Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að byrja þessa umræðu um það frv. sem hér liggur fyrir með því að lýsa yfir ánægju með það að staðið skuli við gefin fyrirheit í kjarasamningum. Það hefur fremur verið lenska að bókanir og fyrirheit ýmis sem stóðu utan samninga hafi verið svikin jafnóðum. En þarna er greinilega gerð á bragarbót og er það auðvitað til fyrirmyndar og vonandi boðar betri tíma í samskiptum opinberra aðila við launþega.
    Hæstv. forsrh. rakti hér í nokkuð ítarlegu máli grein fyrir grein innihald þessa frv. og er ekki ástæða til að endurtaka það. Allt þetta er til bóta fyrir launþega. Sumt eru réttarbætur, annað má líklega flokka undir kjarabætur. Sumt af því veldur ríkissjóði auknum útgjöldum en einnig eru hér ákvæði sem ættu að vera til þess fallin að geta undir einhverjum kringumstæðum dregið úr útgjöldum ríkissjóðs.
    Í 1. gr. frv., og kannski þeirri sem mestu varðar fyrir launþega og er um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er nú sjóðfélögum og launagreiðendum gert að greiða iðgjöld af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót. Þetta mun að einhverju leyti vera tilkomið til að stuðla að því m.a. að eftirlaunaþegar fái umsamdar kjarabætur í sínum eftirlaunum. Þetta vekur þó þá spurningu hvernig standi á því að yfirvinna skuli ævinlega standa utan við svona samninga, að ekki séu greidd almenn iðgjöld af yfirvinnu eins og af dagvinnu.
    Þessi síaukna áhersla á yfirvinnu launþega vekur vissulega grunsemdir um að yfirvinna sé ódýrari þegar allt kemur til alls fyrir atvinnurekanda en vinna á almennum dagtöxtum. Og vert er að taka það fram að þegar launþegar sækja æ stærri hluta launa sinna í yfirvinnu vex auðvitað nauðsyn þess að þeir ávinni sér jafnframt réttindi með þeirri yfirvinnu. Að vísu er málum þannig komið að það
verður æ minna um yfirvinnu nú vegna atvinnuleysis, en þó erum við ekki svo langt komin að von sé til að þessari hömlulausu yfirvinnu á Íslandi linni.
    Þrátt fyrir það sem hér horfir til bóta fyrir almennt launafólk í landinu er ýmsum spurningum ósvarað í sambandi við gerð þessara kjarasamninga. Ber þá auðvitað fyrst að nefna að það liggur ekki enn þá ljóst fyrir hvernig niðurskurði verður háttað til að mæta kostnaði við þessa kjarasamninga. Það hefur verið sagt að það muni bitna á ráðuneytum jafnt en ekki verið tíundað frekar með hvaða hætti. Þó hefur tvennt borist mönnum til eyrna og hvorugt til fyrirmyndar. Annað er niðurskurður á fé til Byggingarsjóðs um 100 millj. kr., þannig að nú fær hann einungis 50 millj. ríkisframlag. Mun mála sannast að sú upphæð nægir varla til að standa straum af þeim vaxtamismun sem Byggingarsjóður ber. Þessi þáttur var talsvert ræddur hér áðan í umræðum um frv. nokkurra þingmanna um vexti á húsnæðislánum og var nokkuð vel tíundað þar hversu slæmt það væri ef til þessa niðurskurðar kæmi.

    Nú er auðvitað ljóst að eins og málum er háttað í fjármálum ríkisins verður að reyna að finna liði til þess að mæta þessum aukakostnaði. En það verður að teljast nokkuð sérkennilegt hjá ríkisstjórninni að byrja á því að höggva í sjóði þess fólks sem kannski þarf hvað mest á þessu fé að halda. Hér er ég bæði að tala um það fólk sem þarf á lánum að halda til að koma sér þaki yfir höfuðið og ekki síður vil ég þá tala um hitt atriðið varðandi niðurskurð sem líka hefur borist til eyrna, að dregið skuli úr framlögum ríkisins til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er lagaleg skylda ríkisins að greiða í þann sjóð og virðist sem ekki þurfi lagabreytingar til að ákveða að gera það ekki eins og þó er raunin um flest önnur atriði hér í þessu frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Nú er ég ekki að fara fram á að lögum verði breytt á þann hátt að ríkið geti skotið sér undan þessum greiðslum, en þegar spurt er hvernig á þessu standi eru svör harla léttúðleg, svo að ekki sé meira sagt. Þegar ASÍ mótmælti því að gengið yrði á Atvinnuleysistryggingasjóð fannst hæstv. fjmrh. það svar nægja að sjóðurinn væri ríkur og munaði ekkert um þessa peninga. Það er náttúrlega óviðunandi að það sé persónulegt mat fjmrh. hverju sinni hvort einhver sjóður sé nógu vel stæður til að hægt sé að svipta hann lögbundnum framlögum. Og vonandi gefur þetta ekki fordæmi um vinnuaðferðir í framtíðinni.
