Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég neita að taka við þeim arfi sem hv. 4. þm. Vesturl. lét mér hér í té. Ég hafði ekki hugsað mér að tala mjög lengi að þessu sinni. Það er ekki ýkja langt síðan við áttum hér langa daga við að ræða það mál sem hér er til umræðu aftur.
    Nú eins og þá eru sjónarmið ólík og skoðanir skiptar, enda er fiskveiðistefnan það mál sem skiptir alla þjóðina mjög miklu máli þannig að hagsmunaaðilar eru mjög margir. Það kemur ekki síst í ljós í þeim mörgu nefndarálitum og bókunum sem fylgja þeim drögum að frv. sem nefndin sendi frá sér nú í lok janúar. Mér er þó kunnugt um að ráðuneytismenn lögðu á það áherslu í störfum nefndarinnar að reyna að samræma sjónarmið en svo virðist sem línan hafi þó verið dregin í átt til útgerðarmanna.
    Ég hlýt að byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum okkar kvennalistakvenna með að ekki skuli hafa skilað sér inn í frv. öll umræðan um nauðsyn þess að gera byggðasjónarmiðum hærra undir höfði og taka tillit til fiskvinnslunnar. Við umfjöllun um fiskveiðistefnuna fyrir rúmum tveimur árum fluttum við kvennalistakonur fjölmargar brtt. Meginefni þeirra var að við vildum taka tillit til byggðasjónarmiða með því að úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga en ekki einstakra skipa eins og nú er gert og lagt er til að gert verði áfram verði frv. að lögum eins og það liggur fyrir. Við lögðum til gjörbreytta skipan mála sem við þá kynntum á fundum með hagsmunaaðilum í greininni og einnig við umræðu hér á Alþingi með mörgum brtt. sem við lögðum fram við frv. ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Þær fengu litlar undirtektir þá en við höfum reyndar komist að því síðar, og ekki síst á ferðum okkar um landið nú á síðasta ári þegar við heimsóttum fjölmarga vinnustaði, ekki síst fiskvinnsluhúsin, að hugmyndir okkar eiga hljómgrunn víða meðal fólks sem vinnur í fiskvinnslunni.
    Á fjölmörgum stöðum sem byggja tilveru sína á sjávarútvegi horfa menn nú með kvíðablandinni eftirvæntingu til þeirrar lagasetningar sem mun væntanlega taka gildi á næstu mánuðum. Þessir staðir eiga allt sitt undir því að atvinnan í landi sé ekki síður lögð til grundvallar en hagsmunir þeirra sem veiðarnar stunda, en það er einmitt rauði þráðurinn í okkar hugmyndum. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um þessar tillögur okkar. Við vildum að árlegur heildarafli yrði eftir sem áður ákveðinn af sjútvrh. að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunar. 80% hans yrði síðan skipt milli byggðarlaga með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára en 20% heildaraflans skyldu hins vegar renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga. Tekjum af sölu eða leigu veiðileyfa yrði síðan varið til rannsókna og fræðslu í sjávarútvegi og jafnvel til verðlauna fyrir sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað

starfsfólks. Með þessu vildum við draga úr miðstýringu og ofstjórn og gera byggðasjónarmiðum hærra undir höfði, stuðla að eflingu rannsókna og fræðslu og hvetja til meiri nýtingar og bættrar meðferðar aflans og betri aðbúnaðar starfsfólks.
    Segja má, eins og ég reyndar minntist á áðan, að tillögur okkar hafi fallið í fremur grýttan jarðveg meðal svokallaðra hagsmunaaðila í útgerð --- ég vil reyndar undirstrika það að ég lít á alla þjóðina sem hagsmunaaðila í þessu máli --- og sömuleiðis meðal ráðuneytismanna. Á þeim rúmum tveimur árum sem lögin hafa verið í gildi hefur margt breyst. Staða margra sjávarplássa hefur versnað, einmitt vegna fiskveiðistefnunnar. Vinnustaðaheimsóknir okkar víða um land á sl. ári styrktu svo sannarlega trú okkar á gildi þessara tillagna og tel ég þess vegna að þær séu enn í fullu gildi og munum við því væntanlega laga þær að því frv. sem hér liggur fyrir og freista þess að ná fram þeim breytingum sem við höfum áður lagt til.
