Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram allítarlegar umræður um frv. til laga um fiskveiðistjórnun. Ég mun ræða hér nokkuð um stöðu Sjálfstfl. gagnvart þessu máli, en einnig mun ég ræða örlítið um þau atriði í umræðunum hjá einstaka stjórnarþingmönnum sem mér þóttu nokkuð furðuleg.
    Mér fannst það mjög ósmekkleg samlíking, svo að ekki sé meira sagt, þegar hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson talaði þannig að það mátti eiginlega skilja að hæstv. sjútvrh. væri nokkurs konar Castro Íslands. Mér fannst þetta mjög óviðfelldið því þótt ég hafi oft deilt á hæstv. sjútvrh. í gegnum tíðina fannst mér ekki við hæfi að vera með samlíkingu sem þessa. Enda þótt það hafi verið í tísku gagnvart öðrum stjórnmálamönnum, þá veit ég að hv. þm. Skúli Alexandersson hefur örugglega ekki meint þetta eins og það kom fram í ræðu hans.
    Hins vegar get ég tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. þar sem hann talaði um að það þyrfti að draga úr miðstýringu. En það á ekki aðeins við í sambandi við hugsanlega miðstýringu í fiskveiðistjórnun á Íslandi, heldur á það víðar við. Og ég vildi, áður en ég fer að ræða efnislega um frv., víkja að þeim atriðum og skal vera stuttorður.
    Ég hefði gjarnan viljað að hv. 4. þm. Vesturl. hefði tekið þátt í því hér fyrir áramót að tryggja að miðstýring yrði ekki eins og hún er í dag í sambandi við húsnæðismál. Ég þekki ekki meiri miðstýringu eða meiri sósíalisma í neikvæðustu merkingu þess orðs en það að skylda menn til að afhenda fjármuni sína inn í eitt ákveðið og miðstýrt kerfi eins og á sér stað í húsnæðismálum, því miður. Því hefur hv. þm. tekið átt í og staðið fast að. Ég þekki ekki meiri miðstýringu en þá þegar menn eru skyldaðir hér á einum
kvöldfundi til að afhenda eigur annarra sem nema hundruðum milljóna til að styrkja aðra starfsemi en þá sem viðkomandi fólk stendur að.
    Ég minni einnig á það að hv. þm. Skúli Alexandersson hefur tekið þátt í því að byggja hér upp svokallaðan Atvinnutryggingarsjóð þar sem fara fram skuldbreytingar eða ,,konvertering`` og einnig ákvörðun um framlagningu hlutafjár upp á samtals 6,4 milljarða, aðeins. Þetta eru miklar tilfærslur á peningum, miklar tilfærslur á fjármunum. Þetta er miðstýring. Ég held því að hv. þm. ætti nú að spara sér það að ráðast sérstaklega á hæstv. sjútvrh., án þess að ég þurfi að vera að verja hann sérstaklega. (Gripið fram í.) Ég vek athygli á þessu vegna þess að það er svo mikið ósamræmi í orðum og gjörðum. Og mér finnst það enn þá meira ósamræmi þegar maður hefur það í huga að hv. þm. telur sig vera stjórnarstuðningsmann, að ráðast með þessum hætti að hæstv. sjútvrh. Það væri skiljanlegt ef það væru einhverjir stjórnarandstæðingar sem í hita leiksins hefðu gert þetta. En mér finnst það bara ekki sæma stjórnarstuðningsmanni, sem ætlar svo að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir, að haga sér með þessum

hætti.
    Þetta er ekki meginatriði þessa máls, virðulegi forseti. Þetta er svona inngangur. Ég er bara að vekja athygli á því hvað stjórnarstuðningsmenn eru sjálfum sér ósamkvæmir og einnig að öllu sem þeir segja gagnrýnivert um hæstv. ráðherra og frv. eiga þeir eftir að kyngja og samþykkja frv. í stórum dráttum eins og það liggur hér fyrir. Ég ætla ekkert að orðlengja það eða deila við stjórnarþingmenn sem eru með slíka gagnrýni.
    En það sem ég vildi segja, virðulegi forseti, er þetta: Hér erum við að fjalla um raunverulegan lífsgrundvöll íslensku þjóðarinnar og þá með hvaða hætti við ætlum að hagnýta fiskstofna við strendur landsins. Þetta er, eins og hv. þm. margir hafa sagt og einnig hæstv. sjútvrh., mjög viðkvæmt mál og erfitt í framkvæmd. Það að fjalla um fiskveiðistefnu og fiskveiðistjórnun er fyrir okkur Íslendinga, 250 þúsund manns, meginmál og grundvallaratriði. Það er því er mjög þýðingarmikið að við reynum að ná samkomulagi um meginatriði þessa máls.
    Þegar ákveðið var að taka upp svokallað kvótakerfi á sínum tíma, í desember 1983, átti ég sæti á hinu háa Alþingi sem varaþingmaður. Ég var mjög gagnrýninn á að fara út í kvótakerfið. Í ræðum mínum þá kom ég sérstaklega inn á tvö atriði í sambandi við kvóta og stjórnun fiskveiða sem var að menn yrðu annars vegar að taka tillit til þess hvernig ætti að takmarka sókn fiskiskipanna í hugsanlegt veiðimagn, þ.e. hugsanlegan afla sem flotinn gæti gengið í, og hins vegar að taka afstöðu til þess að fækka fiskiskipunum, minnka fiskveiðiflotann. Um þetta urðu miklar umræður. Ég hallaðist þá að því sjónarmiði og geri enn, að það hefði verið réttara og betra að fara strax í það að minnka fiskveiðiflotann, fækka skipunum. Það sjónarmið fékk ekki stuðning og var það að ýmsu leyti skiljanlegt, bæði vegna þess að þegar verið var að fara út í kvótann í upphafi voru menn ekki undir það búnir, höfðu fjárfest í skipum, höfðu væntingar og voru skuldbundnir þannig að það var ekki eins auðvelt og menn halda að fækka fiskiskipunum.
