Uppskurður og hagræðing í ríkiskerfinu
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég get vel tekið undir það að þessi tillaga sé tímabær og að mörgu leyti umhugsunarverð. Ég hef a.m.k. haft það á tilfinningunni undanfarin ár að stjórnmálamenn séu hálfgerðir fangar embættismannakerfisins, að það séu ekki þeir sem ráða í raun og veru og það sé farið allt of mikið eftir þeirra ráðleggingum, þeirra skoðunum á hverju máli. Og það er rétt sem síðasti hv. ræðumaður sagði hér, að það er sýnilegt að sumir af þessum embættismönnum taka sér fyrir hendur margt sem ég a.m.k. geri mér ekki grein fyrir að þeir hafi leyfi til eins og með nýja teikningu á Þjóðleikhúsinu. Það er að vísu sagt að þetta sé gert í hjáverkum, þetta sé hans mál, en einhvern veginn finnst mér nú sú skýring ekki trúverðug. Og ef við líka hugsum um hvernig var með athugunina á að fara með Jökulsá á Fjöllum hér forðum daga austur í Jökulsá á Dal, stóru vitleysuna sem menn kalla á Norðurlandi. Í þetta fór stórfé. Ég man ekki til þess að það hafi verið samþykkt hér á Alþingi að gera þessa könnun. Kannski man ég ekki rétt. Hafi það verið gert er ekki nokkur vafi á því að þingið gerði sér ekki grein fyrir hver kostnaðurinn reyndist vera. Og það kann að vera að t.d. stóriðjunefndin sem hefur ferðast um þveran og endilangan hnöttinn, ef hún hefur ekki farið til annarra stjarna, til þess að reyna að plata einhverja álfursta til þess að setja hér í fjárfestingu. Ég man ekki til þess að það sé neitt sérstakt fjármagn, a.m.k. ekki miðað við það sem sagt er að kostnaðurinn hafi verið út af öllum þessum viðræðum. Það virðist vera að hinir og aðrir í okkar kerfi geti hagað sér alveg nákvæmlega eins og þeim sýnist. Þar séu engar bremsur á að ógleymdri Landsvirkjun.
    En það er eitthvað fleira en þetta sem við þurfum að athuga og ég var nú að vonast eftir því að þeir félagarnir fjórir sem flytja þessa tillögu, vænti þess að þeir kæmu með aðra tillögu, kannski hefur það farið fram hjá mér, um
það hvernig á að búa í þessu landi. Þó að þetta sé stórt mál og umræðan um það sé nauðsynleg til þess að vekja athygli á því hvernig okkar kerfi er og við áttum okkur á því sjálf, þá er hitt enn þá meira aðkallandi eins og nú er því að það er eins og menn geri sér bara ekki ljóst, a.m.k. sumir, hvert við erum að fara í þessu efni. Og ef á að taka mark á sumum stjórnmálamönnum í háum embættum --- ja, ég verð bara að segja það hér og nú --- hvarflar að manni að það sé eitthvað kortslúttað í kollinum á þeim. ( ÓÞÞ: Það gæti verið rétt.) Ég þakka fyrir flutning á þessari tillögu. Ég hef því miður ekki haft tækifæri til að hlusta á nema lítið af þessari umræðu. En þessir fjórmenningar, hv. þm. sem flytja þetta, áttu líka, að mér skildist, að koma fram með tillögur um atvinnumál, atvinnumálastefnu, á hvaða brautir við ættum að beina þeirri stefnu. Ég sakna þess ef hún kemur ekki fram.