Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Umræðu um þetta dagskrármál varð ekki lokið á fundi hér í hv. deild í síðustu viku. Ég vænti þess að henni megi nú ljúka og málið koma til nefndar og hljóta þar eðlilega málsmeðferð.
    Ég tel ástæðulaust að hafa mjög langt mál um þetta dagskrármál að þessu sinni. Ég gerði hér á síðasta fundi ítarlega grein fyrir tilurð frv. og tilganginum með því. Tilgangurinn er sá að hnekkja ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 5. des. sl. um vaxtahækkun á tilteknum hluta lána hjá Byggingarsjóði ríkisins. Tilgangurinn er að hnekkja þessari ákvörðun og koma í veg fyrir að slíkar ákvarðanir verði teknar í framtíðinni. Frv. felur sem sagt í sér að inn í 3. mgr. 48. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins komi málsliðurinn ,,Öll lán innan sama lánaflokks skulu bera sömu vexti óháð lántökudegi.``
    Eins og menn rekur eflaust minni til var tekin sú ákvörðun í ríkisstjórn Íslands, þvert gegn samþykkt húsnæðismálastjórnar og gegn tillögu Seðlabanka Íslands, að hækka vexti á óteknum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins frá þeim degi en láta vexti þegar tekinna lána sama lánaflokks standa óbreytta. Húsnæðisstofnun ríkisins hafði lagt til að engum vöxtum yrði breytt. Seðlabankinn lagði hins vegar til að vextir bæði ótekinna og þegar tekinna lána yrðu hækkaðir, að vísu um aðra prósentutölu en hér var ákveðin en eigi að síður þannig að eitt mundi yfir alla ganga innan sama lánaflokks.
    Niðurstaða ríkisstjórnarinnar að tillögu félmrh. varð hins vegar sú að hækka eingöngu vextina á óteknum lánum. Að því er manni skilst grundvallast það á samkomulagi
sem gert var við þingmenn Kvennalistans á síðasta þingi í tengslum við afgreiðslu húsbréfafrv. Samkomulagi sem lýst hefur verið yfir af hálfu Kvennalistans að ekki hafi verið staðið við í einu eða neinu nema e.t.v. í þessu eina atriði. Samkomulagi sem er gersamlega farið í svaðið, ef svo mætti segja, ekki síst með tilliti til þess að eitt nýjasta afrek ríkisstjórnarinnar í tengslum við Byggingarsjóð ríkisins mun vera að skerða ríkisframlagið á þessu ári um 100 millj., úr 150 millj. í 50.
    Ég held að öllum sé það ljóst, og ekki síst hæstv. félmrh. sem ábyrgð ber á þessu máli, að fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins er með vissum hætti stefnt í voða. Það hefur verið margrakið hér í þessum sölum á hinu háa Alþingi hvernig þar gæti stefnt í gjaldþrot innan ekki mjög langs tíma ef ekki verður gripið í taumana. Þessu hefur verið mætt með því að ganga á eigið fé sjóðsins og með því að leggja honum til fjármuni beint á fjárlögum. Ég vek til að mynda athygli á ummælum hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum eða hinn 4. nóv. sl. þar sem hún fullyrðir að Byggingarsjóði ríkisins verði stefnt í gjaldþrot á 2--3 árum. Það er skemmri tími en ég hef áður heyrt nefndan í því efni. Þar segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Vaxtamunur á inn- og útlánum stefnir nú í það að

verða 3% að sögn Jóhönnu eftir að húsnæðismálastjórn felldi tillöguna um vaxtahækkun. Það er munurinn á vöxtum þeirra lána sem Byggingarsjóður ríkisins tekur hjá lífeyrissjóðunum og þeim lánum sem veitt eru íbúðarkaupendum.``
    Í framhaldi af þessu ástandi var auðvitað ekki óeðlilegt að breyta þarna vöxtunum, hækka þá eitthvað, ekki síst með tilliti til þess að til eru komnar sérstakar vaxtabætur til að bæta fólki það upp í skattkerfinu sem lakast stendur, þeim aðilum sem höllustum fæti standa. Það sem er óeðlilegt er að mismuna innan sama lánaflokks eins og nú hefur verið gert.