    Þá er það einnig annað atriði sem ég held að flestir hv. þm. hljóti að viðurkenna, að í tengslum við fiskveiðistefnuna og fiskveiðistjórnun er
byggðastefnan mjög þýðingarmikið atriði. Það þýðir ekki að standa hér upp á hinu háa Alþingi og halda fram ákveðinni byggðastefnu, þ.e. að viðhalda byggð í landinu með eðlilegum hætti, án þess að menn taki afstöðu til þessara tveggja atriða sem er annars vegar magnið sem við ætlum að fá úr sjónum og hins vegar fjöldi fiskiskipanna. Ef við veldum þá leið að fækka fiskiskipunum erum við jafnframt að taka afstöðu til þess að breyta byggð í landinu. Ég held að enginn stjórnmálaflokkur sem á fulltrúa á hinu háa Alþingi treysti sér til að fara út í þá umræðu á þessu stigi frekar en menn voru 1983. Hins vegar liggur það í augum uppi þegar litið er á álitsgerðir fiskifræðinga að það kemur að því fyrr en síðar að Íslendingar verði að taka afstöðu til þess að fækka fiskiskipum.

Mun ég víkja að því hér á eftir þegar ég fjalla um þátt fiskifræðinga í sambandi við mat þeirra á því hvernig eigi að haga fiskveiðistjórnun í nánustu framtíð.
    Vandi okkar Íslendinga er auðvitað mikill í sambandi við fiskveiðar en við erum ekki einir um að eiga í miklum vanda í þeim efnum. Fiskstofnar eru yfirleitt alls staðar í heiminum ofnýttir. Ef maður lítur til Norður-Atlantshafsins þá þekkjum við okkar eigin stöðu, við þekkjum stöðu fiskstofnanna við strendur Íslands. Þeir sem eru kunnugir fiskveiðiþjóðum eða fiskveiðum í Norðursjónum vita að þar er fiskurinn raunverulega að hverfa. Hið sama má segja um fiskimið út af Norður-Noregi. Þau eru að verða uppurin. Úti fyrir ströndum Norður-Frakklands, Spánar og Portúgals er sömu söguna að segja. Sem dæmi um það hvað þessi þróun er hröð og neikvæð get ég nefnt að fyrir rúmri viku var ég staddur úti í Bretlandi. Þá las ég það í bresku dagblaði að skipstjórnarmenn á minni fiskiskipum í Skotlandi höfðu ekki getað stundað veiðar mikið síðustu vikurnar fyrir þann tíma sem ég var þarna úti, vegna þess hve veður voru vond. Þó hafði einum skipstjóra tekist að fara út og hann veiddi helminginn af kvótanum sínum í einni veiðiferð, á rúmum tveimur sólarhringum. Þannig að vandamálin eru víðar en hér á Íslandi. Í stuttu máli má segja það að helstu fiskimið í Norður-Atlantshafi og í Norðursjónum, þ.e. þau sem Evrópumenn hafa helst sótt í, eru því miður ofveidd og ofnýtt.
    Miðjarðarhafið er mengað, þar eru minnkandi fiskveiðar. Og ef maður lítur síðan til Norður-Ameríku, þ.e. til fiskimiðanna út af austurströnd Norður-Ameríku, úti fyrir Kanada og Bandaríkjunum, má segja að þar sé ástand fiskstofna mjög óvíst. Sumir vilja halda því fram að stofnarnir séu að styrkjast eitthvað en um það eru mjög skiptar skoðanir.
    Í stuttu máli sagt, virðulegi forseti, vegna mikils arðráns á auðlindum hafsins á liðnum árum og áratugum eru fiskstofnarnir hvarvetna í hættu, ekki aðeins við strendur Íslands. Þetta arðrán á sér ekki aðeins stað í sambandi við sjávarafla heldur á þetta sér hvarvetna stað í heiminum. Á sama tíma sem þetta gerist fjölgar íbúum jarðar. Neyslukröfur aukast og það verður stöðugt erfiðara að seðja þarfir fólks, neysluþarfir fólks. Það er áætlað að um næstu aldamót, þ.e. eftir aðeins 10 ár, verði íbúar jarðarinnar 7--8 þús. millj. en nú eru þeir rúmlega 5 þús. millj.
    Sjávaraflinn, fiskurinn, fiskstofnarnir, eru mjög mikilvægur þáttur í fæðuöflun íbúa jarðarinnar eins og við vitum og um það þarf ekki að deila. En spursmálið snýst ekki aðeins um ofveiði. Það eru fleiri þættir en ofveiði eða auknar neyslukröfur sem hafa áhrif á hugsanlega stærð og nýtingu fiskstofna. Þar á ég við að mengun sjávar er hættuleg lífríki hafsins. Því miður er ekki fullnægjandi þekking á þróun þessara mála í heild og ekki heldur hér við strendur Íslands. Sem dæmi um það hvað mengun getur haft mikil áhrif á fiskstofna vil ég nefna að í Norðursjónum eru vissir fiskstofnar að hverfa vegna

mengunar. Hið sama má segja um vissar fisktegundir í Eystrasalti, Kaspíhafi og Miðjarðarhafi. Þar er mengun orðin það mikil að raunverulega eru sumir fiskstofnar útdauðir. Þetta eru innhöf, Eystrasalt, Kaspíhaf og það má segja líka um Miðjarðarhafið, en þetta hefur allt áhrif á stöðu okkar hér á Íslandi í sambandi við nýtingu fiskstofna vegna þess að þverrandi fiskur frá öðrum fiskimiðum hefur áhrif á eftirspurnina eftir fiski frá Íslandi. Og þar af leiðandi með verðmyndandi áhrifum eins og við þekkjum. Hér býsnast menn yfir því hvað verð á ferskum fiski er hátt. Og verð á ferskum fiski er mjög hátt í Vestur-Evrópu. Það hefur áhrif á það hvað fer af fiski í aðrar vinnslugreinar eins og menn þekkja með þar af leiðandi neikvæðum áhrifum fyrir viðkomandi greinar og atvinnustig víðs vegar um landið.
    Í stuttu máli sagt er full ástæða til að óttast að fiskstofnunum í Norður-Atlantshafi stafi hætta af fleiru en ofveiði.
