Steinataka og söfnun steingervinga
Mánudaginn 19. febrúar 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá félmn. um till. til þál. um könnun á áhrifum steinatöku í náttúru Íslands og hertar reglur í þeim efnum til náttúruverndar. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leggur til að hún verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Tillaga þessi var einnig flutt á 111. löggjafarþingi og studdist nefndin við umsagnir er lágu fyrir frá því þingi frá Landvernd, Náttúruverndarráði og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta rita aðrir nefndarmenn í félmn.
    Á þskj. 599 eru brtt. við þessa þáltill. Þar er lagt til að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Náttúrufræðistofnun Íslands kanna áhrif af steinatöku og söfnun steingervinga á náttúru Íslands og gera í framhaldi af því, að höfðu samráði við Náttúruverndarráð, tillögur um aðgerðir til náttúruverndar á þessu sviði eftir því sem þörf er talin á.``
    Í öðru lagi er lagt til að fyrirsögn tillögunnar verði: ,,Till. til þál. um könnun á áhrifum af steinatöku og söfnun steingervinga.``