Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Rannveig Guðmundsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það kom mér á óvart að fyrr í þessari umræðu um vexti af lánum Byggingarsjóðs ríkisins var fjallað um starfsmannahald í Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég get ekki stillt mig um það hér í upphafi máls míns að koma örlítið inn á það mál til upplýsingar.
    Þegar fyrir lá að starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins flyttist í nýtt húsnæði vildi stjórn stofnunarinnar skoða hvernig skipulag stofnunarinnar gæti best orðið og þá fyrirkomulag starfseminnar þannig að innréttingar húsnæðisins tækju mið af því. Stjórnin kaus úr sínum hópi fjögurra manna starfshóp, hið hæfasta fólk, og leitaði jafnframt utanaðkomandi ráðgjafar til að vinna þetta verk. Þessi starfshópur skilaði tillögu um ákveðna verkaskiptingu og starfsmannafjölda til stjórnarinnar og það var alger einhugur í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins um þá niðurstöðu og þar með tilflutning starfsmanna milli deilda sem fólst í þessari tillögu. Þar var líka alger einhugur um að starfsmönnum yrði ekki fjölgað miðað við þau verkefni sem lágu fyrir. Það var fremur útlit fyrir fækkun stöðugilda en jafnframt ákveðið að engar uppsagnir kæmu til vegna þessarar uppstokkunar.
    Ég vil líka benda á það, fyrst farið var að ræða þessi mál hér í hv. deild, að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins gerði þá samþykkt í maí 1987 að stofnunin hefði sjálf með höndum lögfræðiþjónustu og lögfræðilega innheimtu vanskila fyrir byggingarsjóðina um leið og rættist úr húsnæðismálum stofnunarinnar. En þessi samþykkt var gerð í lok síðasta kjörtímabils. Landsbankinn hafði haft þessa innheimtu og þessi lögfræðistörf með höndum og hefur sótt það fast að stofnunin tæki þetta til sín. Sú fjölgun sem tillaga var um felst í því að taka yfir þetta verkefni samkvæmt samþykkt frá 1987. Að sjálfsögðu er húsbréfadeild utan við þetta, enda var ekki tímabært að fjalla
um hana á þessum tíma, en félmrh. hefur gert ráð fyrir starfsmannahaldinu þar. Mér fannst mjög eðlilegt að leiðrétta þetta þar sem málið er mér mjög tengt sl. tvö ár og fannst eðlilegt að það kæmi fram hér hvernig var staðið að starfsmannahaldi. Fannst mér það sjálfri til fyrirmyndar gagnvart ríkisstofnunum.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér að öll lán innan sama lánaflokks hjá Byggingarsjóði ríkisins skuli bera sömu vexti óháð lántökudegi. Í greinargerð með frv. er það áréttað að ríkisstjórn skuli óheimilt að ákveða að lán innan eins og sama lánaflokks skuli bera mismunandi vexti. Enn fremur að verði frv. að lögum verði að breyta ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 5. des. sl. um að almennir vextir Byggingarsjóðs ríkisins skuli hækka úr 3,5% í 4,5% af lánum sem sjóðurinn veitti frá þeim degi. En málið er samt ekki eins einfalt og það er sett fram hér og ýmsar spurningar vakna í því efni sem ekki finnast svör við í greinargerð. Á mig virkar frv. óyfirvegað og fljótfærnislegt og það kemur á óvart með tilliti til þess hverjir eru flm.
    Markmið frv. er óljóst að öðru leyti en því að flm.

vísa til jafnræðisreglu eins og þeir túlka hana í greinargerð og mun ég koma að því örlítið síðar. En ég spyr líka: Hvað hefur breyst frá árinu 1984 þegar nákvæmlega eins vaxtaákvörðun var tekin af þáv. ríkisstjórn og tveir af fjórum flm. voru aðilar að sem ráðherrar? E.t.v. eru flm. aðallega með í huga lán til kaupa eða bygginga á nýjum íbúðum og lán til kaupa á notuðum íbúðum þegar þeir setja fram frv. um að vextir skuli vera eins í öllum flokknum. En vissulega mundi samþykkt frv. þýða að vextir, t.d. af láni til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði og sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir svo að ég nefni tvo lánaflokkanna, mundu jafnframt hækka á þegar teknum lánum. Árið 1984 var ákveðið að þau lán bæru 1% vexti en þau bera nú 2% vexti. Þá, 1984, voru jafnframt hækkaðir vextir af lánum í fimm mismunandi lánaflokkum af sjö.