    Ég minni á það að á fyrstu áratugunum eftir fyrri heimsstyrjöldina var sökkt óhemju miklu magni af skaðlegum efnavopnum í Atlantshafið. Það veit enginn og það hafa engar athuganir verið gerðar á því hvort þessi efnavopn eru farin að leysast upp og berist með hafstraumum inn á fiskimið í Norður-Atlantshafi. Það er heldur ekki vitað enn hvort ferðir kjarnorkuknúinna kafbáta stórveldanna mengi hafið með þeim hætti að lífríki hafsins sé hætta búin. Þessi og fleiri atriði knýja á um það að þær þjóðir sem eru háðar sjávarafla afkomulega séð verði að hafa aukin afskipti af því hvernig íbúar jarðarinnar umgangast og
nýta auðlindir hafsins. Þetta er okkur Íslendingum sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar við erum að fjalla hér um stjórnun fiskveiða. Einnig verðum við að gera okkur grein fyrir því að viðhorf í heiminum hafa breyst á síðustu árum og síðasta áratug með þeim hætti að það verður að nálgast lausn þessara mála með öðrum hætti en við ýmsir hefðum óskað.
    Þetta eru auðvitað augljós sannindi. Enn á ný stendur hið háa Alþingi frammi fyrir því að fjalla um hvernig fiskveiðistjórnun, takmörkun fiskveiða, skuli háttað gagnvart Íslendingum sjálfum. Við erum hér með til umfjöllunar frv. til laga sem hefur þann tilgang að ,,marka meginreglur varðandi framtíðarskipan stjórnar fiskveiða og skapa grundvöll fyrir hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu fiskstofnanna``, eins og segir í greinargerð með frv. Því er ætlað ,,að skapa sjávarútveginum almenna umgjörð og leikreglur. Innan þessa ramma er þeim er við sjávarútveg vinna hins vegar falið að taka ákvarðanir á þann hátt sem þeir telja hagkvæmastan. Með því að nýta þekkingu og dugnað þeirra er gerst til þekkja má ætla að hámarksafrakstri af fiskveiðiauðlindinni verði náð fyrir þjóðfélagið í heild.`` Ég get tekið undir þetta sjónarmið m.a. með vísan til þess sem ég hef þegar sagt um þróun þessara mála, ekki aðeins hér hjá okkur Íslendingum, heldur allt í kringum okkur.
    Frv. felur í sér að fiskveiðum verður stjórnað með þeim hætti að við reynum að nýta takmarkaðar

auðlindir sem best. Helst vildum við, ég vil segja öll, að fiskstofnarnir væru það sterkir að fiskveiðar gætu verið alfrjálsar í þeim skilningi sem við hér sem eldri erum þekkjum þær, þ.e. engir kvótar og engar takmarkanir. Þá fengi framtak, dugnaður, áræði og hæfileikar að ráða í einu og öllu. Það er í anda sjálfstæðisstefnunnar. En eins og stöðu mála er háttað í dag telja flestir sjálfstæðismenn það óraunsæi og ég vil segja ábyrgðarleysi að viðurkenna ekki að eðli málsins samkvæmt verður að hafa stjórn á fiskveiðum innan fiskveiðilögsögu Íslands í stórum dráttum eins og fram kemur í þessu frv. Þá vil ég taka það fram að það eru ákveðin atriði í þessu frv. sem við viljum skoða nánar og koma með brtt. við.
    Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, fá að undirbyggja þessa afstöðu enn frekar með því að líta á raunveruleikann eins og hann blasir við. Það eru sérstaklega tveir málsaðilar sem koma þar við sögu, annars vegar vísindamenn, þ.e. fiskifræðingarnir, og hins vegar þeir sem starfa úti á vettvangi í þessari atvinnugrein. Þar á ég við sjómenn, verkafólk, skipstjórnarmenn, útgerðarmenn og fiskframleiðendur.
    Ég ætla, virðulegi forseti, fyrst að fjalla nokkuð um álit Hafrannsóknastofnunar um ástand nytjastofna og nokkra umhverfisþætti í sambandi við fiskimiðin og einnig um aflahorfur. Þetta álit sem er gefið út af Hafrannsóknastofnun í ágúst 1989 hefur ekki komið til umfjöllunar hér í umræðunni sem skyldi, þó nokkuð hafi verið tæpt á þessum atriðum, m.a. af hv. 4. þm. Vesturl. Ég tel nauðsynlegt og skyldu þingmanna að fjalla um það með hvaða hætti fiskifræðingar meta stöðu mála. Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því að hvaða niðurstöðu fiskifræðingar komast um ástand fiskstofnanna. Álit þessara manna, þessara mikilvægu trúnaðarmanna íslensku þjóðarinnar sem skoða þessi mál frá degi til dags með vísindalegum hætti, skiptir miklu fyrir líf og framtíð Íslendinga. Við rekum hér mikið og dýrt menntakerfi, mikinn og dýran háskóla og teljum okkur menntaða þjóð. Þá skulum við líka nýta þekkinguna og menntunina með þeim hætti sem við á í hverju tilfelli og það á alveg sérstaklega við í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar.
    Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um horfurnar 1990 segir m.a. í kafla um horfur og tillögur um hámarksafla 1990--1991, með leyfi forseta:
    ,,Ef veidd verða 350 þús. tonn árið 1990 sem er lítið eitt meira en gert er ráð fyrir að veiðist á yfirstandandi ári`` --- þ.e. árið 1989 --- ,,mun veiðistofninn minnka úr 1 millj. 10 þús. tonnum í ársbyrjun 1990 í 820 þús. tonn í ársbyrjun 1992. Og hrygningarstofn`` --- þetta á við um þorsk, ég gleymdi að taka það fram, virðulegur forseti --- ,,um 40 þús. tonn.
    Veiðidánarstuðlar munu haldast háir og árgangar endast illa enda afli 35--43% af stofnstærð. Verði aflinn árið 1990 takmarkaður við 300 þús. tonn mun veiðistofn minnka um 70 þús. tonn en hrygningarstofn vaxa lítið eitt.
