Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram og nokkrir þingmenn höfðu í samræmi við ákvæði þingskapa óskað eftir að gerð yrði og rædd hér vegna kaupa Landsbankans á hlutabréfum í Samvinnubankanum. Í þessari skýrslu eru nokkrar gagnlegar upplýsingar. Þó er það fyrst og fremst í fylgiskjali með skýrslunni, greinargerð Ríkisendurskoðunar, sem fram koma nokkur svör við þeim spurningum sem uppi hafa verið í þessu efni.
    Það vekur þó eigi að síður athygli hversu skýrslan er fátækleg og segir í raun réttri lítið um þetta mál, einkanlega sá hluti hennar sem hæstv. viðskrh. hefur samið sjálfur. Það er líka til lýta að í skýrslunni eru dæmi um beinlínis rangar upplýsingar. En það var óhjákvæmilegt og nauðsynlegt vegna áforma og ákvarðana Landsbankans í þessu efni og þeirrar umræðu sem fram hefur farið af hálfu ýmissa talsmanna stjórnarflokkanna, bankaráðsmanna stjórnarflokkanna og einstakra ráðherra, um þetta mál að Alþingi fengi hér að ræða þessar ákvarðanir.
    Ég ætla fyrst að víkja að upphafi þessa máls. Í skýrslu hæstv. ráðherra segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Upphaf málsins er að á sl. vori hófust að frumkvæði Landsbankans viðræður milli bankastjóra Landsbanka Íslands og forsvarsmanna Sambands ísl. samvinnufélaga um kaup bankans á hlutabréfum Sambandsins í Samvinnubanka Íslands hf. Viðræðunum lauk hinn 1. sept. sl. með undirritun Sverris Hermannssonar, bankastjóra Landsbankans, og Guðjóns B. Ólafssonar, forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga, á eftirfarandi skjali.``
    Hér er því með öðrum orðum haldið fram af hálfu hæstv. viðskrh. að upphaf þessa máls megi rekja til frumkvæðis Landsbankans. Ég held því fram að hér sé ranglega farið með og aðdragandi málsins sé allt annar og frumkvæði í þessu
efni liggi annars staðar en hjá Landsbankanum. Í því sambandi vil ég í fyrsta lagi vitna til greinargerðar sem birt var í Morgunblaðinu um þetta mál 17. sept., en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambandsins, reifaði hugmyndina að sölu á hlut SÍS í Samvinnubankanum á stjórnarfundi Sambandsins sl. haust og fékk heimild stjórnarinnar til að kanna málið. Hann kynnti ríkisstjórninni þessar hugmyndir og í framhaldi af því, í nóvemberbyrjun í fyrra, nánar tiltekið 7. nóv., kom Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh. að máli við bankastjóra Landsbankans og reifaði þá hugmynd að bankinn keypti hlut SÍS í Samvinnubankanum. Þá var staðan sú að Valur Arnþórsson, þáverandi stjórnarformaður Sambandsins, var þess fremur fýsandi að Landsbankinn keypti Samvinnubankann áður en hann hyrfi frá samvinnuhreyfingunni að Landsbankanum. Málið lá svo niðri um hríð en í marsmánuði ritaði Guðjón bankastjórn Landsbankans bréf þar sem 52% hlutur Sambandsins í Samvinnubankanum var boðinn falur fyrir 950 millj.

kr. sem jafngildir því að allur bankinn hefði kostað 1890 millj. kr.``
    Hér kemur með öðrum orðum fram að allt frumkvæði í þessu efni var af hálfu Sambands ísl. samvinnufélaga en ekki Landsbankans. Hér kemur líka fram að hæstv. fjmrh. kallaði bankastjóra Landsbankans fyrir sig eftir að SÍS hafði borið þetta erindi upp við ríkisstjórnina til þess að athuga hvort Landsbankinn væri ekki tilbúinn til að ganga til þessa verks. Það er með öðrum orðum leitt í ljós að það var hæstv. ríkisstjórn sem hafði hér frumkvæði eftir að Samband ísl. samvinnufélaga hafði fyrir sitt leyti óskað eftir því við ríkisstjórnina að þetta mál yrði kannað.
    Stundum kemur það fyrir hér í umræðum á Alþingi að ráðherrarnir sverja hver annan af sér. Ef hæstv. fjmrh. hefur gert eitthvað, þá standa aðrir ráðherrar upp og afneita því með öllu að það sé á vegum ríkisstjórnarinnar, en útskýringar af því tagi eru vitaskuld ekki gildar. Það eru útúrsnúningar.