    Varðandi hug okkar til frv. sem við nú ræðum í heild sinni vil ég undirstrika nokkur atriði sem fulltrúi Kvennalistans í nefndinni sem undirbjó drögin að frv. gerði athugasemdir við í áliti sínu. Byrja ég þá fyrst á því að vitna til 1. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``
    Væntanlega geta allir samþykkt að þetta eru þau markmið sem okkur ber að stefna að. Auk þeirra má auðvitað nefna atriði eins og betri kjör, aðbúnað og öryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Við teljum þessa yfirlýsingu í 1. gr. frv., um þjóðareign, hins vegar í algjörri mótsögn við það sem á eftir kemur. Veiðiheimildum er enn sem fyrr úthlutað beint til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta ráðskast með þær í eiginhagsmunaskyni. Jafnvel virðist einhver ótti innan ríkisstjórnarinnar um að hagsmunaaðilar í útgerð líti á þetta sem stjórnarskrárvarða eign sína eins og fram kemur í grg. með frv. Ekki er tekið tillit til hagsmuna fiskvinnslufólks og byggðasjónarmiða gætir hvergi þrátt fyrir vaxandi fylgi við þau sjónarmið innan nefndarinnar sem vann að
mótun frumvarpsdraganna.
    Þetta er meginmál og þrátt fyrir þá staðreynd að nokkur atriði hafa verið færð til betri vegar í frv. getum við ekki samþykkt það eins og það nú liggur fyrir. Ég vil benda á þau atriði sem við teljum að hér hafi verið færð til betri vegar. Vil ég þar sérstaklega nefna breytt mörk fiskveiðiársins sem við teljum og sjáum augljósa kosti við að geti leitt til hagræðingar og hagkvæmni í vinnslunni, tekið kúfinn af aflatoppum að sumrinu og hamlað gegn atvinnuleysi á síðustu mánuðum ársins. Þá vil ég einnig nefna afnám sóknarmarksins sem við teljum vera til bóta.
    Við viðurkenndum það reyndar frá upphafi árið 1985 þegar kvótafrv. fyrst var samþykkt að kvótastjórn væri nauðsynleg og við studdum það frv. þá vegna þess að við sáum ekki aðra leið betri. Á

þeim árum sem liðin eru síðan teljum við ýmsa galla hafa komið í ljós og einmitt í ljósi þess lögðum við fram ítarlegar brtt. hér um áramótin 1987/1988 þar sem meginefni þeirra er, eins og fram hefur komið, að við teljum affarasælast að úthluta hlutdeild í veiðiheimildum til byggðarlaga. Þá höfum við alla tíð lagt áherslu á nauðsyn þess að efla rannsóknir á auðlindinni og við teljum eðlilegt að ef umhverfisráðuneyti verður stofnað hér á landi verði Hafrannsóknastofnun í framtíðinni ein af þeim stofnunum sem settar verða undir umhverfisráðuneyti. Auk þess teljum við nauðsynlegt að huga enn frekar að gæðum en nú er gert, að bæta nýtingu sjávarafla, auka úrvinnslu sjávarafurða, vöruþróun og markaðsrannsóknir.