    Það er alveg sama hvernig á það er litið, það er og verður siðferðilega rangt að ganga á þennan sjóð launafólks, þennan bakhjarl sem launafólki er ætlaður á erfiðum tímum og þeir tímar eru vissulega nú. Atvinnuleysi er meira en þekkst hefur um árabil og ekkert bendir til að það dragi úr atvinnuleysi heldur virðast líkur benda til þess að það aukist ef eitthvað er. Og það er von að launafólki líki ekki þegar það hefur sýnt þann takmarkalausa skilning sem það hefur gert í þessum samningum að höggvið sé í þennan sjóð sem það sjálft vill geta treyst á á erfiðum tímum.
    Það var mjög sérkennilegt í umræðunni um kjarasamningana um daginn að nánast allir lýstu mikilli hrifningu yfir þessum samningum. Helsta ágreiningsefnið um samningana hér á þingi var eiginlega það að allir vildu Lilju kveðið hafa og
menn bitust um það hver ætti mestan heiðurinn af samningunum. Við kvennalistakonur höfum ekki getað sungið mjög hátt í þessum hamingjukór sem hefur hljómað undanfarið en þess hefur lítið verið getið, enda eru hjáróma raddir í kórum ekkert vel liðnar. En þó er niðurstaða þessara nýgerðu kjarasamninga auðvitað ömurleg, hvort sem launafólk hefur með góðu eða illu kosið að sætta sig við þá núna, sjálfsagt enn einu sinni í þeirri von að þar með leggi það svo þungt lóð á vogarskálina að verulegar bætur komi fyrir seinna. Það þarf kannski engan að undra að fólk, mér liggur við að segja neyðist til að samþykkja þessa samninga þó að víða hafi það verið gert af hálfum hug, þar sem atvinnuleysisgrýlunni er auðvitað óspart att á fólk og er það gert af meira kappi en því að leita úrræða til að draga úr atvinnuleysi. Eins virðist vera búið að slá því föstu að verðbólga sú sem ríkt

hefur á Íslandi sé og verði launafólki að kenna og þá auðvitað ekki síst þeim lægst launuðu. Og ef þjóðfélagið í heild eigi að bjargast, eins og það er orðað, þá verði þeir enn einu sinni að axla þyngstu byrðarnar. Með öðrum orðum, það er fyrst og fremst láglaunafólk þessa lands og þar af leiðandi fyrst og fremst konur sem eiga nú að bera ábyrgð á því að reyna að koma einhverju lagi á þjóðarbúskapinn.
    Það hvarflar oft að manni að stjórnvöld hafi ekki hugmynd um kjör kvenna og annarra láglaunahópa í þessu landi. Það liggur við að maður hugsi, ef þeir skildu þessi kjör, ef þeir þekktu þau, þá dytti þeim aldrei í hug að fara fram á slíka afarkosti við láglaunahópa þessa lands. Hæstv. forsrh. sjálfur lét taka saman skýrslu um tekjur karla og kvenna. Niðurstöður þeirrar skýrslu voru þær að meðaltekjur kvenna væru rétt rúmlega 60% af meðaltekjum karla. Það hefur hvorki orðið honum né öðrum í ríkisstjórninni nokkur hvatning til að rétta hlut þessara hópa. Þannig að spurningunni um til hvers var verið að gera skýrsluna er eiginlega ósvarað nema einhver telji heppilegt að hafa þessar upplýsingar á borðinu, kannski til að geta markað nýja framtíðarsýn. En þá hlýtur marga að vera farið að lengja eftir henni. Það hvarflar þó að manni að hér sé einungis um marklaust plagg að ræða og eins og svo oft er miklu fremur gripið til kannana og skýrslna en aðgerða. Hér hafa menn mjög mikið undanfarna daga notað orðið yfirklór og á það vel við í þessu sambandi.
    Þessir síðustu kjarasamningar virðast því staðfesta eftirminnilega að hér skuli ríkja jafngífurlegur launamunur og raun ber vitni. Þeir festa í sessi þá ósvinnu að konur geti ekki einu sinni séð sér farborða með tekjum sínum. Og það er algerlega litið fram hjá þeirri staðreynd að 10 þús. konur á Íslandi eru einstæðar mæður og meiri hluta þeirra er gert að reyna að draga fram lífið á lægstu launum.