    Í þessu sambandi vil ég einnig í öðru lagi vitna í viðtal við Val Arnþórsson landsbankastjóra sem birt var í Morgunblaðinu föstudaginn 22. sept. 1989. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ég vona það vissulega því hér er um feiknalega þýðingarmikið mál að ræða. Sambandið bauð okkur að kaupa bréf sín í Samvinnubankanum á sl. vori. Við ræddum það okkar á milli bankastjórarnir og vorum sammála um að þetta gæti verið besta mál fyrir okkur eins og greindi frá hér áðan. Eftir umfjöllun í bankaráðinu fékkst svo grænt ljós á það að halda áfram samningum við Sambandið. Ákveðið var að Sverrir Hermannsson færi áfram með málið fyrir okkar hönd.``
    Hér er með öðrum orðum einnig staðfesting á því af hálfu bankastjóra Landsbankans að frumkvæði í þessu efni kom ekki frá Landsbankanum heldur Sambandi ísl. samvinnufélaga og, eins og athygli hefur verið vakin á, af hálfu hæstv. ríkisstjórnar með atbeina hæstv. fjmrh. Það er þess vegna ljóst að fullyrðingar í skýrslunni um frumkvæði Landsbankans standast ekki, eru beinlínis rangar. Allt hefur þetta auðvitað þýðingu þegar fjallað er um þetta mál og þær umræður sem um það hafa spunnist. Þá vaknar auðvitað þessi
spurning: Um hvers konar aðgerðir er hér að ræða? Hæstv. ráðherra vék nokkrum orðum að því í ræðu sinni hversu brýnt það er að ná fram frekari samruna í bankakerfinu en orðinn er.
    Ég get í sjálfu sér tekið undir það meginsjónarmið hjá hæstv. ráðherra að það kann að vera og er ekkert ólíklegt að það sé heppileg niðurstaða út frá bankalegum sjónarmiðum að Landsbanki Íslands og Samvinnubankinn sameinist. Það gæti verið þáttur í almennri þróun í uppbyggingu á heilbrigðu viðskiptabankakerfi og í samræmi við aðlögun okkar að hinum nýja evrópska markaði og því frjálsræði sem þar á að ríkja sem gengur reyndar þvert gegn þeim málflutningi sem forustuflokkur í hæstv. ríkisstjórn hefur nú haft í frammi í þeim efnum undanfarin

missiri, en það er önnur saga. Ef þetta á hins vegar að falla undir þessa skilgreiningu hæstv. ráðherra að vera eðlilegur og hagkvæmur samruni skiptir auðvitað öllu máli með hvaða hætti staðið er að verki og við hvaða verði hlutabréfin í Samvinnubankanum eru keypt. Ég held að staðreynd málsins sé miklu fremur hin að Samband ísl. samvinnufélaga hefur átt við erfiðleika að etja og nauðsyn hafi þótt af opinberri hálfu að koma þar til bjargar, með öðrum orðum að hér sé um að ræða björgunaraðgerðir af hálfu opinberra aðila í þágu fyrirtækis sem lent hefur í miklum erfiðleikum.
    Þessu sjónarmiði til áréttingar vil ég vitna til viðtals við einn af bankaráðsmönnum stjórnarflokkanna. Það var að vísu athyglisvert að hæstv. viðskrh. sá ástæðu til þess að setja svolítið ofan í við bankaráðsmenn vegna umfjöllunar um þetta mál og á þar ugglaust við einn af bankaráðsmönnum stjórnarflokkanna sem fékk hótanir frá samstarfsmönnum í stjórnarsamstarfinu um málshöfðun jafnvel vegna umfjöllunar sinnar um þetta mál. En þessi fulltrúi stjórnarflokkanna, Lúðvík Jósepsson, fulltrúi Alþb. í bankaráðinu, bæði fyrra bankaráði og hinu nýkjörna, segir í viðtali við Þjóðviljann sl. haust:
    ,,Eina sjáanlega skýringin á þessu háa kaupverði er að Sambandið rambi á barmi gjaldþrots. Landsbankinn á ekki að greiða þann böggul, heldur ættu forráðamenn Sambandsins að leita til ráðamanna þjóðarinnar um lausn á þessum vanda.``
    Hér er kveðið skýrt að og það er ekki stjórnarandstaðan sem er að þyrla upp moldviðri vegna stöðu Sambandsins. Nei, hér er það einn af fyrrum forustumönnum Alþb. og fulltrúi ríkisstjórnarflokkanna í bankaráði sem talar. Og það fer ekki á milli mála hver hans skoðun er.
