Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem liggur hér frammi um ráðstafanir vegna kjarasamninga, svokallaður bandormur, er með nokkuð mörgum greinum og breytingum á lögum sem er of langt mál að fara í gegnum hér í ræðu. Það er hins vegar svo að þau háleitu markmið sem liggja að baki þessu frv. eru auðvitað ágæt, þau markmið að með þessum kjarasamningum eigi að halda verðbólgu niðri m.a. og halda verðlagi í skefjum. Og ég er út af fyrir sig sammála þeim markmiðum. En ég er ekki sannfærður um að þau markmið náist, því miður, og sé ýmsar blikur á lofti varðandi það og ég vil minna á að í hádeginu lá fyrir spá Þjóðhagsstofnunar þar sem talað var um að verðbólgan væri nú miðað við ársgrundvöll 29%. Það vekur ekki bjartar vonir í byrjun þessara samninga.
    Það eru ýmis áhyggjuefni sem maður hlýtur að hafa við gerð þessara samninga, m.a. að ekki hefur verið tekið tillit til skatta almennings sem þó hafa hækkað gífurlega á undanförnum árum og það hefur orðið gífurleg kjararýrnun hjá launafólki.
    III. kafli frv. er um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og ég vil vekja athygli á að ég vakti máls á því fyrir tæpu ári að sú breyting sem þar var á ferðinni um tekjustofna sveitarfélaga varðandi fasteignagjöld mundi enda með ósköpum.
    Það er alveg ljóst að það hafa orðið gífurlegar hækkanir á fasteignagjöldum úti á landi. Hér er verið að leiðrétta einn þáttinn af því, þ.e. í frv. sem var samþykkt fyrir tæpu ári síðan var samþykkt að færa útihús á verðlag Reykjavíkur sem þýddi auðvitað gífurlega hækkun á fasteignagjöldum í dreifbýli og hver maður hlaut að sjá að væri hrein firra.
    Ég skrifaði mjög ítarlega grein um þetta nýlega í Morgunblaðinu og rakti þá þessar álagningar, með hvaða hætti þær kæmu fram og sýndi fram á að víða geta
orðið mjög miklar hækkanir og líklegast að hækkun í mesta strjálbýlinu sé 177% á milli ára, sem er gífurleg hækkun, þó að almennt verði hækkunin miklu minni, algengasta hækkunin verði 25--45%.
    Þessi gjöld hafa auðvitað mikil áhrif á afkomu fólksins, meiri en menn átta sig á, en hér á þinginu voru menn sammála um að leggja þessi auknu útgjöld á fólkið úti á landi, nema við frjálslyndir hægrimenn sem teljum þetta allt of miklar hækkanir.
    Við þetta frv. nú mun ég flytja brtt. sem kemur fram við 2. umr. þar sem reynt er að takmarka álagningu fasteignagjalda með þeim hætti að hún verði aldrei hærri en 0,625% með öllum gjöldum. Þá á ég við þau gjöld sem eru nú lögð á auk svokallaðs fasteignaskatts, þ.e. lóðarleigu, vatnsskatt, húsatryggingar, sorphreinsunar- og holræsagjald. Það verður að takmarka þetta vegna þess að upphaflega var þessi prósenta sett svo há til þess að hinar strjálu byggðir geti hækkað sínar álagningar en þéttbýlið mundi hafa lægra hlutfall. Með breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga breytast forsendur og það er

ástæðulaust að menn geti lagt á allt upp í 0,9% eða nálægt 1% fasteignaskatta á húseignir eins og gert er sums staðar. Ég nefni hér sem dæmi að í Kópavogi eru e.t.v. hæstu fasteignagjöld landsins þegar allt er talið.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa hemil á skattlagningu sveitarfélaga og það séu skýr ákvæði um það í lögum hve hátt þau geta farið. Svo er ekki nú og því mun brtt. mín verða með þeim hætti að hún takmarkar möguleika sveitarstjórnar á að leggja á þessa skatta við 0,625% nema sérstaklega standi á, og þá verði sveitarfélagið að bera það undir íbúana, þannig að menn geti ekki lagt á þessi gjöld eins og nú er og í rauninni blekkt kjósendur með þeim hætti sem gert er. Ef við lítum á þetta t.d. hér í Reykjavík er álagning fasteignaskatts 0,421% en í raun er skatturinn í kringum 0,6%. Á seðlinum stendur auðvitað ekkert nema að álagningin sé 0,421% og greiðandinn heldur að hann sé að greiða 0,421%, en í raun er ekki svo. Hann er að greiða miklu hærra. Það er kominn tími til að breyta þessu þannig að fólkið sjái á sínum seðlum samanlagt hlutfall álagðra gjalda. Þetta vil ég segja við þessa umræðu, sérstaklega um þennan lið, en vísa að öðru leyti til ítarlegrar greinar sem ég skrifaði um þetta í Morgunblaðið 13. jan. Þar er rakið mjög ítarlega hvað fasteignagjöld hækka og geta orðið há.