    Með þessari fiskveiðistefnu mun veiðidánarstuðull

standa í stað. Með 250 þús. tonna afla á ári mun veiðistofn vaxa um 5% næstu tvö árin. Hrygningarstofn mun hins vegar vaxa um rúmlega 100 þús. tonn. Þá munu veiðidánarstuðlar lækka nokkuð á næstu árum.
    Fjórði kosturinn, 200 þús. tonna afli á ári, yrði til þess að veiðistofn og hrygningarstofn mundu vaxa allnokkuð næstu árin.``
    Þetta er það sem fiskifræðingar segja um þorskinn. Þorskurinn er meginundirstaðan í fiskveiðum okkar Íslendinga. Þessi spá og þetta mat er því mjög alvarlegt fyrir okkur Íslendinga ef á það er litið sem snýr að fjórða kostinum, aðeins 200 þús. tonnum. Þegar menn skoða þetta í ljósi þess sem vísindamenn segja, trúnarmenn okkar allra sem enginn ber brigður á að vinni sitt verk samviskusamlega, hljóta þeir að gera sér grein fyrir því að ekkert
annað blasir við en að hafa ákveðna stjórnun á fiskveiðum og þá duga engin gífuryrði né óraunhæfar hugmyndir um það hvernig væri óskandi að hafa þetta með öðrum hætti.
    Ef við lítum síðan á spá fiskifræðinga varðandi ýsu, virðulegi forseti, þá eru tillögur um hámarksafla 1990--1991 þessar, með leyfi forseta:
    ,,Ýsa. Veiðistofn ýsu er nú áætlaður 240 þús. tonn í upphafi árs 1990 eða heldur minni en við upphaf árs 1989. Hrygningarstofn fer hins vegar stækkandi á árinu 1990 miðað við árið 1989. Þar sem nýliðun allra síðustu ára er undir meðallagi leggur Hafrannsóknastofnun til að dregið verði frekar úr sókn á aflahámarki 1990--1991 og verði óbreytt miðað við fyrri ár eða 60 þús. tonn.``
    Um ufsa, sem hefur einnig mikla þýðingu, segir svo í skýrslu Hafrannsóknastofnunar: ,,Við 110 þús. tonna afla mun stærð veiðistofns fara minnkandi og verður 370 þús. tonn árið 1992. Við 90 þús. tonna afla mun veiðistofn verða um 420 þús. tonn árið 1992 og hrygningarstofn 220 þús. tonn.`` Þegar maður hugsar til fyrri tíma frjálsra fiskveiða og fiskignægtar og lítur síðan til þess sem að framan er sagt þá er hér vissulega um mjög alvarlegar spár að ræða svo að ekki sé meira sagt.
    Þá er einnig sagt að aukin sókn í ufsa frá því sem nú er muni ekki leiða til aukins afraksturs á ári þegar til lengri tíma er litið þar sem afrakstur og nýliðun er nánast í hámarki. Með tilliti til þess leggur Hafrannsóknastofnun til að sókn í ufsastofninn verði ekki aukin frekar. Aflahámark árin 1990 og 1991 verði 90 þús. tonn.
    Karfi hefur skipt miklu máli í fiskveiðum Íslendinga síðustu tvo áratugi, sérstaklega eftir að togaraflotinn efldist. Þá hefur karfinn einnig haft mjög mikla þýðingu fyrir fiskvinnsluna, frystinguna og þar með allt atvinnuástand í landinu. Það skiptir því verulega miklu máli að gera sér grein fyrir því hvernig fiskifræðingar meta útlitið varðandi karfa. Þar segir svo, með leyfi forseta, í umræddri skýrslu:
    ,,Gert er ráð fyrir að aflinn á árinu 1989 verði 80 þús. tonn eða aðeins minni en árið 1988. Gert er ráð fyrir að nýliðun yngstu árganganna svari til

meðaltalsárganganna 1956--1969 og verði 191 millj. ellefu ára fiska.`` Síðan segir: ,,Ef miðað er við 100 þús. tonna ársafla 1990 mun bæði veiðistofn og hrygningarstofn`` --- ég bið hv. þm. að taka eftir þessu. Það getur verið, virðulegi forseti, að þar sem ég hef starfað í sambandi við sjávarútveg og fiskiðnað í tæplega 30 ár fari ég nákvæmar út í þetta en aðrir virðulegir þingmenn. Það fylgir því oft þegar menn eru að tala um það sem þeir þekkja nokkuð til, þá vilji þeir fara dálítið nákvæmlega í það. Ég vona að virðulegir þingmenn meti það. (Gripið fram í.) Já, ég var að tala um karfann sem hefur verið mjög þýðingarmikil afurð og haft mikið að segja í sambandi við afkomu íslensku þjóðarinnar síðustu áratugi. Segja má að karfinn hafi ráðið úrslitum um betri nýtingu á framleiðslugetu fjölda frystihúsa í landinu, sérstaklega eftir að togaraflotinn efldist þannig að þegar verið er að fjalla um karfa, þótt Íslendingar sjálfir borði ekki mikinn karfa, þá erum við að tala um afurð, vöru, sem hefur mikla þýðingu fyrir heildarafkomu útgerðar. Ef miðað er við 100 þús. tonna ársafla 1990 mun bæði veiðistofn og hrygningarstofn minnka verulega. Sé miðað við 80 þús. tonna afla mundi veiðistofn standa í stað en hrygningarstofn minnka. Sé hins vegar miðað við 60 þús. tonna afla mundi bæði veiðistofn og hrygningarstofn aukast lítillega.
    Ég vek athygli á því að það eru ekki nema 6--7 ár síðan að karfaaflinn, ef ég man rétt, var kominn í 120 þús. tonn þannig að hér er verið að tala um helminginn af því sem menn gátu veitt á sínum tíma. Ég get ekki tekið undir það sjónarmið þó að ég hafi gagnrýnt ýmis atriði í sambandi við útfærslu sjávarútvegsstefnu á Íslandi undanfarin ár að það sé alfarið kvótanum að kenna hvernig komið er í sambandi við fiskistofna við landið.
