Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Það sem öðru fremur vakti áhuga minn varðandi þessa umræðu eru þær umræður sem hér hafa farið fram almennt um rekstrarform samvinnufélaganna og rekstrarhæfni þeirra. Þar sem ég hef verið trúnaðarmaður innan samvinnuhreyfingarinnar um árabil mun ég gera því hér eilítil skil.
    Áður en ég fer inn í á þær brautir ætla ég að drepa örfáum orðum á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um bankamál, um þau viðskipti að Landsbankinn sá sér hag í því að kaupa Samvinnubankann. Ég verð að segja að margt í þeirri umræðu hér hjá málshefjendum er með hreinum eindæmum. Það er einkum tvennt sem ég ætla að nefna.
    Hvenær hefur það gerst að sá aðili sem, vegna mikillar skuldsetningar, neyðist til að selja fyrirtæki sem honum er kært ráði ferðinni og setji sterka aðilanum ofurskilyrði varðandi kaupin? Það er alveg nýtt í viðskiptasögu ef mál eru allt í einu farin að þróast á þennan veg.
    Það segir kannski sína sögu líka að mál voru komin þannig að meiri hluti stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga var ekki tilbúinn að ganga að því tilboði sem Landsbankinn var búinn að setja fram. Hvers var þá að teygja sig eftir þessum viðskiptum? Var það ekki Landsbankans sem var búinn að komast að því að honum væri hagur að því í þeirri uppstokkun sem nú fer fram í bankakerfinu að kaupa Samvinnubankann? ( FrS: Þetta er spurning til ráðherranna.) Þetta eru hvor tveggja fullgild rök sem að mínu mati sýna fram á það að málið er ekki svona einfalt og mér er óskiljanlegt hvað býr að baki þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður uppi.
    Ég spyr líka: Hvað bjó að baki hjá hv. 1. þm. Suðurl. þegar hann ræddi um þessi viðskipti á fimmtudaginn var og segir úr þessum ræðustól, úr þessari hv. stofnun, að það verði almenningur, sparifjáreigendur, þeir sem eiga peninga inni í Landsbankanum og minni fyrirtæki sem eigi að bera herkostnaðinn að
meintum, háum vaxtagreiðslum vegna þessara kaupa? Ég hef rakið það hér fyrr í máli mínu að ég sé ekkert sem bendir til annars en að þarna hafi verið viðskipti sem voru báðum aðilum hagstæð.
    Og það er eitt enn: Hér ganga menn fram í sínu máli þannig að þeir horfa fram hjá því að viðskipti geti verið báðum aðilum hagstæð. Vissulega hlýtur það að vera grundvallaratriði í viðskiptaþjóðfélagi að viðskipti fari fram með þeim hætti. En hér er því haldið fram að hluti af þessu samkomulagi, og ég hef ekkert séð sem bendir til annars en að það sé báðum aðilum hagstætt, eigi að greiðast upp af tilteknum viðskiptaaðilum viðkomandi banka. Það býr eitthvað annað að baki þarna en hagsmunir ríkisbankanna. Og kannski liggur hundurinn grafinn einmitt þarna, allt þetta fjaðrafok eigi sér að verulegu leyti það upphaf að það sé liður í því að grafa undan trausti

ríkisbankanna.
    Ég get tekið þátt í umræðum um breytt form á ríkisbönkunum. En ekki á þeim nótum að það verði sú einkavæðing sem kynni að færa ríkisbankana á silfurfati til einstakra stórfyrirtækja. Það verður að vera á allt öðrum nótum.
    En að lokum varðandi bankamálin og af því að viðskrh. hefur opnað þá umræðu upp á gátt með sínum ummælum á fimmtudaginn var. Ég er alveg sammála því að við eigum að ræða opinskátt um þá stefnu ríkisstjórnarinnar að fækka og sameina banka og gera bankakerfið á þann hátt virkara til að takast á við ný verkefni í stórbreyttu þjóðfélagi. Við þurfum breytt bankakerfi til þess, ég tek undir það. En ég mundi þá vilja sjá skýrslu um allt það sem gerst hefur undanfarið í sameiningu banka. Ég vildi ekkert síður sjá það sem gerst hefur bak við tjöldin við tilurð Íslandsbanka. Það gæti vel orðið efni í langa ræðu og miklu lengri en hér var haldin áðan af hv. 1. þm. Reykv., bankaráðsmanni í Landsbankanum. Miklu ítarlegri ræðu ef ætti að tíunda það í slíkum smáatriðum sem hann gerði áðan varðandi kaup Landsbankans á Samvinnubankanum. Ekki meira um bankamálin.