    Í Morgunblaðinu 17. sept. er ítarleg greinargerð um þetta mál. Að hluta til er hún byggð á viðtali við hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Steingrímur Hermannsson forsrh. segist vissulega líta á þessi kaup Landsbankans á Samvinnubankanum sem lið í björgunaraðgerðum til handa Sambandinu. ,,Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvaða afleiðingar það hefði úti í þjóðfélaginu ef Sambandið yrði gjaldþrota,,, segir forsætisráðherra. ,,Það mundi teygja anga sína alveg gífurlega langt inn í þjóðfélagið og ég fæ ekki séð hvernig væri hægt að láta Hambrosbank og aðra erlenda banka tapa sínum innistæðum hjá Sambandinu,,, segir Steingrímur.``
    Það er ekki nóg með að það sé einn fulltrúa stjórnarflokkanna í bankaráði Landsbankans sem dregur fram þá staðreynd að hér er um björgunaraðgerðir að ræða en ekki viðskiptahagsmuni eða þátt í eðlilegri bankasameiningu, heldur kemur hæstv. forsrh. og staðfestir mjög skýrt og greinilega að þetta er tilgangurinn, að þetta er eðli þeirra ákvarðana sem hér hafa verið teknar. Því miður liggur það þess vegna ljóst fyrir að þetta er ekki hluti af eðlilegum framgangi bankasameiningar í landinu, heldur hluti af opinberum, pólitískum

björgunaraðgerðum í þágu Sambands ísl. samvinnufélaga. Þá vaknar auðvitað þessi spurning: Er eðlilegt að opinberir aðilar hlutist til um björgunaraðgerðir af þessu tagi? Ég hygg að flestir geti verið á einu máli um að meginreglan á auðvitað að vera sú að fyrirtæki standi á eigin fótum og beri ábyrgð á athöfnum sínum og gjörðum og þar eigi ríkisvaldið ekki að koma við sögu. Ég hygg að lengur sé ekki um það deilt að þetta á að vera meginregla í viðskiptalífi landsmanna.
    Hitt getur auðvitað komið til álita að opinberir aðilar þurfi í einstökum tilvikum að koma til aðstoðar. Þær aðstæður geta verið fyrir hendi í algjörum undantekningartilvikum. Ég hygg að allir þeir stjórnmálaflokkar sem komið hafa að stjórn landsins hafi tekið þátt í slíkum aðgerðum, en það eru undantekningartilvik og í þeim tilvikum þar sem fjármunir skattborgaranna eru notaðir í þessum tilgangi er það höfuðkrafa sem ekki er hægt að víkjast undan að draga allar staðreyndir mála fram. Með öðrum orðum, þegar þær aðstæður eru fyrir hendi þurfa viðkomandi fyrirtæki að leggja öll gögn um rekstrarlega stöðu, um skuldastöðu og eiginfjárstöðu á borðið fyrir stjórnendur landsins og löggjafarsamkomuna, fjárveitingavaldið, sem ber ábyrgð á því hvernig farið er með fjármuni skattborgaranna. Þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir þegar um opinbera aðstoð er að ræða og ef í undantekningartilvikum á að réttlæta hana.
    Ég get ekki dæmt um það á þessu stigi hvort staða Sambands ísl.
samvinnufélaga er á þann veg að það réttlæti undantekningu frá meginreglunni, réttlæti opinbera aðstoð. Það má vel vera að svo sé. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að engar upplýsingar hafa verið lagðar fram fyrir fjárveitingavaldið í landinu sem sýna fram á hvort þessi aðstaða er fyrir hendi eða ekki, og það er kjarni málsins. Ég hef engar pólitískar áhyggjur af því þó að Samband ísl. samvinnufélaga missi yfirráð sín og tök yfir Samvinnubankanum. Það gleður mitt hjarta heldur ekki neitt sérstaklega þó að svo fari. ( Gripið fram í: Smávegis.) Aðalatriðið er þetta, að hér verður að virða eðlilegar leikreglur og þegar opinberir aðilar veita aðstoð og verja fjármunum skattborgaranna í því skyni þarf að leggja allar upplýsingar á borðið. Og við slíkar aðstæður er rangt að hlaupa á bak við bankaleynd. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að leggja spilin á borðið.