    Það sem hins vegar hefur gerst síðan, virðulegi forseti, er að nú hefur verið ákveðið að skerða framlagið til Byggingarsjóðs ríkisins um 100 millj. kr. til viðbótar. Samkvæmt kenningum ráðherrans sjálfs --- og reyndar blasir það við og þarf ekki kenningar hans til --- rýrir það fjárhag sjóðsins enn frekar og þyrfti þá samkvæmt því að koma til enn frekari hækkun vaxta á móti því framlagi úr ríkissjóði sem lækkað hefur verið. Það hlýtur a.m.k. að mega álykta sem svo að til að mæta minnkuðu ríkisframlagi þurfi að hækka vexti sjóðsins á móti og ég vil leyfa mér að spyrja ráðherrann: Stendur það til? Stendur til að mæta þessu minnkaða framlagi, sem við gerum okkur öll ljóst að fyrirhugað er, með því að hækka vexti sjóðsins á móti til þess að eiginfjárstaða hans rýrni ekki sem þessu nemi? Eða á að fljóta sofandi að feigðarósi og stefna að gjaldþroti sjóðsins á 2--3 árum eins og ráðherrann hefur lýst yfir að yfir vofi?
    Því var lýst yfir hér í vor í tengslum við afgreiðslu húsbréfafrv. svokallaða að vaxtamunur á teknum og veittum lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins yrði ekki nema 0,5--1% framvegis. Engu að síður er nú ljóst að þessi vaxtamunur er 2--2,5%, eða svo segir í það minnsta hæstv. félmrh. í grein í Morgunblaðinu 14. des. sl. Það er því ljóst að fjárhag Byggingarsjóðsins er síður en svo borgið með þessari ákvörðun sem tekin var og ég vil hér leyfa mér að gagnrýna. Þetta er auðvitað ekkert nema hálfkák á hvern veginn sem litið er.
    Það sem er alvarlegast í þessu er að hér hefur verið tekin ákvörðun sem mismunar lánþegum hjá Byggingarsjóðnum og sem mun þegar koma fram í því að
verð á nákvæmlega sambærilegum íbúðum verður breytilegt eftir því hvort lánin frá Byggingarsjóðnum sem á þeim hvíla hafa verið tekin fyrir eða eftir 5. des. sl. Þetta er auðvitað fáránlegt ástand og þessu verður að breyta. Ég hygg að meiri hluti sé fyrir því hér í þessari hv. deild að breyta þessu. A.m.k. liggja fyrir skjalfestar yfirlýsingar hv. þm. Framsfl. Einn þeirra er meðflm. að þessu frv., hv. fyrrv. félmrh. Alexander Stefánsson, 1. þm. Vesturl., sem hefur lýst því yfir að sú ákvörðun sem tekin var hafi verið hreinasta lögleysa.
    Ég gagnrýni það ekki, virðulegur forseti, að hæstv. félmrh. skuli reyna að ná utan um fjárhagsvanda Byggingarsjóðsins. Ég hef frekar gagnrýnt ráðherrann

undanfarin 2--3 ár fyrir að vera tregur til að taka á því vandamáli. Hér urðu til að mynda umræður í Nd. Alþingis haustið 1987 um það mál vegna þess að lengi hefur blasað við að fjárhagsvandi sjóðsins væri svo mikill að undan því yrði ekki vikist að taka á honum með einhverjum hætti. Og það er auðvitað alveg ljóst að það verður ekki gert nema með því að hækka vextina. En það verður þá að standa þannig að því að þegnunum sé ekki mismunað. Og ef ráðherrann er hræddur um að það fólk sem áður hefur tekið lán hjá þessum sjóði, fyrir 5. des. sl., geti ekki staðið undir þeim byrðum sem hann hefur ákveðið að velta yfir á nýja lántakendur, þá má auðvitað spyrja sem svo: Gagna ekki vaxtabæturnar því fólki í sama mæli og því sem tekur lánin síðar eða eru vaxtabætur ríkisstjórnarinnar, sem ákveðnar voru á síðasta vori, eitthvað sérstaklega ætlaðar því fólki sem tekur lán úr sjóðnum eftir 5. des.? Vitaskuld ekki. Vitaskuld gagnast þær nákvæmlega öllum jafnt, hvort sem þeir hafa tekið lánin fyrir eða eftir þá dagsetningu ef menn á annað borð uppfylla skilyrði þau sem skattalögin setja um vaxtabætur.
    Reyndar er nú komið á daginn, virðulegi forseti, að það hefur orðið alvarlegur galli að mínum dómi við setningu laga um vaxtabætur sem hér var gengið frá á síðasta vori og var fjallað um í lögum um tekjuskatt og eignarskatt hér á Alþingi rétt fyrir jól. Ég mun koma að því við annað tækifæri, en þar hefur verið svikist illa aftan að því fólki sem fékk á síðasta ári úthlutað húsnæðisbótum í fyrsta sinn og taldi sig eiga rétt á þeim til sex ára. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að svipta það fólk þeim rétti og skylda það til þess að þiggja eingöngu vaxtabætur í staðinn og tekið frá því valið, eins og þó var alltaf ætlunin, að fólk gæti valið milli vaxtabóta og húsnæðisbóta. Ég mun koma nánar að því máli við annað tækifæri, herra forseti, en vildi láta þetta koma fram.