    Ef við tökum einn lánaflokk fyrir og skoðum lánaflokkinn Lán til kaupa eða bygginga á nýjum íbúðum, þann sérstaka lánaflokk, þá eru þau lán með mismunandi kjörum, bæði hvað varðar vexti og lánstíma eftir því á hvaða tíma þau voru veitt. Í greinargerð húsnæðismálastjórnar vegna fyrirhugaðrar vaxtahækkunar 1984 kemur fram að eigi hækkun að ná til þegar veittra lána sé eðlilegt að hún taki til lána sem veitt voru frá júlí 1979 til júlí 1984, en þau lán báru 2,25% vexti og fulla verðtryggingu. Þá var líka bent á að líka yrði að lengja lánstíma þeirra lána hlutfallslega þannig að greiðslubyrði yrði ekki þyngri en hjá þeim sem tækju lán eftir 1. júlí 1984 og voru með lengri lánstíma. Jafnframt var bent á að breyta þyrfti vöxtum á hluta af verðtryggðum lánum sem veitt voru 1974--1979. Og mér finnst ástæða til að upplýsa það hér í hv. deild hvernig lán við erum með í einum og sama lánaflokknum.
    Í einum og sama lánaflokknum erum við með hlutaverðtryggð lán með 30% verðtryggingu, hlutaverðtryggð lán með 40% verðtryggingu og 9,75% vöxtum og hlutaverðtryggð lán með 60% verðtryggingu og 2,8% vöxtum. Síðan erum við með fullverðtryggð lán með 2,25% vöxtum, 3,5% vöxtum og svo núna með 4,5% vöxtum.
    Menn geta velt því fyrir sér hvernig það kæmi út að breyta og setja sömu
vexti á allan þennan lánaflokk. Ég mundi vilja segja það til upplýsinga hér að hlutaverðtryggðu lánin koma hagstætt út í heildina fyrir lántakendur sem tóku þau á sínum tíma og hafa haldið þeim sjálfir síðan. Hins vegar eru þau með þunga greiðslubyrði og þyngri en núgildandi lán fyrir þann sem keypt hefur eign með slíku láni áhvílandi eftir að verðtryggingin er komin á það með fullum þunga og viðkomandi hefur þá ekki notið þeirrar ívilnunar sem fólst í óverðtryggða hluta lánanna. Fjölmargir sem hafa yfirtekið slík lán hafa óskað eftir því að fá lánskjörum breytt til samræmis við það sem gildir um nýrri lán. Og þrátt fyrir að heimildarákvæði í lögum séu þess efnis hefur vöxtum af 30 og 40% verðtryggðum lánum ekki verið breytt og þá væntanlega verið tekið mið af forsendum lánanna. Ég vil líka upplýsa það að ef vöxtum af

hlutaverðtryggðum lánum yrði breytt til samræmis við nýrri lán má áætla að það mundi kosta Byggingarsjóð ríkisins 60--70 millj. kr. á ári.
    Það kemur líka fram í greinargerðinni frá 1984 að mjög mikil vinna fylgdi breytingum á lánskjörum eldri lána og æskilegt að stilla breytingu þeirri í hóf og gera það að yfirveguðu ráði. Þetta tel ég m.a. skýringu þess að ríkisstjórnin ákvað 1984 að breyting vaxta tæki eingöngu til lána sem eru tekin frá þeim tíma.