    Ef hv. þm. sem töluðu hér áðan, hv. 4. þm. Vestf. og 4. þm. Vesturl., vilja ræða það hvað hugsanlega gæti ráðið úrslitum um þetta, þá held ég að það megi rekja það til annarrar ákvarðanatöku en þeirrar hvernig kvótinn var ákveðinn. Ég held að það væri eðlilegra að rekja það þá frekar með tilliti til byggðastefnu, þ.e. með tilliti til þess hvernig menn ákváðu á sínum tíma að byggja upp fiskveiðiflotann. Þar á ég sérstaklega við árin 1978--1983 og ég kannast ekki við það að sumir af hv. þm. sem eru mjög harðorðir hér um kvótann í höndum hæstv. sjútvrh. fjalli nokkuð um þann þátt hvernig fiskveiðiflotinn var byggður upp. Ég kannast ekki við það, þeir leiðrétta mig ef ég fer rangt með, að þeir hafi gert athugasemdir við það að fjöldi fiskiskipa var keyptur til ákveðinna sjávarplássa á þeim tíma. En um það er hægt að flytja langt mál og koma inn á það með þeim hætti að tala um byggðastefnu en ekki endilega það hvernig hæstv. sjútvrh. leggur hér fyrir tillögur um kvótann. (Gripið fram í.) Ég sagði það ekki, hv. þm., ég sagði að það væru mörg atriði sem kæmu til greina ef það verður rakið hvernig þessi skipastóll var byggður upp og hvort ástæða var til að byggja hann upp með þeim hætti sem gert var.
    Þá mun ég halda áfram, virðulegi forseti, og ræða

frekar um karfann. (Gripið fram í.) Jú, það er rétt, hv. 6. þm. Reykv., og er eiginlega erfiðast í
sambandi við karfastofninn að hann er svo lengi að endurnýja sig í þá stærð sem æskileg er og er veiðihæf. Ef ég man rétt, þá þarf hann að vera 11--12 ára gamall til þess að teljast veiðihæfur og vinnsluhæfur, þannig að ef gengið er of nærri karfastofninum með þeim hætti sem menn óttast, þá getur tekið áratugi að byggja hann upp í þá stærð að Íslendingar geti veitt 100 þús. tonn, hvað þá 120 þús. tonn. Og hér erum við að tala um verðmæti, peningaverðmæti sem er undirstaða og forsenda þess að við rekum mikið og dýrt menntakerfi, heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi sem Íslendingar vilja búa að þannig að við skulum ekki hafa þessi mál að gamanmáli.
    Ég vil þá halda áfram þar sem segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og fiskifræðinga um karfann: ,,Með hliðjón af niðurstöðum um stærð karfastofnsins og að hlutur djúpkarfa í karfaafla Íslendinga var svipaður og árin 1986 og 1987, um 20 þús. tonn, leggur Hafrannsóknastofnun til að hámarksafli á Íslandsmiðum árin 1990 og 1991 verði 80 þús. tonn hvort ár, af báðum tegundum samanlagt.``
    Við þessa ráðgjöf hefur einnig verið tekið tillit til niðurstöðu Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ef ég man rétt, þá mun það hafa verið rætt á einhverjum fundum hvort ekki væri hægt að auka veiðar á svokölluðum djúpkarfa. Þessar upplýsingar benda til þess að það geti verið mjög vafasamt svo ekki sé meira sagt.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, ræða nokkuð um grálúðu. Grálúða er fisktegund sem Íslendingar veiddu lítið áður fyrr. Sem dæmi má nefna að árið 1976 var grálúðuaflinn ekki nema 5 þús. tonn og þykir þetta frekar óvirðuleg fisktegund. En árið 1989 mun grálúðuaflinn líklegast hafa farið upp í 60 þús. tonn þannig að grálúðuaflinn er farinn að hafa verulega þýðingu fyrir afkomu Íslendinga og útgerð og fiskvinnslu. Ég vil því víkja nokkuð að grálúðunni. Þar sem ég sé að hv. þm. Guðmundur Ágústsson lögfræðingur er mættur í salnum, fulltrúi Borgfl., þá er það gott að hann fylgist með því þegar menn eru að tala um grundvöllinn sem er forsenda þessa frv. sem hér liggur fyrir og hæstv. sjútvrh. hefur kynnt í stuttri ræðu. Ég held að það sé ágæt verkaskipting að hæstv. ráðherra hafi komið með meginlínurnar og að hv. þm. ræði þessi mál ítarlegar og veigamiklar forsendur fiskveiðistjórnunar. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar segir m.a. um grálúðu:
    ,,Áætlað er að veiðistofn sex ára og eldri verði 190 þús. tonn í allt árið 1990. Ef veidd verða 60 þús. tonn árin 1990 og 1991 eða svipað og á yfirstandandi ári minnkar veiðistofninn í 110 þús. tonn árið 1992. Enn alvarlegra er að hrygningarstofn verður þá kominn niður í 30 þús. tonn eða aðeins þriðjung af hrygningarstofni ársins 1988. Leiða má að því sterk rök að svipuð sókn næstu tvö til þrjú árin og verið hefur undanfarið muni valda hruni í stofninum. Eldri hluti hans mun þá minnka mjög og viðkoman þar af leiðandi einnig. Verði afli minnkaður í 45 þús. tonn

mun stofninn einnig minnka verulega á næstu árum. Við 30 þús. tonna afla mun veiðistofninn stækka örlítið, úr 165 þús. tonnum í ársbyrjun 1990 í 180 þús. tonn árið 1992. Á árunum 1980--1986 var veiðistofn áætlaður á bilinu 160--190 þús. tonn. Ársafli á þessu tímabili var á bilinu 30--35 þús. tonn að undanskildu árinu 1931. Því virðist sem grálúðustofninn geti staðið undir ársafla að þessu marki. Þetta er í samræmi við útreikning á afrakstri og nýliðun þar sem meðalárgangur gefur af sér um 35 þús. tonna afla. Með hliðsjón af þessu og því að afli útlendinga er um það bil tvö þús. tonn árlega leggur Hafrannsóknastofnun til að afli verði minnkaður í 30 þús. tonn á næstu tveimur árum.``
    Ég segi fyrir mitt leyti að fyrir þá sem starfa við útgerð og fiskvinnslu eru þetta vissulega mjög alvarlegar tölur og það er alvarlegt fyrir Íslendinga að fiskifræðingar skuli þurfa að leggja fram tillögur þessa efnis eins og fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða hér um síld og loðnu, þó það væri vissulega tilefni til þess, heldur halda mig við þessar þorskfisktegundir sem ég hef fjallað hér um.