    En ég ætla ekki að tefja þessar umræður, virðulegi forseti. Mér er það kappsmál að þetta þingmál komist til nefndar. Ég vil ítreka fyrirspurn mína til ráðherra varðandi þá ákvörðun sem nú liggur fyrir og ég geri ráð fyrir að sé tilkomin að tillögu ráðherra þessa málaflokks, um að lækka framlagið til Byggingarsjóðs um 100 millj. kr. Mun það verða til þess að ráðherrann beiti sér fyrir frekari hækkun vaxta á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins eða á það að koma fram í skertri eiginfjárstöðu sjóðsins? Og ráðherrann gæti þá kannski frætt okkur örlítið meira um hvaða áhrif þetta minnkaða fjármagn mun hafa á starfsemi Byggingarsjóðsins. Muna menn eftir því að þegar núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins voru samþykkt vorið 1986 var það talið skilyrði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar til að þetta kerfi gæti gengið að ríkissjóður legði fram árlega 1000 millj. kr. inn í sjóðinn á verðgildi þess tíma? Muna menn eftir því hvað það var gagnrýnt næstu árin á eftir að þetta framlag var óbreytt í krónutölu? Muna menn eftir því hvað talsmenn Alþfl. og verkalýðshreyfingarinnar gagnrýndu það? Og vita menn hvað það framlag er komið ofan í núna, sem var þó um 1 milljarður kr.

hér fyrir örfáum árum? 50 millj. kr. er framlagið úr ríkissjóði, samkvæmt síðustu upplýsingum, til Byggingarsjóðsins sem þó stefnir hraðfluga í gjaldþrot, að því er félmrh. sjálfur upplýsir. Þetta er frammistaðan. Þetta er frammistaða þeirra sem hæst hafa talað um þessi mál á undanförnum árum.
    Ég vil að endingu beina þeirri spurningu, virðulegi forseti, til ráðherrans hvort af hans hálfu séu uppi einhver áform um að breyta ákvörðun sinni frá 5. des. Ef henni verður breytt í þá átt sem eðlilegt verður að telja, að vaxtahækkunin hver sem hún verður, hvort sem hún verður 1% eða 0,5%, nái jafnt yfir alla innan sama málaflokks, þá er þetta frv. óþarft í bili nema ég tel að það mundi eiga rétt á sér inn í lögin til að koma í veg fyrir sambærileg mistök í framtíðinni. En það lægi þá kannski ekki á að afgreiða það hér á þessu þingi. En ég vil sem sagt spyrja: Stendur til að breyta þessari ákvörðun? Stendur til að fara að vilja þm. Framsfl. sem hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að láta þessa hækkun yfir sig ganga? Stendur það til? Stendur til að brjóta þetta eina ákvæði samkomulagsins við Kvennalistann sem eftir stendur? Ég held að stjórnarflokkana muni ekki um að brjóta þetta eina atriði til viðbótar öðru því sem þar var, eins og öllum loforðunum um stórfellda aukningu framlaga til félagslega húsnæðislánakerfisins og fleira og fleira sem í því samkomulagi var. Munar stjórnarflokkana nokkuð um að bæta þeim pinkli á sig í þessu sambandi? Hér er um að ræða réttlætismál, sem ég tel því miður að
Kvennalistinn hafi misskilið. Þess vegna eru þær okkur ósammála um þetta atriði og hafa verið alveg frá því á síðasta vori. Það liggur líka fyrir að ráðherrar Borgfl. hafa bókað sérstaklega út af þessu máli í ríkisstjórninni, ég skal ekki endurtaka það sem ég hef þegar sagt um það atriði. Það liggur fyrir að þeir eru andvígir þeirri ákvörðun sem tekin var. Ég tel því að það blasi við að meiri hluti sé hér í hv. deild fyrir samþykkt frv. eða fyrir því að ríkisstjórnin breyti fyrri ákvörðun sinni yfir í til að mynda það sem ráðherrar Borgfl. lögðu til, sem var skynsamlegt að mínum dómi.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, virðulegi forseti. Umræða um þetta mál hefur frestast nokkuð oft frá því að það var hér fyrst lagt fram. Allt var það í góðu samkomulagi milli mín og ráðherrans og ekkert við því að segja vegna þess að ég óskaði eftir því að hún yrði hér viðstödd þessar umræður, en mér ætti það fengur ef nú væri hægt að koma málinu áfram þannig að það geti fengið eðlilega meðferð í þingnefnd.