Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að halda uppi hér miklu máli um þessa tillögu umfram það sem hér hefur komið fram, sem eru aðalatriðin í málinu. Þó vil ég aðeins segja það í sambandi við þær fullyrðingar sem komu hér fram áðan frá þremur þingmönnum Sjálfstfl., hv. 2. þm. Norðurl. e., hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Austurl., þar sem þeir voru að gefa það í skyn að þessi tillaga væri nokkurs konar vantrauststillaga á ríkisstjórn. Þetta er náttúrlega útúrsnúningur eins og allir geta séð sem eru sanngjarnir menn í sambandi við málafylgju á Alþingi.
    Það hefur raunar komið fram að allir þessir hv. þm. fagna í raun og veru þessari tillögu. Það er hægt að rökstyðja nánar með því að a.m.k. tveir þeirra, hv. 4. þm. Austurl. og hv. 2. þm. Norðurl. v., eru þátttakendur af heilum hug í því að reyna að finna möguleika á því að breyta þessu kerfi okkar, ríkiskerfinu, að því er varðar fjármál og fjármálastjórn. Kemur það m.a. fram í því að báðir þessir hv. þm. eru flm. ásamt öllum nefndarmönnum í fjvn. að því frv. sem hér liggur frammi til laga um ríkisfjármál. Og þar koma fram enn þá skýrar en í þessari þáltill., sem er áhersluatriði, hin raunverulegu rök fyrir nauðsyn þess að fara að breyta til í meðferð ríkisfjármála, fara nýjar leiðir. Það er aðalatriðið.
    Ég geri ráð fyrir því að þessi röksemd komi skýrar fram þegar þetta frv. verður tekið til umræðu hér á hv. Alþingi og miðað við þær undirtektir sem fram hafa komið í þjóðfélaginu, þá hygg ég að það sé mikill meiri hluti þjóðarinnar sem bókstaflega ætlast til þess af Alþingi að það verði farið að taka öðruvísi á þessum málum og fara nýjar leiðir. Og ég get bætt því við að eins og fram kemur í greinargerð með þessu lagafrv. þá er hér tekið mið af því sem er reynsla komin fyrir til hagræðingar á öllum Norðurlöndunum. Meðferð ríkisfjármála eins og hér er viðhöfð og hefur tíðkast í áratugi þekkist hvergi nokkurs staðar nema á Íslandi.
    Og ég verð að segja það við þessa vini mína, hv. 2. þm. Norðurl. v. og 4. þm. Austurl., að auðvitað erum við framsóknarmenn ekki að firra okkur ábyrgð á því sem hefur skeð í þessum málum á undanförnum árum. Við erum jafnsekir í því eins og aðrir. Svo vill til að Sjálfstfl. hefur lengst af á því tímabili sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vitnaði til farið með forustu í ríkisfjármálum, ýmist sem fjmrh., formaður fjvn. o.s.frv. Þess vegna mætti spyrja af hverju þeir hafi ekki haft frumkvæðið að breytingum.
    En það er ekki það sem er aðalatriðið heldur það að við söðlum um og tökum upp ný vinnubrögð og þar held ég að við séum allir í raun og veru sammála. Og það má svara því til þegar verið er að tala um af hverju áhrifin af þessu séu ekki komin strax fram að við vorum settir í þessa efnahagsnefnd vegna þeirrar óánægju sem kom fram strax við myndun núverandi ríkisstjórnar og þeirrar skoðunar að það þyrfti að ganga lengra í aðgerðum til þess að skera upp fjármál

ríkisins en náðist samkomulag um. Við setjum fram okkar ákveðnu stefnu fyrir hönd flokksins og fylgjum því eftir með ákveðnum tillögum og síðan með þáltill. til þess að hefja umræður um það hér á hv. Alþingi hvort menn eru ekki sammála um, í hvaða stjórnmálaflokki sem þeir eru, að hingað og ekki lengra verði farið á þeirri braut sem hefur verið farin á undanförnum áratugum. Það þarf að stokka hér algerlega upp og fara nýjar leiðir og það skiptir ekki nokkru máli hver hefur haldið um stjórnartaumana á undanförnum áratugum í sambandi við þessi mál. Það er runnið sér til húðar. Það er ljóst um ríkisfjármálin alveg eins og kjarasamningana að þar verða ekki lengur notaðar sömu aðferðir og hafa verið viðhafðar á síðustu áratugum.
    Það væri hægt að halda hér margra klukkutíma ræðu til þess að rökstyðja þetta. Ég ætla ekki að gera það hér. En ég vil bara undirstrika það að menn skulu láta niður falla alla togstreitu um það hverjir hafa farið með völd á undanförnum árum. Þörfin fyrir þetta er til staðar og það er hún sem er aðalatriðið og ég skora á hv. þm. að láta af öllum metingi um þetta mál. Hér þarf bara að taka til höndum og ná samkomulagi um það með hvaða hætti er hægt að gera skynsamlegar tillögur og leiða þær fram til raunhæfra aðgerða. Það er það sem íslenska þjóðin þarf og það þarf að gera þennan uppskurð á ríkiskerfinu. Það er alveg ljóst. Og við skulum hætta öllum metingi um hver hafi verið við völd og hver hafi gert þetta eða hitt. Aðalatriðið er að sjá fram á nýjar aðgerðir. Það er kominn tími til.