    Í stuttu máli sagt, virðulegi forseti, þá er það álit sérfræðinga, fiskifræðinga, að útlit sé mjög dökkt í sambandi við fiskistofna við Íslandsstrendur. Þetta gerir það að verkum að við hv. þm. verðum að haga okkar málflutningi og tillögum og ákvarðanatöku í samræmi við staðreyndir. Ég talaði um það áðan, virðulegi forseti, að ég mundi ekki láta mér nægja að fjalla aðeins um álit fiskifræðinga, sem er auðvitað mjög þýðingarmikið framlag til ákvarðanatöku í þessu máli, heldur ætla ég að ræða einnig nokkuð um raunveruleikann, þ.e. eins og hann blasir við þeim sem standa í því verki að veiða fisk, verka fisk og selja fisk. Þar á meðal eru fulltrúar þessara aðila sem tóku þátt í störfum þeirrar nefndar sem stendur að baki því frv. til laga sem hér er til umræðu þótt menn hafi ekki orðið sammála um það sem heild.
    Það er nefnilega svo að það er við fleiri að ræða um þessi mál heldur en fiskifræðinga. Og það er eins og ég gat um áðan, raunveruleikinn eins og hann birtist því fólki sem stendur í hinu daglega starfi í útgerð og fiskvinnslu, þ.e. staðreyndir hins daglega lífs sem segja okkur kannski enn meiri sögu en öll þau vísindi og sérþekking sem felst að baki þeirra tillagna sem
fiskifræðingar eru með. Staðreyndin er sú og það vita þeir sem starfa við útgerð og fiskvinnslu að meðalþyngd aflaðs fisks hefur minnkað og fiskurinn er smærri en hann var. Það verður að sækja fiskinn dýpra. Kostnaður á sóknareiningu hefur aukist mikið á síðustu árum. Framleiðslutækin eru dýrari, skipin eru dýrari og þau eru kraftmeiri. Og það eru gerðar meiri kröfur á hinum erlendu mörkuðum til gæða en áður fyrr. Við það hækkar framleiðslukostnaðurinn.
    Þá eru kröfur innan lands sérstaklega harðar hjá þeim sem hvergi koma við sögu þessa máls, þ.e. eru ekki framkvæmdaraðilar. Kröfur þessa fólks sem stendur utan við og vill búa við góð lífskjör á

grundvelli sjávarútvegs og fiskiðnaðar eru stöðugt meiri. Þess er krafist að útgerð og fiskvinnslan hagræði betur rekstri. Það eru gerðar kröfur um stærri og færri rekstrareiningar og þær raddir verða stöðugt háværari, sérstaklega hér í þéttbýlinu, að hagkvæmni aukist eftir því sem fyrirtækjum fækkar.
    Þá er það og var krafa ákveðinna þingmanna, sem núna hafa gerst stjórnarþm., í umræðum áður fyrr að það ætti að fækka fiskiskipunum og það ætti að fjölga verkfræðingum sem sætu við stjórnvöl í sambandi við rekstur útgerðar og fiskvinnslu. Þá var lausnarorðið ekki það að gerast ráðherra á Hagstofu Íslands. Hann er því miður ekki hér í salnum, sá hæstv. ráðherra, hann mun eiga sæti í Ed. En það hefði verið æskilegt að sá ,,ágæti þm.`` hefði verið viðstaddur þessa umræðu því að hann lét mikið að sér kveða hér á sínum tíma þegar verið var að fjalla um fiskveiðistefnuna fyrir tveimur árum ef ég man rétt. ( HBl: Og hefur auk þess það verkefni í ríkisstjórninni að marka stefnu í atvinnumálum.) Ég vildi því, virðulegi forseti, vekja athygli á því sérstaklega að hér er ekki mættur ,,sérfræðingur``. --- Ég skil vel að hv. þm. Skúla Alexanderssyni líði ekki vel þegar minnst er á hæstv. ráðherra hagstofumála. Ég held að hæstv. ráðherra sé ekki enn þá orðinn umhverfismálaráðherra. ( HBl: En hann fer með atvinnumálin.) Atvinnumálin, já. Það er sérstök atvinnumálanefnd sem danskur maður er formaður fyrir, ( Gripið fram í: Ekki formaður.) Ekki formaður nei, en aðalsérfræðingur. En ég verð að segja það að mér finnst þetta skondið, sérstaklega eftir að hafa setið í ráðgjafarnefnd um fiskveiðistjórnun, svo að ég bregði mér á skeið eins og hv. þm. Skúli Alexandersson gerir stundum hérna. Í ráðgjafarnefndinni voru m.a. fulltrúar Borgfl. og það er þess vegna dálítið skondið að hér skuli ekki vera mættir helstu oddamenn þess flokks að undanskildum hv. þm. Guðmundi Ágústssyni. (Gripið fram í.) Já, ég bið hv. þm. afsökunar, hann er þingflokksformaður. Ég er með það séstaklega í huga vegna þess að ef ég man rétt, þá gaf fulltrúi Borgfl. í ráðgjafarnefndinni mjög ákveðna yfirlýsingu þar sem hann lýsti andstöðu sinni við þetta frv. og hann mun einnig hafa gert sér sérstaka ferð vestur á Ísafjörð til þess að bíta í hælana á hæstv. sjútvrh. Það eru ekki góð vinnubrögð. ( EgJ: Þetta er allt út og suður.) Já, það er rétt hjá hv. þm. Agli Jónssyni að þetta er allt út og suður hjá Borgfl. í þessu máli. Og ég verð nú að segja það að þetta vekur náttúrlega upp þá spurningu varðandi stjórnarsamstarfið, hvers konar stjórnarsamstarf er þetta? Hv. þm. Stefán Guðmundsson hristir höfuðið. Það skil ég vel vegna þess að hv. þm. vill ganga virðulega hér um sali og bera virðingu fyrir þeim sem vinna með honum og hann stendur með sínum mönnum og það er að skapi okkar sjálfstæðismanna. Hælbítar eru leiðindafólk og ekki húsum hæfir.
