Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða frv. sem í rauninni er nokkuð furðulegt að þurfi að flytja vegna þess að hér gerist það að nokkrir hv. þm. þurfa að flytja frv. til þess að fá úr því skorið hvort hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hafi brotið lög. Því er haldið fram m.a. af þeim sem hér stendur að svo sé og enn fremur af þeim ráðherra sem á sínum tíma stóð fyrir lagabreytingunni á 48. gr. húsnæðislaganna árið 1986. En áður en ég vík að þessu efnisatriði sem ég reyndar hef gert áður í umræðum á Alþingi, nánar tiltekið snemma í desember á sl. ári, vil aðeins víkja að því sem hér hefur verið teymt inn í þessar umræður en það eru þeir fjármunir sem renna til húsnæðismála.
    Það er athyglisvert að hlusta á hæstv. ráðherra lýsa því yfir aftur og aftur að það stefni í þrot í Byggingarsjóði ríkisins innan nokkurra ára. Samt virðist vera fátt um úrræði til þess að komast hjá slíku gjaldþroti sjóðsins. Það er einnig harla einkennilegt að hlusta á þögn hæstv. ráðherra þegar hann kom í ræðustólinn og svaraði ekki fsp. frá hv. 17. þm. Reykv. um það hvort sú skerðing sem nú á að eiga sér stað til Byggingarsjóðs ríkisins muni framkalla hærri vexti og auknar tekjur vegna hærri vaxta og þá til hvaða hóps slík vaxtahækkun ætti að taka.
    Ég vil, virðulegur forseti, þá víkja nokkrum orðum að þessu frv. Ég efast um lögmæti þess að láta vaxtabreytingar aðeins ná til hluta þeirra sem tekið hafa lán í sama lánaflokki á sömu kjörum á grundvelli sömu laga. Það hefur komið fram í þessari umræðu að hæstv. félmrh. og þar með hæstv. ríkisstjórn fór hvorki að tillögum húsnæðismálastjórnar né umsögn Seðlabankans en í lögunum er skylt að leita tillagna og umsagna þessara aðila. Það hefur verið rifjað upp að húsnæðismálastjórn lagði til óbreytta vexti en Seðlabankinn taldi rétt að vaxtahækkunin yrði 1% á nýjum lánum í lánaflokknum en 0,5% hækkun yrði á
eldri lánum. Það hefur enn fremur komið fram í þessari umræðu að það sé vafasamt að á hv. Alþingi sé meiri hluti fyrir þessari ráðstöfun. Það er ljóst að stjórnarandstöðuflokkarnir styðja ekki þá hækkun sem varð á lánunum sem tekin voru eftir 5. des. sl. Borgfl. lýsti afstöðu sinni í ríkisstjórn og lagði til allt annað en hér hefur verið gert. Það hefði vissulega verið æskilegt að einhver talsmaður Borgfl. hefði tekið þátt í þessum umræðum. Það hefur einnig komið fram að sá skilningur er ríkjandi í Framsfl. að ekki skuli fara að með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur gert.
    Í raun hefur hæstv. ráðherra fyrst og fremst notað eina röksemd máli sínu til stuðnings og hún er sú að hæstv. ráðherra hafi gert samning við Kvennalistann til þess að koma fram húsbréfafrv. á sínum tíma. Á móti kemur að Kvennalistinn hefur lýst yfir að aðeins hafi verið staðið við lítinn hluta þess samkomulags sem var gert að mig minnir 1. maí eða í lok aprílmánaðar. Það er því verið að hengja sig þar í hluti sem varla er eðlilegt þegar tillit er tekið til þeirra efnda sem urðu á samkomulaginu.