    Við þekkjum öll hinar eðlilegu og sjálfsögðu reglur um bankaleynd sem gilda þurfa í viðskiptum einstaklinga og atvinnufyrirtækja við banka. En þegar um er að ræða björgunaraðgerðir af því tagi sem hæstv. forsrh. hefur lýst og einn af talsmönnum stjórnarflokkanna í bankaráðinu, þá verður að leggja spilin á borðið, þá verður að fara þær leiðir sem gera stjórnvöldum kleift að leggja allar upplýsingar á borðið. Með öðrum orðum, ef það er niðurstaða og mat hæstv. ríkisstjórnar, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hefur fengið frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, að það sé hægt að réttlæta opinbera

aðstoð, þá væri eðlilegt að koma með það mál inn á Alþingi og afgreiða það í tengslum við fjárlög. Þá gætu menn tekið afstöðu til þessara mála og ákveðið á lýðræðislegan hátt hvort og hversu mikið ætti að rétta til Sambandsins af fjármunum og hver nauðsyn krefði. Um þetta er ekkert hægt að segja á þessu stigi vegna þess að þessar upplýsingar hafa ekki verið lagðar fram. En það er hægt að fara þessa eðlilegu leið. Það er líka hægt, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert, að freista þess að fara með þetta inn í bankakerfið í þeim tilgangi að geta tekið á málunum í skjóli bankaleyndar. Og það er það sem er ámælisvert, að mínu mati, í þessu máli.
    Ég ætla ekki fyrir fram að halda því fram að ekki hafi komið til álita að rétta Sambandinu hjálparhönd við þessar aðstæður, ég gæti best trúað því að fyrir því gætu verið rök, en þá þarf að gera það með eðlilegum hætti. Hæstv. viðskrh. fjallaði hér nokkuð um það að það mætti ekki fjalla um þetta mál á þann veg að það skaðaði hagsmuni fyrirtækisins og Landsbankans. Vitaskuld er það eðlilegt. Því miður er það hins vegar staðreynd að öll þessi umræða hefur reynst Landsbanka Íslands mjög óheppileg og hún hefur skaðað stöðu Landsbankans. Þess vegna hefði verið eðlilegra af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, eftir að hún fékk erindi hér um frá Sambandinu, að koma með þetta mál inn á Alþingi og taka þar ákvarðanir um það hvort eðlilegt væri að greiða eitthvert yfirverð í tengslum við hugsanleg kaup Landsbankans á hlutabréfum í Samvinnubankanum, í tengslum við eðlilegar viðskiptalegar ákvarðanir, að ríkisvaldið borgaði eitthvert yfirverð til Sambandsins til þess að treysta stöðu þess. Ef þessi þáttur málsins hefði verið dreginn út úr og það hefði verið komið með hann inn á Alþingi og um hann fjallað fyrir opnum tjöldum hefði engin hætta skapast í Landsbankanum og með öllu verið girt fyrir það að hann þyrfti að skaðast vegna málsins. Þvert á móti má færa að því rök að það hefði allt styrkt stöðu Landsbankans. En ríkisstjórnin kaus að fara aðra leið og hún ber þess vegna ábyrgð á því hvers vegna Landsbankinn hefur skaðast af þessari umræðu.
    Landsbankinn hefur stigið þessi skref í tveimur áföngum. Í fyrra sinnið í byrjun september og í síðara sinnið í lok desember á sl. ári. Niðurstaðan í greinargerð Ríkisendurskoðunar er sú að í báðum tilvikum sé um að ræða sambærilega niðurstöðu, sambærilegt kauptilboð af hálfu Landsbankans en lægri upphæð í desembertilboðinu skýrist af því að tekið hafi verið tillit til fyrirvara sem gerðir voru í hinu fyrra og öllum mátti vera ljóst að lækkað hefðu þær tölur sem þar voru settar á blað. Þetta kemur skýrt fram í áliti Ríkisendurskoðunar. Það sem hefur hins vegar gerst í framhaldi af ákvörðuninni í lok desember er það að Samband ísl. samvinnufélaga samþykkir í byrjun þessa árs að taka þessu kauptilboði í trausti þess að bætt verði við það 60 millj. kr. í formi vaxtaleiðréttingar. Hvers vegna samþykkja þeir það í trausti þess að það verði gert? Vegna þess að það liggur fyrir að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna,

hæstv. viðskrh. og formaður bankaráðsins, vildu beita sér fyrir því að þetta yrði gert, að 60 millj. kr. yrði bætt við sem vaxtaleiðréttingu.
