðs lánsbeiðni frá væntanlegum kaupanda. Þessari beiðni var hafnað hinn 21. des. Ég brá því á það ráð að hlutast var til um nýjar fjármögnunarleiðir. Það var leitað til Byggðastofnunar, eins og hv. þm. nefndi, og reyndar til Landsbankans, auk Fiskveiðasjóðs. Og eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, sem reyndar er einnig stjórnarmaður í Byggðastofnun, þá samþykkti stjórn þeirrar stofnunar hinn 30. jan. sl. að lána 40% af smíðaverðinu. Það liggur nú fyrir að 40% af smíðaverðinu fást að láni til þessa tiltekna fyrirtækis, hins væntanlega kaupanda, ef samkomulag næst við Byggðastofnun um veðrétti.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, ég tel að það eigi að vera unnt að ná samkomulagi um veðréttina og treysti því að báðar þessar mikilvægu lánastofnanir sem ég hef hér nefnt, Byggðastofnun og Landsbankinn, leysi það mál sín á milli. Þær hafa fyrr tekist á við slík verkefni, og ég fulltreysti því að ekki þurfi sérstakar umræður á Alþingi til að koma því í kring.