Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Því miður gat ég ekki mætt hér þegar umræða hófst um þetta merka mál vegna anna á öðrum vettvangi og missti ég þess vegna af fróðlegum umræðum sjálfsagt og athyglisverðum um þetta mál, en um leið og ég kom hér í anddyrið heyrði ég að hæstv. félmrh. var að senda mér kveðjur í sambandi við þær umræður sem hér urðu við 1. umr. þessa máls en missti af aðalkjarnanum í þessum umræðum.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að tefja tímann með því að fara út í miklar almennar umræður um húsnæðismálin eða stöðu þeirra í heild. Það liggur að sumu leyti ljóst fyrir í dag hvernig það er. En mér þykir rétt í sambandi við frv. sem hér er til umræðu á þskj. 412 að endurtaka það sem ég sagði hér í byrjun umræðunnar, rifja það upp að þessi ákvörðun hæstv. ráðherra, um að hækka einhliða vexti í einum lánaflokki og láta það aðeins gilda frá þeim degi sem lögin voru sett, var tekin með óvenjulegum hætti að því leyti til að stærsti stjórnarflokkurinn í ríkisstjórninni var áður búinn að hafna þessari hugmynd ráðherra eða ríkisstjórnar. Og afstaða þingflokks Framsfl. var alveg einum rómi sú að það kæmi ekki til mála að hækka vextina á þennan hátt sem raunin varð á. Hins vegar var lagt til að tími yrði gefinn til að skoða þetta mál í heild í samráði við aðila vinnumarkaðarins í heild og samræma ákvæðið um vexti í öllum málaflokkum beggja byggingarsjóðanna og marka þar með stefnu í vaxtamálum. Ríkisstjórnin tók því miður ekki tillit til þessa, sem er óvenjulegt, en hæstv. félmrh. hafði sitt fram, sem öllum er kunnugt, og olli strax viðbrögðum í þjóðfélaginu, mótmælum aðila vinnumarkaðarins, og ég vil þá í leiðinni benda á það að húsnæðisstjórn var andvíg þessari ákvörðun einnig.
    Ég vil í þessu sambandi rifja það aðeins upp um þessi lög sem vitnað hefur verið til, frá árinu 1984, það er verið að vitna til þess að þá hafi verið svipaðar aðgerðir í gangi, og benda þeim hv. þm. sem halda slíkri firru fram á að það voru sett ný lög 1984, ný húsnæðislöggjöf, sem tóku til allra þessara þátta og opnuðu um leið möguleika á því að hafa mismunandi vexti eftir lánaflokkum. Það er þess vegna alveg út í hött að vitna til þessara laga sem skjóls fyrir þessa ákvörðun sem ríkisstjórnin tók eftir kröfu hæstv. félmrh.
    Það mætti að sjálfsögðu tala margt um þetta mál og aðrir ræðumenn sem fylgja þessu frv. fram hafa gert skilmerkilega grein fyrir afstöðu í þessu sérstaka máli með vextina sem ég ætla ekki að endurtaka hér. Ég vil aðeins minna á tímamótalög sem sett voru 1986 í samráði við alla aðila vinnumarkaðarins, ný
húsnæðislöggjöf, sem mörkuðu vissulega þáttaskil og voru samþykkt einróma hér á hv. Alþingi. Það var engin hjáróma rödd í sambandi við þá löggjöf og ég hygg að sé vitnað til þess sem síðan hefur liðið væri rétt að rifja það upp í leiðinni hverjir það voru sem hófu árásir á þessi lög. Og það er dálítið merkilegt að

það skuli ske núna í þessari ríkisstjórn, félagshyggjustjórninni sem ég og fleiri studdum að tæki hér völdin. Hvað var gert af hálfu hæstv. félmrh. og forustu Alþfl.? Vilja menn rifja upp? Það yrði of langt mál á svo stuttum tíma sem er til fundarhlés. En ég vil aðeins rifja það upp að það voru ekkert smáar yfirlýsingar. Það átti bara að rífa niður og eyðileggja lögin frá 1986. Þau voru svo gjörsamlega ómöguleg að það var gefin hátíðleg yfirlýsing um að það skyldi vera aðalmarkmiðið. Mér býður í grun að allt sem hefur skeð síðan í húsnæðismálum stefni að þessu sama, að eyðileggja þessa löggjöf sem sett var 1986 í samráði við aðila vinnumarkaðarins og samþykkt í einu hljóði hér á hv. Alþingi.