    Við höfnum því algjörlega að íslensk útgerð haldi uppi erlendri fiskvinnslu á okkar eigin kostnað. Við verðum að tryggja okkar eigin vinnslu nægilegt hráefni, fyrst og fremst til að tryggja atvinnu fiskvinnslufólks. Einnig er nægilegt hráefni forsenda þess að unnt sé að auka fullvinnslu sjávarfurða, bæta nýtingu og auka verðmæti aflans. Við teljum þó rétt að leyfa takmarkaðan útflutning á ísfiski, en um það þurfa að gilda skýrar reglur. Á þeirri tækniöld sem við nú lifum á er vel framkvæmanlegt að fylgjast með því hvort menn nýta erlenda ísfiskmarkaðinn skynsamlega og því sjálfsagt að nota útflutning ásamt aflamiðlun innan lands til að taka kúfinn af aflatoppum.
    Við teljum það ákvæði sem fram kemur í frv. um vigtun sjávarafla vera spor í rétta átt en hefðum þó viljað ganga lengra og gera skylt að vigta allan afla innan lands. Um þann afla sem seldur er erlendis án viðkomu í íslenskri höfn mætti notast við þær reglur sem nú eru í gildi um kvótaskerðingu að því tilskildu að eftirlit erlendis verði í samræmi við kröfur hér á landi.
    Rauði þráðurinn í þessum frumvarpsdrögum, eins og í núgildandi lögum, er sú ofuráhersla sem lögð er á yfirráð sjútvrn. og sjútvrh. á öllum stigum í stjórn fiskveiða og eftirliti. Þrátt fyrir áherslur okkar í Kvennalistanum á aukna valddreifingu viðurkennum við þó að viss nauðsyn er á miðstýringu í þessari atvinnugrein, einkum með tilliti til þeirra heildarhagsmuna sem um er að ræða þar sem, eins og segir í 1. gr. frv., umrædd auðlind er sameign íslensku þjóðarinnar. Við teljum þó að öllu megi nú ofgera.
    Við höfum komið auga á nokkur ráð til að draga úr miðstýringu. Má þar sem dæmi nefna hugmynd okkar um að flytja Hafrannsóknastofnun undir umhverfisráðuneytið. Auk þess teljum við ástæðu til að íhuga vel leiðir til að flytja eftirlitsþáttinn frá ráðuneytinu til annarra aðila, t.d. Fiskifélags Íslands eða umhverfisráðuneytis. Þó mundi þyngst vega til að ná aukinni valddreifingu breytt tilhögun við úthlutun veiðiheimilda. Þess vegna teljum við að enn séu tillögur okkar í fullu gildi. Við viljum rjúfa það óeðlilega samband sem við teljum nú vera milli skips og veiðiheimilda og teljum eðlilegra að úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga. Með því móti væru

hagsmunir þeirra og fólksins sem þar starfar í sjávarútvegi best tryggðir auk þess sem sú tilhögun mundi draga úr þeirri óhóflegu miðstýringu sem nú er fyrir hendi. Reynslan hefur sannað réttmæti þessara sjónarmiða og flestir annmarkar núgildandi tilhögunar sem bent var á eru komnir fram.
    Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir vaxandi skilning og stuðning við áðurnefndar hugmyndir, m.a. í kvótanefndinni, er ekkert sem getur tryggt hag byggðarlaga. Því sjáum við okkur ekki fært að styðja þetta frv. eins og það nú lítur út og við munum, eins og ég gat um áðan, freista þess að gera okkar brtt. miðað við frv. eins og það hér liggur frammi.
    Ég minntist hér á að nokkur atriði hefðu verið til bóta og hefði e.t.v. átt að bæta fleiri við. Ég talaði um afnám sóknarmarksins og fiskveiðiárið. Einnig er talað um opinbera tilkynningarskyldu við sölu á fiskiskipum og ætti það að geta orðið til bóta. En svo er auðvitað spurningin hvort viðkomandi byggðarlög hafi það fjármagn sem til þarf til að kaupa fiskiskipin. Síðan er það einnig til bóta að álag er hækkað vegna útflutnings úr 15% upp í 20%, en við teljum þó eins og fram hefur komið í máli mínu að betra hefði verið að taka upp vigtunarskylduna. Þrátt fyrir að hér sé hægt að finna nokkur atriði sem við teljum tvímælalaust til bóta stendur eftir að við teljum með öllu óverjandi að úthluta aflaheimildum með þeim hætti sem hér er lagt til og leggjum enn þunga áherslu á byggðakvótann.