    Það er líka til marks um skilningsleysi og áhugaleysi stjórnvalda á atvinnu og kjörum kvenna að á sama tíma og fyrir liggur að atvinnuleysi kvenna er miklu meira en atvinnuleysi karla er það eina sem ríkisstjórnin starfar að af kappi til að reyna að bæta úr atvinnuleysi að leita allra hugsanlegra ráða til að fá samstarfsaðila hér um stóriðju. Þessi staðreynd, að þar er áhugi þeirra, sýnir svo að ekki verður um villst að atvinnuleysi kvenna heldur ekki fyrir hæstv. ríkisstjórn vöku. Hæstv. ráðherra Júlíus Sólnes, sem maður veit nú ekki alveg hvernig á að titla þessa dagana, boðar fundaferð um landið, framhald á því sem hann upphóf fyrir jólin, og hann ætlar nú að þeytast um landið í leit að einhvers konar atvinnustefnu. Og enn er skilningsleysið glöggt því ef marka má auglýsingar í dagblöðum um þessa fundi nær skilningur hans ekki lengra en svo að hann hefur boðað eina konu til hvers fundar. Það er vert að taka fram að þegar hann hélt fyrstu fundina fannst honum ekki einu sinni taka því að hafa eina konu. Það varð að benda honum á að það væri náttúrlega ósæmilegt að þær væru víðs fjarri og hann bætti um betur með þessum eftirminnilega hætti að nú hefður birst ein kona á hverjum fundi. Jú,

það má að vísu segja að batnandi mönnum sé best að lifa en ári er nú batinn hægur.
    Þegar kjarasamningarnir voru til umræðu kom það glögglega fram að menn líta svo á að með þeim náist væntanlega það jafnvægi sem okkur sé nauðsynlegt til að geta staðið jafnfætis öðrum Evrópuþjóðum og er þá sérstaklega litið til samstarfs okkar bæði við EFTA og EB. Hæstv. fjmrh., sem maður reyndar saknar hér í salnum, orðaði það svo að með þessum samningum værum við loksins komin í hóp siðaðra þjóða. Þá má nú huga aðeins að því hvaða ástand er hjá þessum siðuðu þjóðum sem er svona mikið gleðiefni fyrir okkur að hafa nú komist í hóp með.
    Flest þau lönd sem hér um ræðir búa við miklu stórfelldara atvinnuleysi en við gerum hér á landi. Er það keppikeflið? Er það eftirsóknarvert að taka upp þá hætti þessara siðuðu þjóða sem eru farnar að líta á atvinnuleysi sem varanlega staðreynd sem varla er barist gegn lengur? Jafnvel jafnaðarmenn í Þýskalandi boða nú þau ein ráð að aðrir verði að taka á sig byrðar til að halda lífinu í því fólki sem hefur ekki atvinnu og mun kannski aldrei á allri sinni ævi fá að stunda atvinnu.
    Í öðru lagi er tekjumunur í þessum þjóðfélögum sannarlega ekki til fyrirmyndar heldur. En það má kannski segja að við höfum náð langt í þeirri
samkeppni því launamunur á Íslandi hefur eflaust sjaldan verið meiri en hann er í dag. Félagsleg vandamál eru í þessum löndum af stærri gráðu en við þekkjum. Fátækt er meiri, þrátt fyrir allt, en við þekkjum, að maður tali nú ekki um alls konar umhverfisvandamál sem þessar þjóðir eiga við að etja og eru afleiðing stórkostlegrar iðnvæðingar og neyslu. Þetta er sem sagt keppikeflið, það er eftirsóknarvert að komast á sama stig og þessar siðuðu þjóðir.
    Ef litið er til þeirrar nauðsynjar á samræmingu sem talað er um, að við fylgjum þessum þjóðum í einu og öllu, þá er athyglisvert í því sambandi að líta hér yfir svar fjmrh. við fyrirspurn hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar um virðisaukaskatt í ríkjum Evrópubandalagsins. Og þá brestur nú samræmingin allt í einu, því ekki er hægt að finna eitt einasta dæmi um það virðisaukaskattsstig sem við búum við hér. Það er einungis hægt að finna eitt dæmi um land sem hefur eitt stig í virðisaukaskatti. Sérstaklega athyglisvert er auðvitað ef maður skoðar yfirlit um núllskatt í virðisaukaskattslöggjöf EB-ríkjanna að þó nokkur ríki hafa ekki neinn skatt á matvöru og heldur ekki á vöru ætlaðri börnum og flest þeirra hafa miklum mun lægra virðisaukaskattsþrep á matvöru en við þekkjum. Það væri nú gaman ef hæstv. fjmrh. sæi það sem hluta af inngöngu okkar í bandalag siðaðra þjóða að taka upp þessa háttu líka í leiðinni.
