Sameining sveitabýla í hagræðingarskyni
Fimmtudaginn 15. febrúar 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sameiningu sveitabýla í hagræðingarskyni. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela landbrh. að kanna hvort hagræða megi í landbúnaði með því að sameina sveitabýli í búrekstri. Könnuninni skal lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Þessi tillaga er liður í þeirri viðleitni að reyna að hagræða, draga saman og spara í þjóðfélaginu. Sveitabýli eru háð sömu lögmálum og annar rekstur. Það má víða spara, hagræða, draga saman, einfalda í búrekstri ekki síður en annars staðar í atvinnulífinu og því er þessi tillaga flutt. Ástæðan fyrir því að hún er flutt er fyrst og fremst sú að stutt er síðan þrjú myndarleg býli fyrir norðan voru sameinuð.
    Ég nefni þetta aðeins hér sem dæmi því að víða í sveitum landsins er t.d. mun meiri vélakostur en þarf ef búin mundu slá saman á þennan hátt. Og þetta á ekki bara við um vélarnar, þetta á við um ýmislegt annað. Það er margvísleg vinnuhagræðing fólgin í þessu eins og fordæmi hafa sýnt hjá öðrum fyrirtækjum í landinu. Stutt er síðan stór tryggingafélög sameinuðust, þrír bankar sameinuðust um að kaupa þann fjórða og fleiri dæmi eru til sem öllum eru meira og minna kunn.
    Þá tel ég einnig ástæðu til þess að íhuga hvort ekki sé rétt að landbúnaðarforustan kanni hvort hægt sé að veita peninga til þess að
aðstoða bændur við sameiningu af þessu tagi og taka þá peninga úr sjóðum sem landbúnaðurinn hefur til sinna umráða. Aukin hagræðing mundi bæta bændum upp allan hugsanlegan tekjumissi sem af því kynni að hljótast. Það er víða byrjað að sameina t.d. mjólkursamlög í framhaldi af minnkandi mjólkurframleiðslu, byrjað að sérhæfa þau og eftir því sem ég best veit hefur það skilað ágætum árangri. Við þekkjum öll hina landskunnu osta frá Hvammstanga, en það mjólkurbú sérhæfir sig nú í að framleiða þá prýðilegu vörutegund.
    Þannig telur flm. að eigi að halda áfram að finna aukna vörusérhæfingu í landbúnaðinum, leita jafnframt skipulega markaða fyrir þær vörur og deila verkefnum út eftir landkostum, legu og öðrum þáttum á hverjum stað sem hafa áhrif á framleiðslu vörunnar.
    Íslenskir sveitabæir eru misjafnlega í sveit settir. Hjá sumum hentar betur að framleiða dilkakjöt, aðrir liggja nær laxveiðiám og möguleikum í fiskirækt. Með því að stinga út möguleikana á hverjum stað og reyna að aðlaga rekstur býlanna að þeim má koma upp ákveðinni sérhæfingu sem auðveldlega er hægt að leita markaða fyrir erlendis.
    Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki lengri en legg til að tillögunni verði vísað til seinni umræðu og hv. atvmn.