Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mun hafa verið 1. febr. sem aðilar vinnumarkaðarins komust að samkomulagi um nýja kjarasamninga. Þessir kjarasamningar mörkuðu tímamót má segja, ekki síst vegna þess að þar var ákveðið að taka völdin úr höndum ríkisstjórnar. Óttinn við ríkisstjórnina og skaðaverk hennar var orðinn svo mikill hjá þessum aðilum að þeir ákváðu að færa niður verðlag og gera hóflegri kjarasamninga heldur en hæstv. ríkisstjórn hafði reiknað með þegar hún setti fram sínar áætlanir, m.a. í fjárlögum íslenska ríkisins.
    Við sjálfstæðismenn teljum eðlilegt að greiða fyrir því ekki síst þess vegna að þetta frv. geti fengið hraða og þó eðlilega meðferð á hv. Alþingi og gerum ekki athugasemd við það þótt málinu sé vísað til hv. félmn., en ég hygg að stundum áður hafi slík mál verið send hv. fjh.- og viðskn.
    Áður en ég vík örstutt að einstökum greinum frv., en um þær mun ég verða stuttorður, enda gefst síðar tækifæri til þess að ræða þær, tel ég ástæðu til að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga sem varða afskipti hæstv. ríkisstjórnar af kjarasamningunum og varða efndir á loforðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið.
    Í fyrsta lagi tel ég eðlilegt við 1. umr. þessa máls að hæstv. forsrh. greini Alþingi frá því hvort hæstv. ríkisstjórn hafi tekið ákvörðun um aflamiðlun, en eitt af því sem tekið var fram í bréfi hæstv. ríkisstjórnar, undir lið nr. 10 sem hæstv. forsrh. skrifaði undir og er dags. 1. febr., er að sjá til þess að svo fljótt sem verða megi sé komið á fót aflamiðlun til þess að stýra útflutningi á óunnum fiski og í stjórn aflamiðlunar verði fulltrúar hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Það er ljóst að þótt hinir almennu kjarasamningar séu þegar orðnir að veruleika, þá er fiskverðsákvörðun ákaflega mikilvæg fyrir stóran hluta launþega, þ.e. þá sem sækja sjó. Þess vegna skiptir afar miklu máli að hæstv. forsrh. geti upplýst það hér við 1.
umr. þessa máls hvort hún hafi efnt þá yfirlýsingu sem kemur fram í þessu bréfi sem ég vitnaði til fyrir stuttu. Það hefur komið fram að það strandar á þessari gerð ríkisstjórnarinnar hvort samkomulag næst um fiskverð sem er auðvitað mjög þýðingarmikið, annars vegar sem kjarasamningur sjómanna, hins vegar sem grundvöllur undir þá stefnu sem mörkuð var í kjarasamningunum 1. febr. Ef fiskverð hækkar umfram það sem þar var ráð fyrir gert getur það haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir framhaldið.
    Í öðru lagi tel ég ástæðu til að hæstv. forsrh. segi frá því hér hvenær megi búast við því að frv. um lífeyrissjóði verði lagt fram, en hæstv. ríkisstjórn lofaði því að frv. um lífeyrissjóði sem var samið fyrir nokkrum árum síðan yrði lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Í þriðja lagi finnst mér ástæða til að hæstv. forsrh. svari því hvort hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir hafi komist að samkomulagi um þann niðurskurð sem stóð til að gera í tengslum við kjarasamningana. Það leikur ekki nokkur vafi á því að þýðingarmesta aðgerð

hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á hinu háa Alþingi er að draga úr ríkisútgjöldunum. Ef það verður ekki gert má búast við að árangur kjarasamninganna renni út í sandinn. Í byrjun febrúar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að slíkar tillögur yrðu tilbúnar þá eftir helgina, líklega fyrir þremur helgum síðan. Mér finnst að hæstv. forsrh. þurfi hér við 1. umr. þessa máls, þegar Alþingi fjallar um hluta af efndum hæstv. ríkisstjórnar, að segja frá því hvernig það mál standi.
    Hæstv. ríkisstjórn lofaði í tengslum við kjarasamningana 1. febr. að lækka verðlag um 0,3%. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi hér og nú að gera grein fyrir því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna þetta loforð þannig að hv. nefnd fari með það veganesti til sinna starfa þegar fjallað er um þann hluta loforðanna sem koma fram í frv. sem hér er til umræðu.
    Loks vil ég minna hæstv. forsrh. á að fyrir tæpu ári síðan skrifaði hæstv. forsrh. Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna bréf, dags. 30. apríl ef ég man rétt. Í því bréfi voru tvö atriði sem ég man eftir, annars vegar það að jöfnunargjald yrði hækkað frá 1. júní en yrði afnumið þegar virðisaukaskattur yrði tekinn upp. Virðisaukaskattur var tekinn upp um síðustu áramót. Jöfnunargjaldið er 5% en ekki 3% eins og það var fyrir ári síðan. Hins vegar var í því bréfi vikið að því að hæstv. ríkisstjórn lofaði að breyta skattalögum og færa þau til þess horfs sem þau eru í nágrannalöndum okkar sem við viljum helst bera okkur saman við og þurfum að gera vegna vaxandi samkeppni atvinnugreina hér og þar. Þá er að sjálfsögðu átt við ríkin sem eru í EFTA annars vegar og Evrópubandalaginu hins vegar.
    Nú vill svo til að sams konar klausa er í því bréfi sem nú er ritað og ég bið hæstv. forsrh. að gera okkur grein fyrir því hér á eftir, þegar hann tekur áfram þátt í þessari umræðu, hvort og hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera það trúanlegt að hún standi við þær yfirlýsingar sem hún hefur nú gefið þegar ljóst er að ekki var staðið við þær yfirlýsingar, a.m.k. ekki þessar tvær, sem gefnar voru fyrir tæpu ári síðan. Ég get að vísu bætt því við að ekki er gert ráð fyrir að komi nema 500 millj. í ríkissjóð vegna jöfnunargjaldsins. Væri
það innheimt allt árið gæfi það líklega um einn milljarð. Hæstv. ríkisstjórn virðist því hafa haft lok innheimtunnar í huga við setningu fjárlaga þótt hæstv. fjmrh. fáist ekki til að staðfesta það. Hann hefur þó staðfest hér á hinu háa Alþingi að á þessu ári verði tekin ákvörðun um hvenær jöfnunargjaldið verði lagt af. Á þetta minni ég, virðulegur forseti, vegna þess að við erum að fjalla um efndir á loforðalista sem kom fram í bréfi frá hæstv. forsrh. til aðila vinnumarkaðarins en slík bréf hafa áður verið til umræðu hér á hinu háa Alþingi.
    Eins og ég sagði var ekki ætlun mín að ræða um einstakar greinar frv. sérstaklega. Við munum að sjálfsögðu skoða þær í nefnd og gera það sem í okkar