    Hæstv. ráðherra hefur enn fremur vitnað til lögfræðiálits sem ég hef kynnt mér harla vel. Það lögfræðiálit er fyrst og fremst skrifað til að svara þeirri spurningu hvort hækkunin í desember sé brot á svokallaðri jafnræðisreglu, en niðurstaða lögfræðingsins er sú að svo sé ekki. Í raun segir lögfræðingurinn að hægt sé með sama hætti, og það er kannski það alvarlega í þessu máli, að hækka eða lækka eftir atvikum vexti af lánum tiltekins hóps sem hefur tekið lán á einhverjum tilteknum tíma allt frá árinu 1986. Með öðrum orðum, hæstv. ráðherra hefur með ákvörðun sinni lagt grunn að því að hægt sé að taka þann hóp út úr sem t.d. fékk lán á árinu 1988, á þriggja mánaða tímabili og hækka sérstaklega vexti af lánum þess hóps án þess að hreyfa vextina hjá öðrum í þeim hópi sem hefur fengið lán í sama lánaflokki frá þeim tíma sem lögin voru sett. Það er átakanlegt að hæstv. ráðherra, sem kallar sig jafnaðarmann og situr í þessari ríkisstjórn, skuli ekki þegar hann finnur andstöðuna við þetta frv. a.m.k. reyna að átta sig á því hvort hér sé lögum fylgt og leita eftir fleiri lögfræðilegum álitum um þetta tiltekna atriði, ekki síst í ljósi þess að þeir sem komu að þessu máli á sínum tíma og báru kannski hitann og þungann af því að koma þessu máli í gegn á Alþingi, höfðu þann skilning á málinu að breytingin sem gerð var á lögunum 1986 --- og ég undirstrika vegna ræðu síðasta ræðumanns að það var gerð breyting á lögunum 1986, veruleg breyting hvað þetta atriði snertir. (Gripið fram í.) Ég skal fara ítarlegar í þetta atriði.
    Þegar lögin frá 1986 voru samþykkt var gerð sú breyting, eins og ég vona að hæstv. ráðherra viti og muni ef hann nennir að rifja það upp fyrir sér, að það var ákveðið að fjármagna þetta kerfi með hjálp lífeyrissjóðanna með þeim hætti að félagar í þeim lífeyrissjóðum sem lánuðu byggingarsjóðnum 55% af greiðsluflæði sínu innan ársins ættu rétt á því að fá lán úr sjóðnum. Þá var gerð sú breyting sem skiptir öllu máli, það er kjarninn í þessu máli. Þetta segi ég af því að ég var formaður í þeirri nefnd sem fjallaði um málið og þekki það afar vel. Það var gerð sú breyting að í stað þess að áður var ætlast
til að vaxtaákvörðun yrði tekin einu sinni á ári þegar húsnæðismálastjórn gerði fjárhagsáætlanir fyrir stofnunina, var í staðinn sett að vextir skulu vera breytilegir. Af hverju var þessi breyting gerð? Hún var gerð vegna þess að það var ákveðið að taka ætti tillit til hvaða samningar væru gerðir við lífeyrissjóðina á hverjum tíma. Og vaxtaákvörðunin átti að vera í hlutfalli við þá ákvörðun því allir vita að ríkissjóður þurfti að borga þann vaxtamun sem varð, annars vegar á vöxtum sem fengust inn í sjóðinn frá lífeyrissjóðunum og hins vegar á útlánavöxtunum. Þetta liggur kristaltært fyrir og það er að berja höfðinu við steininn að halda öðru fram.
    Jafnframt var gengið út frá því, ég man ekki hvort það er skráð nokkurs staðar en það var rætt á sínum tíma, að þegar talað var um breytilega vexti væri verið að taka tillit til þessa vaxtamunar, öðrum þræði

vegna lífeyrissjóðslánanna og útlánanna og hins vegar þeirra vaxta sem í gildi væru á hverjum tíma. Það var aldrei ætlun löggjafans að festa vextina niður heldur átti þvert á móti að taka tillit til vaxtanna eins og þeir eru á hverjum tíma í bankakerfinu. Það er mjög athyglisvert að lesa þetta lögfræðiálit vegna þess að lögfræðingurinn segir sem svo:
    Þar sem ekki hafa verið gerðar breytingar á vaxtaákvörðun fyrr, á meðan breytilegir vextir í bankakerfinu hafa hækkað og lækkað, má ætla að þessir vextir gegni öðrum lögmálum en vextirnir í bankakerfinu.