    En ég vildi, virðulegi forseti, láta kanna hvort ráðherra hagstofumála er ekki í húsinu þannig að hann geti komið dálítið inn í umræðuna. Ég er að hugsa um að leggja nokkrar spurningar fyrir --- ég ætlaði að segja verkfræðing, fyrir þennan hæstv. ráðherra.

( Forseti: Hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands er ekki í húsinu.) Skelfing finnst mér þetta eitthvað leiðinlegur titill fyrir ráðherra að vera hæstv. hagstofuráðherra. En það verður víst að sætta sig við það.
    Ég vildi þá víkja nokkuð að þeim sem eru úti á vettvangi og fjalla um þetta sem framkvæmdaraðilar. Það heyrist ekki mikið þeirra sjónarmið í sölum Alþingis. Að vísu er hv. þm. Skúli Alexandersson stundum að fjalla um þetta á þeim grundvelli sem er auðvitað mjög eðlilegt þar sem maðurinn er útgerðarmaður. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því að í þessari ráðgjafarnefnd voru mjög margir fulltrúar fyrir, ég vil ekki kalla hagsmunaaðila heldur menn úr sjávarútvegi og fiskiðnaði. Þetta eru útgerðarmenn, skipstjórnarmenn, sjómenn, fiskframleiðendur, farmenn, verkafólk og aðstoðarmenn þessara aðila. Það er búið að vinna að því að reyna að ná samkomulagi um frv. til laga um fiskveiðistjórnun í tæplega tvö ár og ég vil taka það fram að það hefur verið unnið mikið og gott verk af hálfu ráðgjafarnefndarinnar í þeim efnum þó menn séu ekki sammála í einstökum atriðum. En hvað sem því líður þá er það mín skoðun og kemur einnig fram í þeim plöggum og skýrslum sem koma frá ráðgjafarnefndinni að þeir aðilar sem eru helstu ábyrgðaraðilar í sjávarútvegi og fiskvinnslu telja óhjákvæmilegt að hafa stjórn á fiskveiðum í stórum dráttum eins og fram kemur í þessu frv. Þeir hafa ekki treyst sér til að koma með tillögu t.d. sem gengi í þá átt að skera
verulega niður fiskiskipaflotann. Og ein meginástæðan fyrir því að þessir aðilar hafa ekki treyst sér til þess er sú, held ég, að með því að koma með tillögu um að skera verulega niður fiskiskipaflotann væri verið að leggja niður sjávarþorp, breyta byggð í landinu með þeim hætti sem menn hafa ekki treyst sér til þess að fjalla um enn þá hér í sölum Alþingis.
    Ég heyri ekki hv. þm. sem eru mjög stórorðir eða gagnrýnir á þetta frv. ræða nokkuð um byggðastefnu eða byggðaþróun eða hvað mundi gerast ef fiskiskipum væri fækkað allverulega. Nú skal það viðurkennt að það eru of mörg fiskiskip að mínu mati sem mega veiða of takmarkað magn, sem er til ráðstöfunar, það skal viðurkennt. En ég treysti mér heldur ekki til þess á þessu stigi að koma með tillögur um að skera niður fiskiskipastólinn. Það kæmi þó til athugunar að sjálfsögðu að reyna að finna aðferðir til þess að fækka fiskiskipum á næstu árum sem ég held að sé óhjákvæmilegt. Að því verður að vinna.
    Sjálfstfl. hefur ætíð lagt sérstaka rækt við sjávarútvegsmál og margir af forustumönnum Sjálfstfl. hafa forustu um ýmis helstu framfaramál í útgerð og fiskvinnslu. Ég minni m.a. á að það var undir forustu Sjálfstfl. sem fiskveiðilögsagan var færð út í 200 sjómílur á sínum tíma. Þá hafa sjálfstæðismenn ekki aðeins tekið þátt í sjávarútvegsmálum á vettvangi stjórnmála heldur hafa þeir með þátttöku sinni í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar komið mjög við sögu. Margir helstu forustumenn flokksins eru í röðum útgerðarmanna, fiskvinnslumanna, skipstjórnarmanna

og sjómanna.
    Þessir menn og annað sjálfstæðisfólk vill frelsi á sem flestum sviðum og það er á móti miðstýringu og of miklum afskiptum ríkisvalds. En við gerum okkur grein fyrir að það felst í því mikil ábyrgð að standa frammi fyrir því að reka fyrirtæki á þessu sviði á grundvelli veikra fiskstofna með þeim hætti að það sé tryggður rekstur fyrirtækjanna og örugg afkoma þess fólks sem á allt sitt undir sjávarútvegi og fiskiðnaði. Og það gerist ekki með gífuryrðum eða sýndarmennsku í sölum Alþingis. Það er komið nóg af því að hv. þm. ýmsir séu í pólitískum skollaleik með þetta fjöregg íslensku þjóðarinnar.