    Það eru auðvitað forsendur þessara samninga að þeir nái þeim tilætlaða árangri sem menn lögðu upp með, eða eins og það er gjarnan orðað, að hefja nýja sókn, að reyna að halda verðbólgu í skefjum eins og mögulegt er. Í hádegisútvarpinu í dag voru birtir nýjustu útreikningar Þjóðhagsstofnunar um verðbólgu. Þar kom fram að hún er núna 29% á ársgrundvelli.

Þetta er auðvitað ekki í neinu samræmi við það sem menn vonuðust eftir og því vert að spyrja hvort uppi séu einhverjar sérstakar ráðstafanir til að draga með skjótum hætti úr verðbólgunni. Ein af forsendunum er sú að verði á opinberri þjónustu verði haldið í lágmarki. Þær fréttir bárust líka í dag að Starfsmannafélag Selfossbæjar hefði fellt samninga vegna hækkana sem bærinn samþykkti, m.a. á hitaveitu. Því hlýtur maður að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi einhver áform uppi um að tryggja að ekki komi til verðhækkana, þ.e. að verðlag á þjónustu haldist stöðugt. Þess er skammt að minnast að í samninga- og kauphækkunarbanninu svokallaða var jafnframt sett á bann við verðhækkunum. Og mig langar að spyrja hæstv. forsrh. hvort það hafi aldrei komið til álita eða hvort uppi séu einhver áform um slíkt bann núna eða, ef hlutir virðist ætla að keyra úr hófi fram, hvort gripið muni verða til slíkra ráðstafana.
    Maður hlýtur að vona að samningstíminn verði notaður til að leggja drög að úrbótum til handa launafólki í landinu. Hér eru áætlanir um ýmislegt sem á að athuga á samningstímabilinu og reyna að færa til betri vegar. Má þar sérstaklega nefna að ætlað er að gera úttekt á framleiðslukostnaði í landbúnaði og fleira í því sambandi. En væri ekki ráð að setja á stofn einhvern viðlíka hóp með aðild aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar til að reyna að finna raunhæfar lausnir, varanlegar lausnir til að draga úr þeim stórkostlega tekjumismun sem var í raun festur í sessi með þessum kjarasamningum? Það eru til leiðir í skattlagningu, og er þá auðvitað fljótlegast að benda bæði á hátekjuþrep og skattlagningu fjármagnstekna. Það hafa ýmsar tillögur komið fram um launajöfnuð eða hvernig megi stuðla að launajöfnuði og væri þá auðvitað handhægast fyrir Alþb. að grípa til tillagna sem þeir hafa flutt hér á Alþingi um lágmarkslaun. Þar var líka ýmis ákvæði að finna, m.a. það að hæstu laun mættu aldrei vera hærri en mig minnir þrisvar sinnum lægstu laun innan hvers fyrirtækis. Margar slíkar leiðir eru auðvitað til, ef menn eru tilbúnir að taka frá þeim sem nóg hafa og meira en það og færa til þeirra sem lítið hafa og geta varla dregið fram lífið á þeim launum sem þeim er svo naumt skammtað.
    Við kvennalistakonur höfum ekki verið miklir talsmenn þess að bætur væru notaðar í því skyni að jafna þennan mun, þ.e. launabætur, en auðvitað má nota tryggingakerfið betur en nú er og meira í þá átt að auðvelda fólki lífsbaráttuna. Í tryggingakerfinu er vissulega hægt að taka tillit til misjafnrar framfærslubyrðar fólks, t.d. hvað varðar barnafjölda þó í því sambandi megi ekki gleymast að það er ekki bara bundið við barnafjölda hvernig afkoman er. Þar getur bæði sjúkleiki eða krankleiki ýmiss konar og aldur ráðið því að fólk getur ekki aflað þeirra tekna sem þarf til framfærslu.
    Það gerði þessa samninga alla trúverðugri og gæfi meiri von um að við þá væri staðið og forsendur þeirra stæðust ef ríkisstjórnin hefði uppi einhver slík

áform, þ.e. að nota samningstímabilið til gagngerðrar vinnu í þá átt að draga úr þeim mismun sem viðgengst í þjóðfélaginu og reyna að létta hlut þeirra lægst launuðu. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvort einhver slík áform séu uppi eða hvort honum finnist þau athugunarverð.
    Væntanlega verður frv. í heild skoðað vandlega í nefnd og kann að vera að eitthvað komi í ljós þar sem mér hefur yfirsést núna. En ég vil aftur leggja áherslu á að í fljótu bragði sýnist manni fátt eða ekkert í þessu frv. sem er ekki til bóta, en aftur eru aðrar ráðstafanir sem maður hlýtur að bíða eftir í
ofvæni hverjar verða.