Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þetta hafa verið athyglisverðar umræður um margt. Það hefur verið leitt í ljós að hæstv. félmrh. hefur gengið til ákvarðana í vaxtamálum sem leiða til aukins misréttis, sennilega ekki fyrir þá sök að hæstv. ráðherra hafi þá hugsjón, heldur vegna þess að hann taldi sig skuldbundinn að hlýða fyrirmælum Kvennalistans í þeim efnum. Umræðurnar hafa síðan snúist nokkuð í uppgjör á milli núv. hæstv. félmrh. og fyrrv. félmrh., hv. 1. þm. Vesturl.
    Það var athyglisvert að hlýða á annars mjög vandaða ræðu hv. 9. þm. Reykn. þar sem m.a. komu fram tölur um þá sem lent höfðu í erfiðleikum í húsnæðismálum á tilteknu árabili. Í þeim talnalestri kom í ljós að þeim snarfækkaði sem lent höfðu í húsnæðiserfiðleikum um leið og hv. núv. 1. þm. Vesturl. varð félmrh. árið 1983 og kann það að vera skýringin á því að ýmsir sakna nú vinar í stað að hann skuli ekki vera lengur í stóli félmrh.
    Í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur ýmislegt verið gert gagnvart húsbyggjendum, mestallt í þá veru að gera þeim erfiðara um vik að koma sér þaki yfir höfuðið. Með skattahækkunum hefur byggingarkostnaður verið aukinn. Með sérstökum hækkunum á tekjuskatti hefur þeim verið refsað sem vilja og þurfa að leggja á sig aukna vinnu til þess að standa undir kostnaði við öflun húsnæðis. Allt hefur þetta verið gert undir forustu og fyrir frumkvæði ríkisstjórnar félagshyggju og með þátttöku Alþfl.
    Hæstv. félmrh. minntist svo á það að meðan formaður Alþfl. var fjmrh. hafi verið gerð í þeirri ríkisstjórn hörð hríð að framlögum ríkisins í byggingarsjóði ríkisins, báða byggingarsjóðina. Það mun auðvitað rétt vera hjá hæstv. ráðherra, en þrátt fyrir þessa neikvæðu félagslegu afstöðu sem hæstv. félmrh. og varaformaður Alþfl. lýsir hér á hendur formanni Alþfl. tókst á þessum tíma að verja stöðu byggingarsjóðanna allbærilega. A.m.k. hygg ég að framlagið hafi ekki farið niður fyrir 1 milljarð kr. þrátt fyrir harkalegar
árásir á þetta kerfi frá formanni Alþfl. eins og hæstv. félmrh. lýsti. En það tókst að verja kerfið og það var ekki fyrr en sjálfstæðismenn voru farnir úr ríkisstjórn að þessi framlög voru með öllu þurrkuð út og hugsjón formanns Alþfl. um að brjóta þetta kerfi niður varð að veruleika. Það er þessi staðreynd sem hæstv. ráðherra á í erfiðleikum með að gera hinu háa Alþingi grein fyrir. Það eru þessi umskipti sem hæstv. ráðherra á í erfiðleikum með að gera grein fyrir, kannski vegna sögulegra hefða og sögulegrar skírskotunar Alþfl. til launafólks og þeirra sem vilja stuðla að auknu jafnrétti í þjóðfélaginu.
    Hæstv. ráðherra fór svo nokkrum orðum um það að hann hefði neyðst til þess að skera niður útgjöld ríkisins til þess að félmrn. gæti tekið fullan þátt í niðurskurði útgjalda í tengslum við kjarasamninga og skírskotaði til samstöðu um það efni. En hvað hefur nú hæstv. ráðherra gert í niðurskurði útgjalda? Hefur

hæstv. ráðherra skorið niður einhver útgjöld? Nei. Hæstv. ráðherra hefur engin útgjöld skorið niður. Hann hefur ekki takmarkað skuldbindingar byggingarsjóða ríkisins. Hann hefur ekki minnkað rekstrarkostnaðinn við byggingarsjóði ríkisins á þessu ári. Engar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar af hæstv. ráðherra í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar fært til vanda. Hann hefur fært tímabundið útgjaldavanda af ríkissjóði yfir á byggingarsjóði ríkisins sem mun enn grafa undan stöðu byggingarsjóðanna eins og hæstv. ráðherra viðurkenndi og viðurkenndi að staða þeirra væri í mikilli hættu. Ákvörðunin hefur ekki dregið úr útgjöldum en hún hefur leitt til þess að staða byggingarsjóðanna hefur veikst, en það hefur úr engum skuldbindingum verið dregið. Þetta mun koma með tvöföldum þunga niður á byggingarsjóðum ríkisins eða ríkissjóði þegar þar að kemur. Með öðrum orðum, það er verið að taka lán en ekki draga úr útgjöldum. Það er í raun verið að vinna gegn því sjónarmiði, sem sett hefur verið fram, að það þurfi að draga úr útgjöldum ríkisins í heild í tengslum við kjarasamningana, enda hefur forseti Alþýðusambandsins séð ástæðu til að mótmæla þessari aðgerð sérstaklega með býsna ákveðnum hætti. Svo kemur hæstv. ráðherra hér upp og leyfir sér að segja að þetta sé aðgerð í tengslum við kjarasamningana þegar forseti Alþýðusambandsins hefur komið fram fyrir alþjóð og mótmælt mjög harkalega þessum aðferðum enda sýnt fram á að þær fela ekki í sér neinn niðurskurð á útgjöldum, heldur tilfærslu á vanda. Það er verið að reyna að blekkja fólk með ákvörðunum af þessu tagi sem munu auka á þann vanda sem fyrir er en ekki draga úr honum. Þetta er nú kjarni málsins að því er þetta atriði varðar. En eftir hinu hlýtur að vera lýst þegar ráðherra hefur viðurkennt hér á hinu háa Alþingi að byggingarsjóðirnir séu í þessum mikla vanda sem raun ber vitni og hæstv. ráðherra hefur lýst þremur leiðum til þess að bæta úr þeim vanda: Hverjar eru tillögur hæstv. ráðherra í því efni? Eða ætlar hann að láta málin þróast áfram á þann veg að vandi byggingarsjóðanna aukist ár frá ári svo að gjaldþrot þeirra verði að veruleika eins og hæstv. ráðherra hefur bent á að í stefni?
    Hæstv. ráðherra hefur nefnt þrjár leiðir. Hverja af þeim ætlar hann að
velja? Eða ætlar hann að láta málin halda áfram í þessu fari þannig að gjaldþrotið verði að veruleika? Það eru svör við þessum spurningum sem menn hljóta að ætlast til að komi í þessari umræðu.