    Við sjálfstæðismenn tökum tillit til staðreynda eins og ég hef rakið hér á undan. Annars vegar byggjum við okkar mat á rannsóknum og þekkingu fiskifræðinga um stöðu þessara mála og hins vegar á raunveruleikanum eins og það fólk hefur birt okkur hann og eins og hann birtist okkur úti á vettvangi sem er í útgerð og fiskvinnslu. Þessar staðreyndir segja okkur að við verðum að búa við fiskveiðstjórnun enn um sinn. En markmiðið er að þróa Íslendinga út úr kvótakerfi. Það er markmið okkar sjálfstæðismanna. En sú staða er því miður ekki fyrir hendi í dag. Því miður.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, gera hér enn frekari grein fyrir stefnu Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum svo það fari ekkert á milli mála að flokkurinn tekur ábyrga afstöðu til þessa máls eins og allra annarra mála sem við fjöllum um á hinu háa Alþingi. Við tökum afstöðu sem hefur þjóðfélagslegt gildi. Og þrátt fyrir það að við erum ekki stjórnarstuðningsmenn þá dettur okkur ekki í hug að efna til illdeilna eða tefla þessu máli í þá hættu að það gæti skaðað íslensku þjóðina. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, fá að árétta það hver er stefna Sjálfstfl. í sambandi við sjávarútvegsmál og sérstaklega það mál sem hér er til umfjöllunar eins og hún var ákveðin á 28. landsfundi Sjálfstfl., í október 1989. En þar segir svo m.a., með leyfi forseta:
    ,,Fiskimiðin umhverfis landið eru dýrmætasta auðlind Íslendinga. Viðskiptasamningar og verslunarhagsmunir mega ekki stefna í hættu yfirráðum okkar yfir þessari auðlind. Enn fremur er mikilvægt að Íslendingar taki forystu um varnir gegn losun úrgangs í hafið og mengun í norðurhöfum. Nýta ber sjávarspendýr undir vísindalegu eftirliti á sama hátt og fiskstofnana. Til þess að miðin skili okkur hámarksafrakstri til langs tíma er skilvirk fiskveiðistefna lykilatriði. Um stjórnun fiskveiða hefur ríkt mikill ágreiningur en það er höfuðnauðsyn að um þau mál takist víðtæk sátt. Viðurkennt er að takmarka þarf afla á svo til öllum nytjastofnum Íslandsmiða. Fiskveiðiflotinn er of stór og leita verður allra leiða til að hann minnki. Auðvelda þarf útvegsmönnum, sem vilja hætta, að losna skaðlaust við skip sín, t.d. með eflingu aldurslagatryggingar.
    Undanfarin ár hefur verið fylgt þeirri meginstefnu að skipta leyfilegum hámarskafla niður á skip, þó með þeirri undantekningu að hluti flotans hefur sætt

sóknartakmörkunum með þorskaflahámarki. Sjálfstæðisflokkurinn telur að það hafi reynst illa að nota samhliða tvenns konar stjórnkerfi fyrir fiskveiðar og margt hafi mistekist í framkvæmd núgildandi fiskveiðistefnu. Ljóst er að núverandi kvótakerfi á ekki erindi í hagkvæmni- og afkastahvetjandi fiskveiðistefnu. Tekin verði upp sú aðferð að sérhvert fiskiskip fái úthlutað ákveðinni hlutdeild í heildarafla landsmanna til lengri tíma, en með árlegri endurnýjunarskyldu. Markmiðið er að hámarksafrakstur náist við nýtingu fiskstofnanna þannig að hægt verði að afnema kvótakerfið og að frumkvæði og dugnaður einstaklingsins fái notið sín. Aflahlutdeildin verði ákveðin sem hlutfall af heildarafla skipanna með hliðsjón af tegundasamsetningu. Vilji einstakar útgerðir fá meira í sinn hlut en almennar
heimildir kveða á um yrði sá aukni fiskveiðiréttur að fást frá öðrum útgerðum eftir settum reglum í frjálsum viðskiptum. Á þennan hátt verður dregið úr miðstýringu veiðanna, sem mun leiða til fækkunar fiskiskipa af hagkvæmniástæðum innan greinarinnar sjálfrar.
    Sjálfstæðisflokkurinn telur að útgerðin eigi að taka meiri þátt í að greiða kostnað af rannsóknum á fiskstofnunum og eftirliti með þeim og hafi jafnframt áhrif á framkvæmd rannsókna, eftirlits og tillagna um heildaraflamagn, enda séu sjávarútveginum búin rekstrarskilyrði til þessa kostnaðarauka.
    Miklar breytingar standa nú yfir í útgerð og hagnýtingu afla. Þar ber hæst frystingu um borð og ferskfisksölu. Þeim breytingum fylgir samdráttur í hefðbundnum vinnslugreinum. Bent er á að versnandi samkeppnisstaða hefðbundinna vinnslugreina getur leitt til verulegrar byggðaröskunar. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, þróist sem frjálsast í átt til aukinnar hagkvæmni og framleiðni. Sjálfstæðisflokkurinn telur að bestur árangur í sjávarútvegi, svo og öðrum atvinnugreinum, náist með því að takmarka afskipti hins opinbera við það að skapa almenn skilyrði fyrir vexti hans og viðgangi.``
    Þetta er í stórum dráttum, virðulegi forseti, það sem Sjálfstfl. ályktaði á sínum landsfundi um sjávarútvegsmál. Þannig að Sjálfstfl. sem slíkur hefur tekið afstöðu til þess að kvótakerfi þurfi að vera áfram með hliðsjón af ríkjandi aðstæðum.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja hvað varðar einstakar greinar þessa frv. að frv. hlýtur auðvitað að fá eðlilega og þinglega meðferð og því verður vísað til nefndar þar sem það mun verða til umfjöllunar. Það er skoðun mín að nokkur atriði í þessu frv. þurfi að skoðast betur. Ég nefni sem dæmi að það þarf að athuga betur hvernig unnt sé að samræma veiði og vinnslu með tilliti til aukinnar framleiðslu hérlendis. Vísa ég þá sérstaklega til þess sem segir í niðurlagi 10. gr. frv., varðandi svokallað álag þar sem gert er ráð fyrir að það sé 20%. Þá er það einnig skoðun mín að það sé óþarfi að vera með þá, ég vil segja miðstýringu, sem á sér stað skv. 6. gr. um tómstundaveiðar. Það er atriði sem ástæðulaust

er að hafa í lögum og á að fella úr frv. Þá eru það ákveðin atriði sem varða framkvæmd þessara mála sem þarf að athuga mun betur með það sérstaklega í huga að allt vald í þessum málum sé ekki fært undir einn aðila í Stjórnarráðinu. Framkvæmdarvald og dómsvald, eða jafngildi þess, á ekki að vera í hendi sama aðila.