Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Virðulegur forseti. Þessi till. sem hér er til umræðu um uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu er góðra gjalda verð og fullkomin nauðsyn á því að gera uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu. Og hefði verið mikið atriði að ná sem víðtækustu samstarfi um flutning á till. um þetta efni. En það vekur töluverða tortryggni að þegar þessir ágætu flm. leggja þetta til, að ríkisstjórnin skipi vinnuhóp sem á að taka mið af þessum tillögum, þá sjáum við að a.m.k. þrír af þessum flm. hafa greitt atkvæði með því að fjölga um eitt ráðuneyti og það án verkefna. Sá ráðherra sem á að fá þetta verkefnislausa ráðuneyti bíður í ofvæni eftir að fá heimild til að geta ráðið sennilega töluvert á annan tug starfsmanna. Og þetta kemur hann til með að framkvæma fyrir atbeina þeirra manna sem eru að leggja þetta til, þessa till., þriggja þeirra. Það hefur ekki enn reynt á 1. flm. en málið er nú komið til efri deildar. Við skulum vona að hann verði sjálfum sér samkvæmari en hinir þrír flm.
    Hvað er verið að gera hér? Þvert ofan í það sem ríkisstjórnin er búin að lýsa yfir og forsrh., að það eigi að stefna að því að fækka ráðuneytum. Og utanrrh. --- hann er nú auðvitað aldrei hér í þinginu, það heyrir til undantekninga --- en hann brá sér til Vestmannaeyja þar sem hann var alls ekki á því að fækka ekki nema um tvö til þrjú ráðuneyti. Hann bauð betur í Eyjum. Hann hefur ekki endurtekið þessa ræðu á fasta landinu enn þá. Það getur vel verið að hann hafi flutt hana í Brussel yfir þeim eða einhvers staðar annars staðar, en þar varð að ganga lengra í sparnaði. Hver trúir á þetta lið?
    Hvernig var meðferð fjármála hér við lok fjárlagafrv. í vetur? Þegar 3. umr. er að ljúka hleypur leiðtogi framsóknarmanna upp hér í þinginu og flytur till. um að kaupa 500 dagblöð til viðbótar við það sem fyrir var. Þessi till. var
samþykkt. Hún var líka samþykkt af þessum mönnum sem vilja uppskurð og hagræðingu í ríkiskerfinu. Ég spyr þá að því: Af hverju samþykktuð þið slíka till.? Hún kostar ríkissjóð og skattgreiðendur 30 millj. Svo takið þið núna þátt í niðurskurði á bráðnauðsynlegum hlutum til framkvæmda sem áður var búið að skera niður við trog svo að segja.
    Það er einmitt þetta framferði ykkar, hv. flm. í neðri deild sem hafið tekið þessa afstöðu, sem verður til þess að við sjálfstæðismenn, sem viljum slíkan uppskurð, tortryggjum ykkur, að það fylgi ekki hugur máli. Til þess að hugur fylgi máli verða menn að sýna það í verki í öllum sínum gerðum að þeir vilji uppskurð á ríkiskerfinu og fara betur með fjármuni en gert er. (Gripið fram í.) Hvað var formaður bankaráðs Búnaðarbankans að segja? Kom það ekki eitthvað við Búnaðarbankann, eða hvað? Ég var ekkert að ráðast á þann lið, þið megið kaupa málverk þrátt fyrir fsp. framsóknarþingmanna um það, alveg eins og þið getið fyrir mér.
    Þetta er ekki leiðin til að efla samstöðu og samstarf, það ætla ég að segja hv. 1. þm. Vesturl.,

sem breiddi hér töluvert úr sér í ræðustólnum áðan. Ég vil fá skýringu hjá honum. Af hverju er hann að greiða atkvæði með því að auka stjórnkerfið? Af hverju er hann að greiða atkvæði með því að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti? Af hverju berjast framsóknarmenn ekki fyrir því að spara í þessum efnum? Af hverju er farið út í svona verslunarrekstur eins og með kaupum á Borgfl. á sl. hausti? Allt er þetta gert á kostnað skattborgaranna í landinu, allt þetta brask.
    Og svo er talað um að spara. Umhverfisráðherrann er þegar búinn að bjóða umhverfisráðherra Vestur-Þýskalands til Íslands til þess að kynna honum æðarvarp. Sumir Þjóðverjar halda að Íslendingar reyti allar fjaðrir af kollunni til að selja sem æðardún og skilji hana eftir strípaða. Það stendur ekki á að bjóða, það er alltaf verið að bjóða og eyða. Utanrrh. ætlaði að fækka sendiráðum, hann hafði sterk orð um það. Svo kemur blessaður 4. þm. Vesturl. og segir að öllum fjmrh. hafi mistekist nema Ragnari Arnalds, honum hafi tekist vel. Við skulum segja að þetta sé allt satt og rétt. Af hverju var þá verið að sækja hann Ólaf Ragnar Grímsson og gera hann að fjmrh., mann sem er ekki einu sinni inni á þingi, og ganga fram hjá afbragðs fjmrh. eins og Ragnari Arnalds? Er gæfuleysið algert? Það er öllum tækifærum lokað til þess að rétta við fjárhag þessarar þjóðar. Haldið þið að hann Ólafur Ragnar geri það? Nei, það dettur engum manni í hug að halda það, ekki nokkrum manni.
    Nei, kæru, elskulegu framsóknarmenn. Ég bið ykkur að breyta nú algerlega um skoðun til þess að við sem viljum standa með ykkur í þessu máli getum það, að þið hættið að standa að svona eyðslutillögum og hættið að hlýða þessum fyrirmælum ykkar ráðherra og manna sem virðast ekkert vit hafa á fjármálum. Og þar er formaður þingflokks ykkar mjög framarlega í flokki. Enda hefur hann nú varla tíma orðið til að staldra lengi hér við því maðurinn þarf víða við að koma. Hann þarf nú að sjá líka um Sovétríkin og mestalla Evrópu. Ég tala nú ekki um Norðurlöndin sem eru nú bara svona innan túnsins hjá honum. Svoleiðis að hann hefur alveg nóg að gera.
    En við skulum svo snúa okkur í alvöru að þessum málum. Þessi till. er góðra
gjalda verð en til þess að við hinir sem viljum standa að þessum málum trúum ykkur og treystum, hættið þið þá að samþykkja eyðsluna og óráðsíuna.