    Lítum nú aðeins á það mál. Hér er um að ræða 60 millj. kr. vaxtaleiðréttingu vegna fjögurra mánaða tafar á afgreiðslu málsins, eins og það er orðað. Það er býsna góð vaxtagreiðsla. Hæstv. forsrh. hefur stundum verið að tala um að vextirnir í landinu væru of háir og gera þyrfti gangskör að því að lækka vextina, ekki síst raunvextina. En hvaða vexti er verið að borga Sambandinu á þessum tíma? Það er verið að borga 33% vexti. Það er verið að borga tæplega 11% raunvexti. Á sama tíma og verið er að selja spariskírteini ríkissjóðs með 6% vöxtum, ef ég man rétt. Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn er að hæla sér af
því, og vitnar í skýrslu Seðlabankans frá því í nóvember, að raunvextir hefðu lækkað að meðaltali á sl. ári. Að vísu sleppa ráðherrarnir og talsmenn stjórnarflokkanna alltaf að geta þess að í þeirri skýrslu segir að raunvextir sjávarútvegsins hafi hækkað mjög verulega miðað við innlent verðlag á sl. ári. En þeir vitna réttilega í það að almennir raunvextir lækkuðu á sl. ári. Og í þessari skýrslu kemur fram að þeir voru að meðaltali 4,7%, tæp 5%. En það þykir sjálfsagt að Sambandið fái 11% raunvexti eða því sem næst.
    Hvernig er þetta vaxtasiðferði hæstv. ríkisstjórnar? Þegar sparifjáreigendurnir, launafólkið sem á spariféð í Landsbankanum, á að borga Sambandi ísl. samvinnufélaga vexti, segir hæstv. ríkisstjórn: Það er sjálfsagt og eðlilegt að launafólkið, sem á innstæðurnar sínar í Landsbankanum, borgi Sambandinu 11% raunvexti. En þegar Sambandið á að borga til baka lánin sem það hefur tekið hjá þessu sama fólki, sem á innstæðurnar í Landsbankanum, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þá er komið alveg nýtt vaxtasiðferði og það er algerlega óþolandi að Sambandið þurfi að borga fólkinu vexti af þessu tagi. Þegar einstaklingarnir og launafólkið sem á sparnaðinn í Landsbankanum á að fá hann greiddan til baka, þá er komið alveg nýtt vaxtasiðferði.
    Það væri æskilegt, og það var fyrst og fremst vegna þess sem ég óskaði eftir því, frú forseti, að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur umræðuna, að hann gerði Alþingi nokkra grein fyrir þessu tvöfalda vaxtasiðferði hæstv. ríkisstjórnar sem snýr með þessum sérkennilega hætti að Sambandinu annars vegar og einstaklingunum, launafólkinu, sem á sparifé sitt í Landsbankanum og er að lána Sambandinu og öðrum atvinnufyrirtækjum, hins vegar. Ætli það komi ekki einhvers staðar niður þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar? Ætli þetta þýði ekki að það þurfi að hækka vextina gagnvart öðrum, smáfyrirtækjunum og launafólkinu, húsbyggjendunum? Það skyldi ekki vera að svona ákvarðanir kæmu einhvers staðar niður? Það væri mjög fróðlegt í þessari umræðu að hæstv. forsrh. mundi skýra það nánar út.
    Kaupverðið er auðvitað lykilatriði í þessu máli öllu saman. Það lá nokkuð ljóst fyrir þegar upphaflegt

minnisblað um hugsanleg kaup var gert, þó þar væru mjög ákveðnir fyrirvarar, að þær tölur sem þar voru nefndar fólu í sér verulegt yfirverð. Þó tölurnar í tilboðinu frá 29. des. séu lægri sem nemur þessum fyrirvörum sem búið var að gera er það skýr niðurstaða í greinargerð Ríkisendurskoðunar að kaupverðið á bankanum sé 200 millj. kr. of hátt, að Landsbankinn er að tapa 200 millj. kr. á þessum kaupum. Og þetta er miðað við að um samruna verði að ræða og alla þá hagræðingu og þann hagnað sem af samruna getur hlotist. Ef ekki verður um samruna að ræða, eru þessi kaup algerlega út í hött. Það er í raun og veru þetta sem Ríkisendurskoðun er að segja í sínu áliti og nú hangir það mál enn allt í lausu lofti. Hér komum við að kjarna málsins. Það eru þessar 200 millj., miðað við að um samruna verði að ræða, sem eru yfirverð fyrir bankann. Það eru þær sem hafa valdið þessum miklu átökum um þetta mál. Það eru þær sem hafa leitt til umræðu sem hafa skaðað Landsbankann. Og það hefði verið miklu eðlilegra fyrir hæstv. ríkisstjórn, fyrst nota átti eignir skattborgaranna til að treysta stöðu SÍS, að koma með það mál hér inn á Alþingi og fjalla um það hér en að leyfa Landsbankanum að vera í friði og taka sínar ákvarðanir um kaup á bréfum og hugsanlegan samruna á viðskiptalegum grundvelli.
