Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ósk hv. 1. þm. Suðurl. um það að hæstv. forsrh. komi hingað og verði viðstaddur vegna ákveðinna atriða sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. fyrr í dag. Til að undirstrika það enn frekar eru það tvö atriði sem er mjög þýðingarmikið að fá skýrð vegna þess að þau lúta að grundvallaratriði þessa máls, þ.e. því atriði í skýrslu um Landsbanka Íslands og viðskipti bankans við Samvinnubanka Íslands hf., sem lýtur að eignarstöðu samvinnuhreyfingarinnar. Þetta er þvílíkt grundvallaratriði að það er raunverulega ekki hægt að ræða þetta mál nema hann skýri nánar hvað hann átti við. Hæstv. forsrh. sagði, ef ég tók rétt eftir, virðulegi forseti, eitthvað á þessa leið: Á borði ríkisstjórnarinnar er uppkast að frv. til laga varðandi stofnsjóði samvinnufélaganna sem mun m.a. hafa að markmiði að breyta stöðu þeirra, sbr. það sem segir um stofnsjóði í lögum um samvinnufélög, 3. gr. --- Það er mjög þýðingarmikið að fá nánari skýringu hjá hæstv. forsrh. á því í hverju þessar breytingar eru fólgnar. ( Forseti: Ég vildi aðeins upplýsa hv. þm. og aðra hv. þm. að þeir munu báðir vera á leiðinni, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.) Ég fagna því, virðulegur forseti, og mun spyrja hæstv. forsrh. um þau atriði sem ég ætla að koma inn á.