Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég tel að það sé nauðsyn að gera sér grein fyrir því að það gengur ekki að standa að málum eins og verið hefur á undanförnum árum gagnvart útþenslu ríkiskerfisins. Menn mega deila um góð markmið í þeim efnum en eitt er víst, það verða ekki til menn til að borga þá skatta sem þarf þá að leggja á verði stefnan óbreytt. Og þegar ég segi stefnan óbreytt þá á ég ekki við einhverja eina ríkisstjórn, ég á raunverulega við það að stofnanirnar hafa meira og minna verið að taka völdin í þessu landi.
    Hæstv. samgrh. lét að því liggja að vandamálið væri það að Alþingi væri of smámunasamt í sínum tillöguflutningi og hér væri starfað í tveimur deildum. Tvær deildir skapa meiri síur í þinginu til að hægja á því að vitlaus frv. verði að lögum. Og þess vegna hafa tvær deildir verulega mikið að segja. En hafa menn þá verið með smámunasemi? Byggðum við ekki flugstöð meira og minna fyrir utan heimildir? Við samþykktum að fara af stað. Fundum við ekki ákaflega fallegt bókasafn sem hvergi var tekið upp sem verkefni þeirrar stofnunar? Það var Seðlabankinn sem átti þetta bókasafn. Fundum við ekki fallega veislusali inn frá þar sem Rúgbrauðsgerðin var án þess að hafa heyrt talað um að það hefði verið veitt krónu í þessar framkvæmdir? ( Gripið fram í: Hver var fjmrh.?) Og hver var fjmrh. má spyrja? Ég held að þeir hafi verið úr flestum flokkum meðan uppbyggingin stóð yfir. ( Gripið fram í: Ja, a.m.k. úr Alþb.) Ég ætla að halda áfram, ég ætla að halda áfram. ( Gripið fram í: Framsókn gæti nú hafa verið í ríkisstjórn.) ( Gripið fram í: Hún var það.) ( Gripið fram í: Já, það er rétt.) Forseti, getur orðið að samkomulagi að það verði eins og á knattspyrnuleikjum þegar óþarfa tafir verða að tíminn verður framlengdur? ( Forseti: Forseti mun ekki framlengja tíma ræðumannsins.) Ég ætla að halda áfram.
    Við erum með það kerfi að launaskrifstofa ríkisins borgar út. Það er búið að ráða mann í vinnu hjá stofnuninni og hún borgar út. Svo er sama stofnun með
sértekjur. Sértekjurnar fara ekki inn í ríkiskassann, þær fara inn til gjaldkera stofnunarinnar, en ríkið borgar út. Svo bara gerist það í lok ársins að þetta passar ekki, það er búið að eyða sértekjunum í allt annað. En það hefur samviskusamlega verið haldið á því máli að borga starfsmönnum út.
    Svona er náttúrlega ekki hægt að stjórna. Það er gjörsamlega vonlaust að búa við þetta. Stjórnendurnir verða að hafa pyngjuna undir höndum og þeir verða að vera blankir, þeir verða að standa frammi fyrir því að geta ekki borgað ríkisstarfsmönnum út hafi þeir sóað peningunum í hreina vitleysu. Þá kemur þrýstingurinn innan frá, að forstjórinn sé óhæfur og það verði annar að taka við.
    Ég ætla að halda áfram að spyrja. Er það hundrað prósent víst að við þurfum allar þær stofnanir og

embættismenn sem við höfum? Embætti húsameistara ríkisins er eitt af þeim embættum sem hefur verið falið ákveðið verksvið. Og maður hefði haldið að það væri þó nokkuð að gera í því embætti. Engu að síður greinir forsrh. frá því að í tómstundum sé heimilt að vinna að öðrum verkefnum og þau verkefni eru af þeirri stærð að það hvarflar að manni að þau séu meiri háttar hugverk á sviði byggingarlistar. Og ég spyr: Hvar ætla menn að hafa eftirlit með því hvar menn hugsa? Flest stórfyrirtæki sem ráða menn í vinnu gera þá kröfu til starfsmanna að þeir séu ekki með önnur launuð verkefni. Hvíldartíminn sé sem sagt notaður til þess að hvíla sig. Og auðvitað er það grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að það vill enginn hafa mann í vinnu sem vinnur fyrst átta tíma og svo tólf tíma á einhverjum öðrum stað. Það er hætt við að það komi niður á þessum átta ef trúa má vinnurannsóknum í það minnsta.
    Ég held þess vegna að það sé tímabært að menn reyni að setjast niður við það verkefni í fúlustu alvöru að spyrna það harkalega við fótum að peningar streymi ekki út úr fjmrn. til stofnana fram hjá fjárlögum, fram hjá vitund ráðherra nánast, svo sjálfvirkt að maður situr hissa á eftir. Þjóðleikhúsið er mjög gott dæmi um stofnun sem er rekin eftir því mottói, hefur verið rekið eftir því mottói að það er ekki hægt að hugsa sér öllu meira stjórnleysi en þar hefur viðgengist.
    Ég mætti einu sinni fyrir Framsfl. að tilmælum fyrrv. menntmrh., Sverris Hermannssonar, inn í Rúgbrauðsgerð til þess að hlusta á hugmyndir leikara um hvað væri eðlilegt framlag hins opinbera til slíkrar starfsemi. Og það var tvennt sem sló mig svo út af laginu að ég hef ekki gleymt því enn þann dag í dag. Annað var það viðhorf eins leikara sem þar kom fram, að það skipti nánast engu máli hvort menn sæktu leiksýningar eða ekki, aðalatriðið væri að leiksýningin sem slík væri ósvikið listaverk, skulum við segja. Hitt var það að aðgöngumiðar ættu að borga um 10% af kostnaði. Þannig væri það á Norðurlöndum. Ég verð að segja eins og er, mér leist ekki á þessi markmið. Og ég veit að ég fékk ekkert hól fyrir mínar athugasemdir.