Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það að með þessum tillöguflutningi er þess freistað að fá Alþingi Íslendinga til að taka á þessu mikilvæga máli kerfisbundið og í alvöru.
    Það er óhætt að segja um þá tillögu sem hér liggur fyrir að í hana hefur verð lögð glettilega mikil vinna. Hún fjallar um mjög mikilvæg markmið sem reynt er að ná fram og hún skýrir það í mörgum liðum hvað um er að ræða, endurskoða starfsmarkmið ríkisstofnana, sameina stofnanir, einfalda, leggja þær niður sumar, auka sjálfstæði ríkisstofnana, fá þeim sjálfstæðan fjárhag, auka ábyrgð stjórnenda, bjóða út rekstrarþætti, selja ríkisfyrirtæki, fækka ríkisstarfsmönnum o.s.frv.
    Hér er um að ræða mál sem snertir alla þjóðina og er afar mikilvægt. Við verðum að ná tökum á halla ríkissjóðs. Við verðum að skera ríkiskerfið upp. Þetta hygg ég að við séum sammála um. Ég hef þess vegna orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þá umræðu sem hér hefur farið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega sjálfstæðismanna. Mér er engin launung á því að ég átti von á því að fá frá þeim talsvert mikinn stuðning við þessa tillögu vegna málflutnings þeirra á undanförnum árum. Í stað þess hafa þeir reynt að gera þessa tillögu tortryggilega og farið út í, mér er næst skapi að segja útúrsnúninga í umræðum um sýndarmennsku og annað slíkt. Þeir benda á að framsóknarmenn séu í ríkisstjórn og af hverju beiti menn þessu ekki þar.
    Við höfum hins vegar sagt að við teljum að Alþingi, fjárveitingavaldið, eigi að fjalla um þessi mál, þau séu það brýn. Hér eru allir flokkar sekir um það að hafa aukið ríkisreksturinn. Og ég vil beina þeim hv. sjálfstæðismönnum sem svona tala inn á þá braut að athuga eigin málflutning. Á sama tíma og þeir hafa rætt um báknið, á sama tíma og þeir ræða um báknið burt eða baráttuna við
báknið hafa þeir bæði haft forsrh. og fjmrh. og sáralítið gert. Af hverju skyldi það vera? Var það af því að þeir gátu ekki komið því fram í ríkisstjórn eða höfðu þeir ekki áhuga? Ég nenni ekki að ræða það hérna vegna þess að það skiptir ekki máli. Ég held að þetta sé svo stórt mál að því verði ekki fram komið nema með mikilli samstöðu og ég get tekið undir margt í málflutningi hv. þm. Pálma Jónssonar þó ég sé ekki sammála öllu sem hann sagði. Ég bjóst þess vegna við að við fengjum betri undirtektir einmitt sjálfstæðismanna undir þetta mál vegna þess að ég hélt að þetta væri að einhverju leyti í samræmi við þann málflutning sem þeir hafa haft uppi á undanförnum árum þó að tillögur þeirra hefðu kannski mátt vera ítarlegri. Og kannski hefðu þeir þá, ef við tökum upp málflutning hv. þm. Kristins Péturssonar, átt sjálfir að gera meira þegar þeir voru í ríkisstjórn með forsrh. eða fjmrh. Það er engin launung að fjmrh. Sjálfstfl. misstu reksturinn á ríkissjóði langt, langt fram úr fjárlögum. Það hafa flestir fjármálaráðherrar því miður gert. En þeir gerðu það líka. Og það er

öllum ljóst að þennan halla ráðum við ekki við með því að auka tekjur eða skattlagningu eða skera niður framkvæmdir. Það verður að skera ríkisreksturinn upp.
    Ég gerði mér vonir um það þegar við félagarnir ræddum um það að leggja þetta fram hér á Alþingi að einmitt hér á Alþingi Íslendinga gætu menn sameinast, tekið höndum saman í þessu mikilvæga máli og reynt að leysa þetta saman því að öðruvísi verður það ekki gert. Hér er um mörg, viðkvæm, erfið og flókin mál að ræða. Þetta þarfnast samstöðu, í þessu máli er þjóðarnauðsyn að menn nái samstöðu. Ég vil þess vegna hvetja menn til þess að leggja til hliðar karp um fortíð og sýndarmennsku og tilraunir til að gera þennan málflutning á einhvern hátt tortryggilegan.
    Í reynd hygg ég að allir séu sammála um markmiðið og ég held að menn væru meiri menn ef þeir réttu hver öðrum höndina, tækjust á við þetta því að við vitum allir að það stefnir í mikinn vanda ef menn ná ekki tökum á ríkisfjármálum.