    Staðfesting á réttmæti þeirra hugmynda okkar kemur fram í greinargerð með
frv. og það er í raun og veru í fyrsta skipti sem ég sé viðurkenningu á þessu vandamáli koma frá sjútvrn. Ekki veit ég hvort hugur fylgir máli eða hvort þar er einungis verið að friða þá fjölmörgu sem taka undir þessi sjónarmið. En í greinargerð með frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir neins konar bindingu aflahlutdeildar við byggðarlög eða landssvæði en við það miðað að Byggðastofnun eða önnur stjórnvöld geti á hverjum tíma gripið til þeirra fjárhagsráðstafana er þurfa þykir til að hafa áhrif á byggðaþróun.`` Þykir mér þessi málsgrein nokkuð loðin og óljós og get ekki séð hvernig á að fara að því að framkvæma hana með heildarhagsmuni að leiðarljósi.
    Það mætti ræða ýmislegt fleira tengt sjávarútveginum og þá ekki síst atvinnumálin og það atvinnuleysi sem víða hefur því miður gert vart við sig, ýmist vegna þess að fiskiskipin hafa siglt með aflann og hráefni hefur skort eða hráefni hefur hreinlega skort vegna þess að skip hafa verð seld burt úr byggðarlögum. Það er ljóst að alls staðar er gríðarlegt vinnuálag í fiskvinnslunni og fólkið keyrt áfram af miskunnarleysi bónuskerfis í einhverri mynd. Áreiðanlega er óvíða annars staðar en í fiskvinnsluhúsum jafnrækilega unnið fyrir hverri krónu í launaumslaginu. Maður hlýtur að spyrja hverjum það sé í hag að ganga svo nærri starfsorku og heilsu þess fólks sem vinnur úr sjávaraflanum. Fá störf eru eins

streituvaldandi og fiskvinnslustörf og óvíða eru atvinnusjúkdómar jafntíðir. Þeir sem semja um kjörin sjá hins vegar yfirleitt ekki önnur ráð til að bæta launakjörin en að pína upp hraðann og vinnuframlagið og spurning er hvenær það ranglæti verður leiðrétt.
    Ég hafði ekki hugsað mér að hafa hér langt mál þar sem ég á sæti í hv. sjútvn. og mun fá tækifæri þar til að fjalla nánar um þetta mál í einstökum atriðum. En ég vil aðeins minna á að við umræðu um fiskveiðistefnuna fyrir tveimur árum fór eins og reyndar oft áður um jól og áramót. Við lentum í mikilli tímaþröng og vorum hér fyrstu dagana eftir áramótin. Það komu upp ýmsar hugmyndir og vangaveltur í umræðunni en það náðist einhvern veginn aldrei það svigrúm sem ég hefði talið nauðsynlegt til að skoða þær hugmyndir betur og gera tilraun til að útfæra þær.
    Í þeirri nefnd sem tók þátt í undirbúningi þessa frv. hafa vissulega komið fram margar mismunandi hugmyndir og skoðanir og einnig hér í umræðunni. Þó fáir hafi talað það sem af er í dag hafa komið fram ólík sjónarmið og eiga e.t.v. eftir að koma fleiri. Það hlýtur því að vera meginverkefni sjútvn. á næstu vikum að reyna að vinna úr þessum hugmyndum og gera einhverjar þær breytingar sem fleiri geti sætt sig við. Ég held að við verðum að reyna að líta á allar hugmyndir og reyna að útfæra þær á einhvern hátt því að við erum að fjalla um hagsmuni rúmlega 250 þúsund manns í þessu landi.