    Af því sem ég hef hér rakið er ljóst að það er ekki einfalt mál að hækka vexti á þegar tekin lán innan sama lánaflokks og að á því eru margar hliðar. Að mínu mati eru bæði tæknilegir og siðferðilegir annmarkar á þeirri framkvæmd sem lögð er til. Ef flm. eru hins vegar að hugsa um að einungis eigi að hækka vexti af lánum innan lánaflokksins frá einhverjum ákveðnum tíma eða ákveðinni lagasetningu hefði það þurft að koma fram. En það virkar reyndar andstætt þeirri túlkun á jafnræðisreglu sem fram kemur í greinargerð með frv. Þar kemur fram að ákvörðun ríkisstjórnar um vaxtahækkun í desember geti nálgast það að vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. En þýðir ekki jafnræðisreglan að eins skuli fara um alla sem eins er ástatt um? Þ.e. alla sem taka lán á sama tíma, við sömu aðstæður en ekki að eins skuli fara með alla sem einhvern tíma hafa tekið lán óháð aðstæðum. Í þessu efni megum við ekki gleyma því að við erum að fjalla um langtímalán og yfirleitt stærstu lán viðkomandi lántakanda og í húsnæðiskönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins kemur fram að hæst hlutfall allra aldurshópa er með stærstan hluta ógreiddra lána sinna hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í þeirri sömu könnun kemur líka fram að alvarlegir erfiðleikar vegna íbúðakaupa eða íbúðabyggingar hafa einkum hrjáð yngsta aldurshópinn. Þannig segjast tæp 45% þeirra yngstu hafa lent í alvarlegum fjárhagsörðugleikum vegna íbúðakaupa og 20% í alvarlegum erfiðleikum innan fjölskyldu. Alvarlegir fjárhagserfiðleikar eru hlutfallslega mestir meðal þeirra yngstu en minnka hlutfallslega með hærri aldri svarenda.
    Þá kemur fram að 23% flestra stétta telja sig hafa lent í alvarlegum erfiðleikum en þó eru þær undantekningar að um 30% fólks úr millihópnum telja sig hafa lent í slíkum erfiðleikum en einungis 17% sérfræðinga og atvinnurekenda. Um 28--33% þeirra sem keyptu eða byggðu eftir 1980 lentu í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna húsnæðiskaupa en einungis 14--17% þeirra sem keyptu fyrr. Þetta eru athyglisverðar tölur. Þá lentu 14% þeirra sem keyptu 1980--1983 í alvarlegum erfiðleikum innan fjölskyldu, tæp 9% þeirra sem keyptu eftir 1983 en 4--7% þeirra sem keyptu fyrir 1980.
    Þegar við skoðum aðstæður lántakenda í dag og það hefur verið rætt hér, þá hafa tekið gildi lög um vaxtabætur sem taka mið af tekjum og eignum þannig að fólk með lágar og miðlungstekjur greiðir í raun

innan við 3% raunvexti. Og það liggur við að maður spyrji sig að því núna þegar maður fjallar um þessa þætti og fer yfir þessa skýrslu Félagsvísindastofnunar hvort þingmenn séu nokkuð búnir að gleyma neyðarástandi fólksins sem var að koma sér þaki yfir höfuðið á fyrri hluta 9. áratugarins og því ástandi sem í raun var tilefni greiðsluerfiðleikalánanna. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekki hægt að líta fram hjá þeim hópi. Misgengi launa og lánskjara hafði þau áhrif að allar áætlanir fólks sem stóðu í húsnæðisöflun ruku út í veður og vind og við tóku ómældir erfiðleikar hjá fjölmörgum fjölskyldum. Og það kemur fram í töflu fjmrn. frá 20. des. um húsnæðisbætur, vaxtaafslátt og vaxtabótakerfi að vaxtabyrði þeirra sem hljóta vaxtaafslátt telst 14--16,7% en það er einmitt þessi hópur sem vísað er til.
    Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að það fólk sem eftir margra ára basl er e.t.v. loksins að komast á lygnari sjó mundi við samþykkt þessa frv. telja sig fá kalda kveðju frá Alþingi. Og það má leiða að því getum hv. flm., í tilefni spurningar um það mál, að vaxtabæturnar komi þessu fólki ekki nú til góða á sama hátt og nýjum lántakendum. Þeir eru e.t.v. eftir þessi ár fimm, sex, sjö, átta, ef við tökum misgengishópinn 1983, 1984 með, þeir eru komnir yfir þetta eignahlutfall, e.t.v. búnir að koma sér út úr verstu stöðunni en vaxtabæturnar koma í dag til allra þeirra sem eru að festa kaup og miðast við eignir eða tekjur. Má leiða að því getum að þær koma ekki á sama hátt þessu fólki til góða og jafnvel að verið sé að búa til nýja greiðsluerfiðleikahópa.
    Eins og menn heyra, þá er ég mjög ósammála flm. um túlkun þeirra á jafnræðisreglunni varðandi þetta mál og ósammála því frv. sem hér er sett fram. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.