    Þá kemur að ýmsum spurningum í framhaldi af þessari stöðu. Samruni bankanna er óhjákvæmilegt skilyrði ef þessi kaup eiga ekki að teljast vera hrein vitleysa. Það liggur fyrir að í upphafi var talað um að til þyrfti að koma umtalsverð aðstoð Seðlabankans, ef af þessum kaupum ætti að verða. Hæstv. forsrh. greindi frá þessu í áðurnefndri greinargerð Morgunblaðsins frá 17. sept. en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það má til sanns vegar færa að miklu meira þarf til til þess að Sambandinu verði bjargað. Auðvitað er það lífsspursmál fyrir Landsbankann og Sambandið að 1,6 milljarða skuld þess í Samvinnubankanum fái að flytjast yfir í Seðlabankann. Forsrh. segir um þetta mál: ,,Ég skil það þannig að skuld Sambandsins við Samvinnubankann verði parkerað í Seðlabankanum í 15 ár. Ef Seðlabankinn lítur svo á að hér sé um hagræðingu í bankakerfinu að ræða og hér sé verið að afstýra einhverjum meiri háttar vandræðum í peningamálum, þá getur hann vitanlega stuðlað að því að málið leysist með því að taka við skuldabréfum frá Landsbankanum fyrir þessa upphæð.``"
    Hér talar hæstv. forsrh. mjög skýrt. Hann hefur skilið málið á þessum tíma á þann veg að parkera eigi skuldum Sambandsins í Samvinnubankanum í Seðlabankanum til að greiða fyrir kaupum á hlutabréfunum og samruna bankanna. Nú kemur hins vegar í ljós í þeirri skýrslu sem hér hefur verið lögð fram að hæstv. ráðherra upplýsir að hvorki sé fyrirhugað að ríkissjóður né Seðlabanki veiti nokkra fyrirgreiðslu af því tagi. En hvers vegna var óskað eftir slíkri fyrirgreiðslu þegar málið byrjaði? Hvers vegna segir hæstv. viðskrh. að Landsbankinn geti ekki klárað málið með því að kaupa öll hlutabréfin og þess

vegna sé nauðsynlegt að Búnaðarbankinn kaupi hlutann sem eftir er? Er það svo að Landsbankinn geti ekki vegna eiginfjárstöðu sinnar keypt bréfin sem eftir
eru? Þarf viðbótarstofnfé inn í bankann til að svo megi verða? Þetta eru upplýsingar sem æskilegt væri að fá hér fram.
    Það er líka nokkuð kyndugt að hlýða á hæstv. viðskrh. tala um það, þegar fyrir liggur að samruni Samvinnubanka og Landsbanka sé óhjákvæmilegur ef kaupin eigi ekki að vera hrein vitleysa, að nauðsynlegt sé að Búnaðarbankinn kaupi annan hluta. Hvernig víkur því við að hæstv. ráðherra og einn af bankaráðsmönnum stjórnarflokkanna í Búnaðarbankanum, bankaráðsmaður Alþfl. þar, telja það nauðsynlegt að Búnaðarbankinn taki annan hluta bréfanna þegar fyrir liggur í áliti Ríkisendurskoðunar að þessi kaup koma að engu haldi nema að málið verði fullklárað og um verði að ræða samruna Landsbanka og Samvinnubanka? Hér ganga hlutir allmikið á misvíxl og bendir ýmislegt til að af hálfu stjórnvalda hafi verið haldið býsna skringilega á málinu og það sé í einkennilegri stöðu þegar þessar staðreyndir liggja fyrir. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að lýsa því hér yfir að hann muni samþykkja samruna bankanna verði af frekari kaupum Landsbankans? Nauðsynlegt er að það liggi hér alveg skýrt fyrir hvort hæstv. ráðherra er tilbúinn að samþykkja þau kaup eða hvort hann ætlar að halda áfram að vinna að því að Búnaðarbankinn taki hinn hluta hlutabréfanna þannig að úr þessu verði einhver óskapnaður eða öllu meiri óskapnaður en orðið er.
