Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég er nú aldrei þessu vant sammála hv. 1. þm. Reykv. og sérstaklega um það að mikilvægt sé að semja við Kvennalistann og konur yfirleitt. Ég tek undir það. En mér gafst ekki vel að semja við hæstv. félmrh. þegar hæstv. ráðherra samdi við Kvennalistann vegna þess að ég sá í gegnum hana og vissi hvernig fara mundi, enda hefur það farið í þann farveg.
    Hv. 9. þm. Reykn. fór að tala um það hvernig ástandið hefði verið 1980, en minntist ekki á það hvernig það er í þessum málum. Það er nefnilega ekkert betra en það var 1980 eða eftir þann tíma. Og það er alveg merkilegt að Alþýðusambandið skuli svo gera samninga sem leiða af sér að margir af þeim sem eru í neyð nú af því að þeir fá ekki lán verða að bíða lengur. Mig undrar þetta mjög af því að þarna er margt af góðu og gætnu fólki sem stjórnar slíkum samningum, en þetta leiðir af sér það að þeir sem eru í mjög erfiðri aðstöðu, í neyðaraðstöðu --- það veit ég vel um --- fá ekki fyrirgreiðslu á næstunni. Og það er rétt sem hv. 1. þm. Reykv. sagði áðan. Það er eiginlega broslegt að hann skuli vera uppi í þessum ræðustól að tala fyrir auknu jafnrétti en fulltrúar Alþfl. á móti. Mér fannst það alveg ólíðandi þegar ákveðið var að hækka vexti um 1% í desember sl. og nær að hækka þá minna og á öllum þeim sem hefðu tekið lán síðan lögin tóku gildi 1986. En á það var náttúrlega ekki hlustað.
    Ég vildi bara fá tækifæri til þess, fyrst farið er að ræða um þessi mál og ástandið í þessum málum, að minna á það og undirstrika að þeir sem eru að fjalla um þetta, t.d. menn í húsnæðismálastjórn, eru rasandi yfir þessum niðurskurði --- og vita betur, virðast vita betur en hæstv. ráðherra. ( Félmrh.: Hvað á að skera niður?) Hvað á að skera niður? Er það samkvæmt jafnaðarstefnunni að láta það bitna á fólki sem er í neyð? ( Félmrh.: Hvar vill þingmaðurinn láta skera niður?) Hvar vil ég skera niður? Ég vildi láta,
svo að hæstv. félmrh. viti það, leggja skatt á fjármagnstekjur, og það var um það samið þegar ríkisstjórnin var mynduð, en við það hefur ekki verið staðið því það þarf að hlífa þeim en ekki þessu fólki sem er í neyð. Það er jafnaðarstefna hæstv. félmrh.