    Ég ætla ekki að fara meira í það atriði, en mig langar til að rifja það aðeins upp, af því að hér hefur verið minnst á ýmsa aðra þætti og þar á meðal ráðgjafardeild Húsnæðisstofnunar, að þessi ráðgjafardeild var sett um áramótin 1983 og 1984 og á því kjörtímabili sem sú stjórn sat sem tók þá ákvörðun. Hvaða halda menn að hafi farið mikið í gegnum hendur þessarar ráðgjafardeildar? Það voru hvorki meira né minna en rúmir 5 milljarðar sem fóru í beina aðstoð við þá húsbyggjendur í landinu sem þurftu á aðstoð og ráðgjöf að halda, bæði með beinum fjárframlögum úr Húsnæðisstofnun og í beinum aðgerðum ráðgjafardeildar við hinar ýmsu peningastofnanir í landinu til að greiða götu þessa fólks. Og af því að hér var farið inn á starfsmannahald og skipulag stofnunarinnar vil ég geta þess að þessi ráðgjafardeild var stofnsett á þann veg að það var fært til í stofnuninni milli deilda og aðalstarfsfólk þessarar ráðgjafardeildar var fyrst og fremst frá tæknideild stofnunarinnar. Þetta er nauðsynlegt að komi hér fram vegna vissra umræðna sem hér hafa orðið.
    Það sem ég tel þó fyrst og fremst ástæðu til að koma inn á er það sem ég heyrði óljóst upphafið að þegar ég kom inn í þinghúsið. Það var í sambandi við þau ummæli sem ég lét falla í ræðu minni um Húsnæðisstofnunina að því er varðar starfsmannahald. Ég sagði þar, eins og hér hefur réttilega verið skýrt frá, að hjá launadeild ríkisins lægi inni krafa um það að fjölga fastráðnum starfsmönnum Húsnæðisstofnunar úr 39 í 61 stöðugildi eða sem svarar tæpum 22 stöðum miðað við það sem hefur verið. Ég tók þannig til orða að þessu hefði verið frestað, m.a. af mér, af þeirri einföldu ástæðu að ráðninganefndin hefur
verið að glíma við hinar ýmsu umsóknir sem komið hafa frá ráðuneytum og stofnunum undanfarið og stór hluti af því er vegna kjarasamninga sem hefur verið deilt um, bæði að því er varðar BHM- og BSRB-samninga, varðandi fastar og lausar stöður, þ.e. að breyta lausum stöðum sem hafa verið í meðferð t.d. á síðasta ári í fastar stöður. Og auðvitað var alveg ljóst að það þurfti að halda þannig á málum í þessari nefnd að fresta öllum þessum ákvörðunum þangað til búið væri að kanna málið í botn.