    Í beiðni um þessa skýrslu var óskað eftir upplýsingum um eigið fé bankanna og hvert væri hlutfall útlána og ábyrgða þessara tveggja banka af eigin fé vegna Sambands ísl. samvinnufélaga og enn fremur var spurt um það hvort hætta væri á að afskrifa þyrfti lán vegna SÍS og fjárhagslega tengdra fyrirtækja. Í skýrslunni koma nokkur svör við þessum spurningum en þó ekki fullnægjandi. Athygli vert er að hér er staðfest á þremur stöðum í skýrslunni að tryggingar Sambandsins hafi verið ónógar. Í upphaflegri samþykkt Landsbankans í september segir í einu af þeim skilyrðum sem Landsbankinn setti, að nægjanlegar tryggingar séu lagðar fram af hálfu Sambandsins vegna skuldastöðu þess hjá báðum bönkunum. Samþykkt af þessu tagi hefði ekki þurft að gera ef nægjanlegar tryggingar hefðu verið fyrir hendi. Þessi samþykkt er enn á ný ítrekuð í seinna tilboðinu, þar sem segir:
    ,,Áfram verði unnið að samkomulagi um viðbótartryggingar á viðskiptum Sambandsins við Landsbankann.`` Og í þeim kafla skýrslunnar sem fjallar um álit bankaeftirlitsins segir: ,,Í skýrslum Seðlabankans kemur fram það álit að endurmeta þurfi og afla nýrra greiðslutrygginga fyrir skuldbindingum Sambands ísl. samvinnufélaga gagnvart bönkunum báðum og hefur verið að því unnið að koma tryggingum bankanna vegna útlána til Sambandsins í viðunandi horf í samvinnu við stjórn Sambandsins.``

    Hér vakna auðvitað upp ýmsar spurningar. Hvernig má það vera að um sé að ræða ófullnægjandi tryggingar í svo mikilvægum viðskiptum? Var þar um að ræða vangæslu af hálfu Landsbankans eða var þar um að ræða atriði sem snerta stjórnendur Sambandsins? Höfðu þeir ekki gefið bankanum eðlilegar eða nægilegar upplýsingar þannig að niðurstaðan varð sú að gera þurfti sérstakar samþykktir um að afla þyrfti haldbetri trygginga? Þetta er nauðsynlegt að skýra út betur og fá gleggri svör við. Hvar liggur ábyrgðin í þessu efni?
    Enn fremur var spurt um það hvort bankaeftirlitið hefði rækt skyldur sínar samkvæmt bankalögum vegna þess að í bankalögunum er bankaeftirlitinu gert að hafa eftirlit með bankastarfsemi og m.a. því hvort bankar lána einstökum aðilum og skyldum fyrirtækjum eðlilega í hlutfalli við eigið fé. Um þessi efni eiga að gilda sérstakar reglur og hæstv. viðskrh. hefur nýlega upplýst að bönkunum sé skylt að greina frá hverjar hinar almennu viðmiðunarreglur séu.
    Einn af bankaráðsmönnum stjórnarflokkanna, Lúðvík Jósepsson, upplýsti í Morgunblaðinu 14. sept. að skuldir Sambandsins hjá Samvinnubankanum hefðu verið um 1 1 / 2 milljarður kr. á þeim tíma sem það viðtal fór fram. Nú kunna stærðir af þessu tagi að hafa breyst en ef þær upplýsingar eins af bankaráðsmönnum stjórnarflokkanna eru réttar, bendir ýmislegt til þess að útlán til eins aðila séu 200% af eigin fé. Og nú er spurningin: Er það í samræmi við almennar reglur og, ef svo er ekki, hvað hefur þá verið gert til að leiðrétta þá stöðu? Sami bankaráðsmaður upplýsti í sama viðtali að skuldir Sambandsins við Landsbankann hefðu verið 2,6 milljarðar kr. Þeirri fullyrðingu var mótmælt af ýmsum aðilum en fari hún nærri lagi eru útlán Landsbankans til Sambandsins eitthvað rétt innan við 50% af eigin fé. Og flest bendir þá til þess að ef um samruna yrði að ræða væru skuldir Sambandsins við nýjan sameinaðan banka um 2 / 3 af eigin fé. Það væri æskilegt ef hæstv. ráðherra vildi, í samræmi við þá ósk sem fram kemur í skýrslunni, fjalla nokkuð nánar um þetta atriði því að því er með óljósum hætti svarað af hans hálfu.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eða greinargerð sem hér er birt sem fylgiskjal segir m.a.:
    ,,Ríkisendurskoðun vill taka fram í þessu sambandi að stofnunin fékk ekki tækifæri til að láta í ljós álit sitt á kauptilboðinu áður en það var sett fram, en Ríkisendurskoðun hafði óskað eftir því við bankastjórn Landsbankans á fyrri stigum málsins.``
    Þetta er athygli verð yfirlýsing af hálfu Ríkisendurskoðunar og bendir til þess að hún hafi ekki fengið, meðan málið var í meðferð, allar þær upplýsingar sem hún óskaði eftir og hafði þó hæstv. viðskrh. óskað eftir því að hún tæki málið sérstaklega til skoðunar um leið og það kom upp. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri það hér frekar hvers vegna Ríkisendurskoðun fékk ekki þær upplýsingar við meðferð málsins sem hún óskaði eftir. Ég tel að í þessu felist býsna harður dómur af hálfu

Ríkisendurskoðunar á framkvæmd málsins, hverjir svo sem þar bera ábyrgð.