    Það væri hægt að hafa langt mál um þennan lið sérstaklega en ég mun ekki gera það að sinni en vil sérstaklega vekja athygli á þessum kafla. Og ég vona að þm. geti sameinast um það að setja skýrari reglur um álagningu fasteignagjalda sem þurfa auðvitað að vera alveg ljósar þannig að kjósendur í hverju sveitarfélagi viti nákvæmlega um hlutfall gjalda og geti borið það saman við önnur sveitarfélög þannig að það geti ekki munað allt að 50%, eins og ég hef séð dæmi um á höfuðborgarsvæðinu, eftir því hvort þú býrð á Seltjarnarnesi eða í Kópavogi. Þar er orðinn mikill munur á. Það hlýtur að vera krafa til Alþingis að þessi mál séu tekin hér fyrir og ég mun gera þá kröfu að það verði litið gaumgæfilega á þessi mál og frv. ekki hent í gegn að
óathuguðu máli.
    Í þessu frv. er að vísu ekki hægt að merkja það sem er ekki tekið fram um svokallaða tillögu ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda en hefði auðvitað þurft að ræða jafnhliða frv. því að mörg þau atriði koma mjög við fjárhag heimilanna. Ég vil nefna t.d. Byggingarsjóð ríkisins. Ef ætlunin er að skera hann niður um 100 millj. hlýtur að rísa krafa um að það fólk sem hefur beðið árum saman verði aðstoðað á einhvern annan hátt.
    Ég hef lagt fsp. fram í þinginu sem var dreift í dag um þessi atriði þar sem ég óska eftir svörum um umsóknir um lán úr Byggingarsjóði ríkisins, bæði hvað þær hafa verið lengi þar og mismunandi hvað varðar lánshæfni, hvað varðar fjölda þeirra og hvað varðar fjárhæðir sem þar kunni að vera óskir um. Það er alveg bráðnauðsynlegt í sambandi við þetta frv. að það liggi fyrir hvað á að gera fyrir það fólk sem

beðið hefur árum saman eftir láni og hæstv. félmrh. hefur mismunað freklega. Það hefur verið gengið á rétt fjölda manna um lán og þeir settir aftur í röðina, seinkað lánum og þeir njóta ekki þess réttar að fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji það réttlætanlegt að menn geti beðið árum saman eftir láni úr Byggingarsjóði ríkisins aðeins vegna þess að hæstv. félmrh. hefur ákveðið að mismuna mönnum gróflega. Það sem hefur verið gert núna í þessu lánakerfi er það sem hæstv. félmrh. sagði margoft á Alþingi að ætti ekki að gera, að taka menn fram fyrir í röðinni þegar væri verið að hjálpa þeim á einhverju sviði. Þetta hefur hæstv. félmrh. gert með mjög grófum hætti og gengið á rétt fjölda fólks sem er þegar komið í þrot og vandræði vegna þess að það hefur ekki fengið afgreiddar umsóknir um lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Sumir hafa ekki fengið úrskurð um lánshæfni. Menn geta þurft að bíða allt í ár eftir honum. Aðrir þurfa að bíða mjög lengi eftir ákvörðun um lánsupphæð. Og þriðji hópurinn er búinn að fá lánsloforð og bíður og bíður eftir að fá lánin útborguð. Það hlýtur að vera mikilvægt að þessi hópur fái skýr svör við því hvenær þeir sem bíða eftir lánum fá úrlausn sinna mála.
