Þórhildur Þorleifsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað sjálfsagt að fara hér að óskum hv. 1. þm. Suðurl. en ég get samt ekki orða bundist um framgang dagskrár hér í dag. Það eru haldnir fundir með formönnum þingflokka til þess að reyna bæði að koma sér saman um og kynna þingflokkum hvernig dagskrá skuli háttað og í gær var ákveðið, og þau skilaboð komu til þingflokka, að að loknum fyrirspurnum í dag yrði fundi frestað til kl. 2 og þá hæfist utandagskrárumræða og síðan gengi dagskrá fram eftir því sem hún hefur gert í dag.
    Þær breytingar urðu strax í morgun að að loknum fyrirspurnatíma var ákveðið að halda dagskrá áfram og kom sjálfsagt ýmsum á óvart að þarna var komið til umræðu mál sem enginn hafði búist við að kæmi fyrr en kl. 2 um eftirmiðdaginn. Það mál stóð kannski lengur en nokkur hafði reiknað með og við því er ekkert að gera og ég er ekki að kenna neinum um það. Þetta mál kemur svo ekki á dagskrá fyrr en svo seint eins og raun ber vitni og enn er þá raskað dagskrá og frestað. Það verður að segjast eins og er að allur dagurinn hefur farið öðruvísi en ætlað var. Þetta er ákaflega bagalegt með tilliti til skipulagningar þingsins og skipulagningar tíma einstakra þingmanna líka.