    Það kemur einnig hér fram í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar að endanlegur samningur er í fullu samræmi við það sem upphaflegur gjörningur bankastjóra og forstjóra Sambandsins sagði til um. Í því sambandi segir Ríkisendurskoðun:
    ,,Þá lítur Ríkisendurskoðun svo á að ætla megi að kaupverð á hlutabréfaeign Sambandsins í Samvinnubanka Íslands hafi tekið mið af tilboði Landsbankans frá 10. sept. að teknu tilliti til mats á þeim fyrirvörum sem þar voru tilgreindir, þ.e. skuldbindingu vegna lífeyrisréttinda starfsmanna og mati á töpuðum útlánum.``
    Með öðrum orðum hefur í raun engin breyting orðið á niðurstöðu varðandi kaupverð á þessum hlutabréfum í þessa fjóra mánuði sem málið beið önnur en sú að ákveðið var að vaxtareikna töfina með þeim sérstaka hætti sem hér hefur verið gert að umtalsefni.
    Hér kemur líka mjög skýrt fram, eins og áður hefur verið vikið að, að Landsbankinn er í raun og veru að tapa 200 millj. kr. á þessum viðskiptum og sú staða gæti litið enn verr út ef ekkert verður af samrunahugmyndunum. Í skýrslunni segir einnig svo:
    ,,Af þessu má ráða að kanna þarf nánar lagagrundvöll þeirra samrunahugmynda sem uppi eru í máli þessu af hálfu Landsbankans. A.m.k. er nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem sýnist vera fyrir hendi í þessu efni.``
    Með öðrum orðum hafa hér verið teknar ákvarðanir um fjárhagslegar skuldbindingar sem byggja á því að áframhald verði á málinu af hálfu Landsbankans, en Ríkisendurskoðun telur að þar sé um að ræða lagalega óvissu, og ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. reyni að greiða eitthvað úr þeirri flækju í þessari umræðu.
    Loks er ástæða til að minna hér á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á ákvæði 22. gr. laga um viðskiptabanka, en samkvæmt því er viðskiptabanka óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir. Miðað við áform Landsbankans með kaupunum sýnist sem lagaákvæði þetta kunni að valda nokkrum vandkvæðum.
    Það er ekki langt síðan miklar umræður urðu um hæfi manna til setu í bankaráðum og mönnum þótti sem það væri hæpið að starfsmaður verðbréfafyrirtækis sæti í bankaráði Landsbankans. Nú óska ég eftir því, með tilliti til þessarar athugasemdar sem hér er gerð af hálfu Ríkisendurskoðunar, að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir því hvernig bankaráð Samvinnubankans verður skipað eftir að þessi kaup hafa verið gerð. Munu bankastjórar Landsbankans eða bankaráð skipa meiri hluta bankaráðs í Samvinnubankanum og hvernig er hæfi þeirra manna til þess að taka ákvarðanir með tilliti til bankalaga og nýlegrar umræðu þar að lútandi?
    Frú forseti. Ég hef farið nokkrum orðum hér um þessa skýrslu. Niðurstaðan er sú að gerð hafa verið kaup á hlutabréfum með atbeina og afskiptum ríkisstjórnarflokkanna í þeim tilgangi að koma

Sambandi ísl. samvinnufélaga til aðstoðar. Það liggur líka fyrir að greitt hefur verið verulegt yfirverð fyrir þessi hlutabréf án þess að nægjanlegar upplýsingar, að mínu mati, hafi verið lagðar fram um stöðu fyrirtækisins sem réttlæta kunna undantekningu frá þessu tilviki. Og ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi staðið þannig að framgangi málsins að það hafi fremur skaðað stöðu Landsbankans sem viðskiptabanka en hitt. Þetta eru þær niðurstöður sem hér liggja fyrir og væri auðvitað æskilegt að ræða hér miklu nánar, og verður fróðlegt að heyra nánari skýringar hæstv. ráðherra á þeim atriðum sem með ófullnægjandi hætti hefur verið gerð grein fyrir fram að þessu.