valdi stendur til þess að þetta mál fái þá afgreiðslu sem til var ætlast í samningunum sem gerðir voru á vinnumarkaðinum hinn 1. febr. Þó kemst ég ekki hjá því að minna á að nokkrar greinar hafa í för með sér tekjuminnkun ríkissjóðs og útgjaldaauka þannig að það er bráðnauðsynlegt að hv. Alþingi fái sem allra fyrst og helst núna við þessa umræðu að skoða niðurstöður stjórnarflokkanna um niðurskurð og lækkun ríkisútgjalda.
    Þó er ein grein í þessu frv., 7. gr., sem ég vil í örstuttu máli gera að umræðuefni. Þegar sá texti sem þar birtist er borinn saman við samkomulag Stéttarsambands bænda, ASÍ, BSRB, VSÍ og VMS um málefni landbúnaðar kemur í ljós nokkur munur á textunum. Í öðrum lið þess samkomulags sem gert var á milli þessara aðila og undirritað 1. febr. 1990 segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stéttarsamband bænda fellst á að verð til framleiðenda skv. verðlagsgrundvelli búvöru, mjólkur- og kindakjötsframleiðslu, verði óbreytt til 30. nóv. 1990.`` Síðan er vitnað til bókunar framleiðenda.
    Það eru auðvitað fleiri atriði sem mætti vitna til í þessu samkomulagi, en það vekur athygli að í frumvarpsgreininni, þ.e. 7. gr. sem er jafnframt IV. kafli frv., segir að þrátt fyrir 10. og 12. gr. laganna sé verðlagsnefnd búvöru heimilt að fresta að hluta eða öllu leyti framreikningi verðlagsgrundvallar 1. mars 1990 og 1. júní 1990 og útreikningi grundvallarins 1. sept. 1990. Ég spyr hæstv. forsrh. hvernig á því standi að ekki er fylgt þeim texta sem var samkomulagstexti. Þá mætti orða lagagreinina t.d. á þá leið að verðlagsnefnd búvöru væri heimilt að halda óbreyttu verði til 1. des. eða 30. nóv. í samræmi við samkomulag Stéttarsambands bænda og aðila vinnumarkaðarins o.s.frv. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt atriði og full ástæða til að átta sig á því hvort hér er um að ræða frestun eða hvort menn fallast á að hækka ekki án þess að um sé að ræða frestun sem safnast upp. Mér finnst þetta orðalag ekki vera í samræmi við þann samning sem gerður var á milli aðila og án þess að ég leggi nokkurn dóm á það hér og nú hvernig eigi að taka á þessu máli, þá kýs ég að hæstv. forsrh. svari því hvernig á því standi að ekki er fylgt þeim texta sem hlaut að vera lagður til grundvallar þar sem hann er aðaltexti þess samkomulags sem gerður var á milli Stéttarsambands bænda annars vegar og aðila vinnumarkaðarins hins vegar.
    Ég minni jafnframt á varðandi 9. gr. að þar er verið að auka hugsanlega útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og á sama tíma og það er gert, og vissulega stendur ríkissjóður að baki, þá hefur það heyrst, --- ég segi hefur það heyrst því enn hefur niðurstaða ekki borist, a.m.k. ekki hingað inn á Alþingi, að hugmyndir séu uppi hjá ríkisstjórninni að skera framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs niður um 200 millj. Er það meira en fjórðungur af þeim niðurskurði sem nefndur hefur verið í þeim sögusögnum sem gengið hafa um væntanlegan niðurskurð hæstv. ríkisstjórnar.

    Ég verð að taka undir það með fulltrúum launþega að það skýtur dálítið skökku við og gefur manni vissulega tilefni til að álíta að hæstv. ríkisstjórn ætli sér ekki þann niðurskurð sem hún taldi sig geta framkvæmt, heldur sé hér aðeins um bókhaldspretti að ræða og hér sé skorið í liði sem ríkisstjórnin þarf hvort sem er að greiða ef nægir fjármunir reynast ekki fyrir hendi í þessum sjóði.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að tefja þessa umræðu frekar en ég vænti þess fastlega að hæstv. ráðherra geri grein fyrir og svari þeim fyrirspurnum sem ég hef til hans beint og snúa allar að þeim kjarasamningi sem gerður var 1. febr. og þeim loforðum sem hæstv. ríkisstjórn gaf í tengslum við þann samning.