    Það er því miður ámælisvert fyrir verkalýðshreyfinguna að hafa ekki tekið þetta upp í nýgerðum samningum. Ég tel að verkalýðshreyfingin hafi á margan hátt ekki hugsað um hag fólksins með þessum samningum. Þegar svo er komið að verkalýðshreyfingin er orðin einn stærsti atvinnurekandi landsins fyrir utan ríki og sveitarfélög, þá fara hagsmunirnir heldur betur að skarast. Það hlýtur að vera íhugunarefni þegar verkalýðshreyfingin er jafnframt orðin einn aðaleigandi fjármagns í landinu og rekur einn stærsta banka landsins. Þetta er orðið íhugunarefni fyrir launafólk og kjósendur í landinu hvert stefnir og það bera auðvitað þessir samningar með sér. Ég get tekið undir að sumu leyti með hv. talsmanni Kvennalistans, Þórhildi Þorleifsdóttur, 18. þm. Reykv. Ég held að vísu að þegar hún sagði að þær væru eins og hjáróma í kórnum þá hafi það hljómað frekar eins og dýrlegur einsöngur hjá hv. talsmanni Kvennalistans og ég held að margt af því sem hv. 18. þm. Reykv. sagði hafi verið rétt og það er margt sem vekur okkur áhyggjur um gerð þessara samninga. Ég vil sérstaklega vara við því að sú skattaáþján sem verður lögð á launþega skuli ekki vera tekin hér til umræðu. Raunverulega hefði verkalýðshreyfingin átt að taka það mál upp, en svo er ekki. Það er sorglegt að vita til þess, sem fram kom í svari við fyrirspurn sem hv. 2. þm. Reykv. bar fram nýlega varðandi virðisaukaskattinn, og hv. 18. þm. Reykv. vitnaði í, hversu matvæli til að mynda eru mun hærra skattlögð hér með virðisaukaskatti en víðast annars staðar. Það vekur manni ekki bjartar vonir að þeir menn sem töluðu hér rösklega gegn virðisaukaskattinum og eru nú í þeirri aðstöðu að geta lagfært það atriði í þessari ríkisstjórn skuli nú vera talsmenn þess að þessi hái virðisaukaskattur sé lagður á ýmsar lífsnauðsynjar. Ég vil hér og nú ítreka það að

auðvitað er hægt að reikna endalaust út að fólk hafi það þokkalegt en þegar allt kemur til alls eru það þeir fjármunir sem eru í buddunni sem skipta máli. Og fólkið finnur hvað það hefur af fjármunum með höndum. Lífskjör almennings hafa versnað fyrst og fremst vegna gífurlegrar aukningar skatta hjá ríkinu á þessu kjörtímabili og í öðru lagi hefur skattbyrði úti á landi verið aukin með fasteignagjöldum eins og ég rakti hér áðan og sú skattbyrði er orðin mjög þung víða um land. Það hlýtur að verða að líta á heildardæmið um rekstur heimilisins því að heimilin þola ekki að það sé endalaust lagðir á þau skattar og komið í veg fyrir að tekjur hækki þegar allt annað má hækka og verða meira en tekjur heimilanna.
    Ég vil að svo stöddu ekki hafa þetta lengra en vonast til að sú brtt. sem ég mun flytja við þetta frv. fái hér umfjöllun og verði tekin til umræðu í þeirri nefnd sem fær málið til afgreiðslu þannig að hún megi fá þinglega meðferð.