Málefni Slippstöðvarinnar á Akureyri
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Maður hlýtur að efast um að hv. 2. þm. Norðurl. e. beri í raun og veru málefni Slippstöðvarinnar og atvinnuöryggi fólksins sem þar starfar fyrir brjósti þegar hann gengur hér fram hvað eftir annað til að vekja athygli á sér og sínum málflutningi fremur en viðfangsefninu sem fyrir liggur. Þetta er fjarstæðukennt tal sem hann hefur hér uppi. Ég lýsti því eingöngu sem ég tel raunhæfa leið í málinu og ég vitnaði að sjálfsögðu til þess að leitað hefði verið til Byggðastofnunar um að hún yki lán sitt til þessarar framkvæmdar vegna þeirra vandræða sem málið hefði lent í.
    Það er rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að haustið 1987 samþykkti stjórn Byggðastofnunar að lána sem svaraði 15% af smíðaverði þessa skips gegn öðrum veðrétti. Nú hefur stofnunin með samþykkt sinni 31. jan. sl. aukið lánshlutfallið upp í 40% en biður um samhliða fyrsta veðrétt. Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni, þ.e. að lánastofnanir komi sér saman um hvernig veðtryggingar verði best upp settar til að tryggja hagsmuni allra, kaupanda, seljanda og lánveitanda. Það er kjarni þessa máls. Fjármagnið er til reiðu ef samkomulag næst um þetta. Ég get líka látið þess getið hér að ég hef rætt við sjútvrh. og Fiskveiðasjóð um hugsanlega lánveitingu til skipsins úr þeirri átt, en ég tel hentugast að leita þangað þar sem lausnin kæmi fyrst að gagni.
    Að lokum vil ég segja að sem betur fer blasir ekki atvinnuleysi við starfsmönnum Slippstöðvarinnar, þeir hafa verið endurráðnir frá 1. febr., 170 talsins eins og hv. málshefjandi veit mætavel. En það er vissulega nauðsynlegt, og að því verki vil ég vinna, að tryggja þeim verkefni í vetur. Þar er þetta nýsmíðaverkefni mjög mikilvægt og það verk sem á eftir því gæti komið. En það er satt að segja hálfþreytandi að hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli hvað eftir annað nota þennan virðulega ræðustól til þess að vekja athygli á sjálfum sér með þeim hætti sem hér ber raun vitni.