    Ég ætla að koma að því sem hér var rætt um rekstrarform samvinnufélaganna af því að hæstv. viðskrh. bryddaði á þeirri umræðu hér á fimmtudaginn var. Hann nefndi þar að í skúffu í viðskrn. væru drög að frv. um ný lög um samvinnufélög. Ég ætla að koma eilítið að þróun samvinnufélaga hér á landi sem er nú orðin 100 ára gömul. Hún hefst í fjármagnslausu þjóðfélagi við þær aðstæður að eigið fé er byggt upp í gegnum stofnsjóði með arðgreiðslum eftir á. Þetta gekk vel í því þjóðfélagi, ekki síst vegna þess að það var svo miklu einfaldara en það þjóðfélag sem við búum í í dag. Þetta gekk áfram um áratuga skeið á tímum neikvæðra vaxta þar sem menn gátu byggt upp eigið fé með lántökum. Það gilti ekki bara um samvinnufélögin, það gilti um allan atvinnurekstur, að menn gátu byggt upp sitt eigið fé með því að taka lán sem ekki voru greidd nema að hluta til baka aftur.
    Sjónarmið hafa hins vegar gjörbreyst eftir að verðtrygging fjármagns var tekin upp og síðan þegar til komu háir raunvextir. Við slíku verða menn að bregðast á gjörbreyttan hátt, ekki síst í þjóðfélagi nútímans sem byggist að verulegu leyti upp á því að allar fjármagnsfyrirgreiðslur gangi greiðlega fyrir sig. Það byggist að verulegu leyti á tilflutningi og tilfærslu fjármagns.
    Á þetta hef ég ítrekað bent á vettvangi samvinnuhreyfingarinnar. Ég hef gert það bæði í mínu félagi og á aðalfundum Sambandsins, og það er alveg rétt sem hæstv. viðskrh. sagði hér á fimmtudaginn að þetta hefur ekki fengið, fyrr en þá á allra síðustu mánuðum, hljómgrunn meðal forustumanna Sambandsins, með einstökum undantekningum þó sem hafa séð fram á breyttar aðstæður. Á því byggðust m.a. skipulagsbreytingar sem voru lagðar fram af hluta af stjórn Sambandsins fyrir hálfu öðru ári síðan undir forustu þáv. stjórnarformanns sem vill svo til að er

núv. bankastjóri Landsbankans. Á þetta hafa menn ekki viljað hlusta fram að þessu, m.a. vegna þess að menn hafa ekki viljað viðurkenna það samhengi milli fjármagns og yfirráða sem hlutafélagsformið hefur að mestu leyti byggt á. Við sem höfum verið þessu meðmæltir höfum aftur á móti sagt að það geti ekki verið nein grundvallarregla að svo þurfi að vera. Og ef menn eru tilbúnir til að breyta nú samvinnulögunum á þann hátt að þar komi inn stofnbréf sem tryggi félagsmönnunum það að þeir geti lagt fjármagn í starfsemina án þess að því þurfi endilega að fylgja yfirráð í sömu hlutföllum, þá fagna ég því, ef hugur fylgir máli hjá þeim forustumönnum Sjálfstfl. sem hafa talað um það að þeir séu tilbúnir að taka upp á Alþingi mál sem séu til heilla fyrir Sambandið og ef menn ætli að aðstoða samvinnuhreyfinguna eigi þeir að gera það hér inni á Alþingi. Þarna er einmitt komið mál sem við getum þá vonandi tekið upp sameiginlega núna og breytt samvinnulögunum á þennan hátt.
    Í öðru lagi hef ég bent á það að hugsunin á bak við almannahlutafélög standi kannski miklu nær upprunalegri hugsjón samvinnufélaganna heldur en því hvernig menn hafa beitt hlutafélögunum í áranna rás hér í okkar þjóðfélagi. Og það væri alls ekki óeðlilegt að samvinnufélögin tækju almenningshlutafélagsformið upp fyrir einhvern hluta af sínum rekstri.
    Þetta er það sem ég vildi koma hér á framfæri varðandi þá umræðu um samvinnufélögin sem hér hefur komið upp. Ég treysti því að þetta mál verði tekið upp á Alþingi á næstunni og þeim öflum sem vilja beita samtakamætti fjöldans til góðra hluta verði fengin í hendur betri tæki til þess að vinna þeim hugsjónum sínum framgang. Þörfin hefur oft verið brýn og hún er ekkert síður brýn nú en hún var í árdaga samvinnuhreyfingarinnar.