    Við skulum aðeins skoða þetta betur. Hvers vegna voru vextir ekki hækkaðir í stjórnartíð núv. hæstv. félmrh. sem tók við þeirri stöðu sumarið 1987? Þetta veit sá sem hér stendur mætavel því að í ríkisstjórninni á þeim tíma var margoft talað um vaxtahækkun eins og hæstv. ráðherra veit, en þá var ákveðið, af því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að það stæðu til breytingar á húsnæðiskerfinu, að bíða með það í nokkra mánuði. Þetta kom fram í umræðum 1987 í september, en þá var ætlunin að breytingar á húsnæðiskerfinu lægju fyrir innan nokkurra mánaða. Þessir nokkru mánuðir urðu hér um bil tvö ár. Og nú á að láta þetta tómlæti hæstv. ráðherra ráða því að hér ríki það ójafnrétti sem er verið að koma í framkvæmd með þeirri breytingu sem varð á vöxtum til nýrra lánþega 5. des. 1989. Í raun og veru er það út í bláinn að tala um að 0,4% yfir alla línuna gefi minna en það sem nú hefur verið ákveðið. Það skiptir engu máli hvort það er 0,4%, 0,6% eða 1%. Það sem skiptir máli og þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að reyna að skjóta sér undan því, er að það var ætlast til þess frá því að lögin voru sett 1986 að vextirnir í þessum lánaflokki yrðu breytilegir og þeir sömu hjá öllum í lánaflokknum. Og það þýðir ekkert að reyna að víkja sér undan ábyrgð jafnvel þótt hún sé óvinsæl, eins og hæstv. ráðherra virðist gera allt of oft í sínum verkum, því miður.
    Ósanngirnin sem kemur fram í þessu máli er sú að þeir sem hafa orðið að bíða lengst eftir því að fá lán, hafa orðið að þola hæstu vexti á almennum markaði, lenda einir í vaxtahækkuninni, loksins þegar þeir fá lánið útborgað úr húsnæðiskerfinu. Þeir þurfa að borga hærri vexti en hinir sem nutu lægri lána og þurftu að bíða í styttri tíma. Hvers konar sanngirni er þetta? Þetta er auðvitað ekki sanngirni sem er bjóðandi upp á og allra síst þegar það er ljóst að þetta er gert í blóra við meiri hluta Alþingis.
    Mig langar til þess þó ég hafi ekki gert það áður að lýsa einu dæmi sem kannski sýnir best hvernig þessi ákvörðun getur leikið fólk. Það er dæmi sem ég þekki persónulega. Tveir aðilar hér í bænum gerðu með sér kaupsamning, makaskiptasamning. Annar aðilinn átti í vændum húsnæðislán og átti að fá útborgaðan fyrri hlutann í desemberbyrjun og síðari hlutann í maí. Hinn aðilinn hafði fengið lán fyrir 1 1 / 2 ári. Það var gerður makaskiptasamningur með þeim hætti að lánin voru talin jafna sig út, enda voru upphæðirnar svipaðar. Nú gerist það allt í einu eftir

að samningur er gerður, að vextir eru hækkaðir hjá þeim sem tók lánið síðar. Auðvitað er farið fram á að borgaður sé vaxtamunurinn. Það sé sanngirnismál því að þegar litið er á allt endurgreiðslutímabilið, þá skipti þetta líklega hundruðum þúsunda. Hinn aðilinn getur ekki samið um þennan vaxtamun. Það er ekki nokkur leið fyrir hann að gera það einfaldlega vegna þess að lögfræðiálitið sem hæstv. ráðherra styðst við segir það skýrt og skorinort að það sé hvenær sem er hægt að hækka eldra lánið jafnvel meira en nýja lánið þannig að það er útilokað að borga þennan vaxtamun.
    Nú gætu menn haldið því fram að þá sé hægt að benda á vaxtabæturnar eins og hér var sagt. Halda menn virkilega að vaxtabæturnar hafi verið settar upp til þess að ráðherra gæti mismunað í vöxtum? Það er auðvitað algerlega út í bláinn. Vaxtabæturnar voru settar upp í allt öðru skyni og það veit hæstv. ráðherra mætavel.
    Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni mál sem er mikið sanngirnismál og mikið jafnréttismál. Hér er á ferðinni mál þar sem alveg er kristaltært hvernig ætlunin var að standa að í upphafi. Hér er á ferðinni mál sem meiri hluti Alþingis hefur, að sögn þeirra manna sem hér hafa talað, ekki lýst sig samþykkan, þ.e. að hækka vexti hjá hluta lánþeganna. Ég hélt satt að segja eftir þær umræður sem fóru fram í desembermánuði að hæstv. ráðherra mundi
endurskoða ákvörðun sína aðeins vegna þess að það er sanngjarnt. En hæstv. ráðherra hefur ekki kosið að fara þá leið. Hann hefur fremur kosið að láta einstaka þingmenn flytja brtt. við lögin til þess að það sé samkvæmt laganna hljóðan ekki hægt að komast hjá því að beita jafnósanngjörnum aðferðum og hæstv. ráðherra beitti þegar hann hækkaði vexti á því fólki sem lengst hefur beðið og þurft að borga hæstu vextina á biðtímanum.
    Það er í raun og veru nokkuð hart að það skuli vera fulltrúar jafnaðarmanna sem þannig standa að þessu máli. Þetta mál er mikið alvörumál fyrir mig og þetta er mikið alvörumál fyrir marga aðra sem hafa séð hvers konar ósanngirni getur komið út úr kaupum og makaskiptum þegar svona hlutir eiga sér stað sem er algjör handvömm. Og það þýðir ekkert að koma hér í ræðustól og segja að samningurinn við Kvennalistann sé lögum æðri. Það er algjörlega út í bláinn. Auðvitað eru samningar við Kvennalistann mjög mikilvægir og samskipti við Kvennalistann afskaplega mikilvægir, en það breytir ekki því að það eru lög í þessu landi sem menn verða að virða en hvorki láta stjórnast af tilfinningum sínum né samningalipurð við Kvennalistann. Því verður hæstv. ráðherra að átta sig á. Það þýðir ekkert að nefna til sögunnar að gerðir hafi verið samningar við einn stjórnmálaflokk. Það veit auðvitað hæstv. ráðherra.
    Hér er, að mínu áliti, á ferðinni frv. sem nauðsynlegt, bráðnauðsynlegt er að fái hraða meðferð í þinginu til þess að Alþingi geti tekið völdin af þeim hæstv. ráðherra sem hefur látið fara þannig með sig að hann hefur gripið til þessa óyndisúrræðis að þarflausu. Og ég skora á fulltrúa í hv. félmn. að taka

til óspilltra málanna, leita sér lögfræðilegra skýringa og koma þessu sanngirnismáli áfram sem allra fyrst. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra kjósi að vefja inn í silkipappír andrökum sínum með því að tala um fjármál í þessu sambandi en þetta mál snýst ekkert um það. Við getum gefið okkur niðurstöðuna fyrir fram, hvað þarf að ná í mikla peninga, og síðan eiga auðvitað allir þeir sem hafa fengið lán úr þessum flokki frá 1986 að borga sömu vexti. Af hverju segi ég 1986? Það er vegna þess að lögunum var breytt þá. Af því að lögunum var breytt þá. Lögunum var breytt úr því að það stóð í lögunum áður að það ætti að gera tillögur um breytingar á vöxtunum einu sinni á ári --- það var reyndar aldrei gert --- eftir tillögu húsnæðismálastjórnar, á grundvelli fjárhagsáætlunar sem hún legði fram. Þetta var tekið út, inn komu lífeyrissjóðirnir og nú áttu vextirnir að miðast við þann vaxtamun sem fékkst í samningum við þá. Það er tilgangslaust að koma hér upp og reyna að klóra yfir þetta með jafnaumlegum hætti og hæstv. ráðherra og fylgifiskar hans hafa gert hér í þessari umræðu. Það er kominn tími til þess að menn taki völdin af ráðherranum í þessu sanngirnismáli. Auðvitað getur hæstv. ráðherra leikið sér að því að karpyrðast við fyrri hæstv. ráðherra, núv. hv. þm. Alexander Stefánsson. Það hafa þau gert árum saman. En það á ekki að bitna á fólkinu í landinu.
    Kjarni málsins er sá að 1986 átti að ganga tryggilega frá því að jafnræði ríkti í þessum málum og þeir sem fengju lán úr þessum lánaflokki sætu við sama borð. Og það er skylda hæstv. ráðherra í raun og veru að endurskoða þessa ákvörðun sína. Ef hæstv. ráðherra kýs að gera það ekki verður hv. Alþingi að taka til sinna ráða.