    Það sem gerðist hins vegar í sambandi við Húsnæðisstofnun, svo að ég skýri það öllu nánar, var

það að þessu fylgdu upplýsingar um að Húsnæðisstofnun væri að láta sérstaka ráðgjafarstofnun hér í borg gera úttekt á starfsmannahaldi stofnunarinnar og skipulagi. Það var einmitt þessi ákvörðun sem gerði það að verkum að það var ástæðulaust annað en að fresta þessu máli vegna þess að í fórum nefndarinnar voru þessi gögn ekki til reiðu og það sem meira var, það var ákveðið að kalla á formann og framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar á fund sem verður 23. febr. nk. til að ræða þessi mál. Hér er raunverulega um stórmál að ræða þar sem verið er að gera endurskipulagningu á Húsnæðisstofnuninni í heild. Og það er alveg ljóst að þetta er það stórt mál í þessari stofnun ásamt nokkrum öðrum sem svipað er ástatt um að það er a.m.k. fullkomin skylda þeirra sem eiga sæti í þessari nefnd að gera sér fulla grein fyrir því hvernig þetta er byggt upp og hvernig það fer saman við þá fjárhagsstöðu sem er í bæði þessari stofnun og annarri í sambandi við almennan rekstur. Það væri hrein glópska, ekki síst fyrir fulltrúa úr fjvn. í þessari ráðninganefnd, að ætla að fara að taka þær ákvarðanir áður en hann væri búinn að gera sér grein fyrir því hvað hér var á ferðinni. Ég tel ástæðu til að koma þessu hér á framfæri og ætla þar með að svara þeim hugmyndum sem mér virðist hafa komið hér fram í ræðu hæstv. félmrh., um það að hlutaðeigandi hafi ekki sett sig inn í mál eða hefði e.t.v. ekki vit á þessum málum o.s.frv. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Ég er að gera þarna skyldu mína og ég mun fylgjast grannt með því að hér sé ekki verið að byggja upp kerfi sem hleður sjálfkrafa upp á sig útgjöldum á sama tíma sem er verið að gera tilraun til að skera niður ríkisreksturinn og kostnað við ríkisreksturinn í heild.
    Ég mun geyma mér til betri tíma að ræða þessi mál sem sjálfsagt gefst þegar þau mál koma til frekari umræðu, en ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það ekki vera rétt meðferð þessara mála að það er sífellt verið að gera róttækar breytingar á húsnæðislögum án þess að gildandi lög hafi í raun fengið tíma til að sanna gildi sitt. Þessa dagana veit ég ekki betur en að á ferðinni séu ný áform um róttækar breytingar á húsnæðiskerfinu sem sjálfsagt eiga að raska enn því sem fyrir var og þar verður sjálfsagt ýmislegt sem kallar á nýjar kollsteypur í þessum málaflokki.
    Ég verð að segja það í lokin að mér finnst mjög slæmt, þegar ákvarðanir eru teknar, eins og þessar um vextina, að félmrn. og hæstv. félmrh. skuli vera í stríði við meiri hluta húsnæðisstjórnar um meðferð þessara mála. Það finnst mér ekki lofa góðu og ekki þau vinnubrögð sem ætti raunverulega að viðhafa því að það ætti einmitt að vera þveröfugt. Í fyrsta lagi ætti að vera fullkomin samvinna og samstarf milli húsnæðismálastjórnar og stofnunarinnar í heild og þess ráðuneytis sem stýrir þessum málum. Ég verð líka að vitna til þess að við erum nýlega búin að sjá á opinberum vettvangi yfirlýsingar hæstv. ráðherra um það að hann leggi til að draga úr valdi húsnæðismálastjórnar. Það er opinber yfirlýsing sem

liggur fyrir í sambandi við þessi mál.
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt að þessu sinni. Það gefst sjálfsagt tækifæri síðar. Ég vil hins vegar segja það í sambandi við þetta frv. að með því eru fullkomin rök. Hér var tekin röng ákvörðun fyrir síðustu áramót um þessa vaxtabreytingu, ákvörðun sem eykur á misrétti í sambandi við lánakjör fólks og ákvörðun sem var ekki tímabær vegna þess að það hefði þá átt að gefa sér tíma til þess að skoða þessi mál í stærra samhengi. Þessi ákvörðun hefur ekki þau áhrif að bæta stöðu húsnæðissjóðanna að því marki sem hefði e.t.v. þurft að gera. Þetta er einvörðungu til þess að auka ójöfnuð milli fólks.