Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga sem hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir. Það er ljóst að atbeini ríkisstjórnarinnar a.m.k. gagnvart Alþingi vegna þessara kjarasamninga er tvíþættur. Annars vegar er um að ræða breytingar á ýmsum lögum til að greiða fyrir samningunum í samræmi við bréf sem hæstv. ríkisstjórn sendi aðilum vinnumarkaðarins á sínum tíma og fylgir hér með í afriti sem fskj. með þessu frv. og hins vegar lækkun á útgjöldum ríkissjóðs sem stendur fyrir dyrum. Áður en ég vík að því atriði vil ég vekja sérstaka athygli á að hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson gaf hér dálítið merkilega yfirlýsingu áðan þegar rætt var um væntanlegan niðurskurð og þær tillögur sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið með á borðinu vegna hans. Hann upplýsti að honum og hans samtökum hefðu ekki borist tillögur hæstv. ríkisstjórnar um niðurskurð á ríkisútgjöldum. Hér er um að ræða einhverja erfiðustu pólitísku ákvörðun sem þessi ríkisstjórn hefur staðið frammi fyrir nú um nokkurt skeið og það er mjög athyglisvert að hv. 6. þm. Norðurl. e. og samtök hans skuli ekki hafa verið með í ráðum um þetta viðkvæma pólitíska mál. Það vekur auðvitað upp þá spurningu hvort einhver breyting hafi orðið á stuðningi samtaka hans við hæstv. ríkisstjórn og ef svo er, þá er um meiri háttar pólitísk tíðindi að ræða. Við vitum að samtök hv. þm. hafa haft sérstakan launaðan starfsmann sem fyrst var á launaskrá hjá forsrn. en var síðan breytt í það horf að greitt er samkvæmt reikningi fyrir sérfræðiaðstoð. Nú þegar hv. þm. hefur gefið yfirlýsingu af þessu tagi, að honum berist ekki tillögur eins og hér er um að ræða, þá spyr maður sjálfan sig: Hvað fær þá hv. þm. og hans samtök til yfirlestrar og hvert er verkefni þessa hv. starfsmanns? Ég vil eindregið að hæstv. forsrh. skýri það hér hvort einhver breyting er orðin á samsetningu ríkisstjórnarinnar því að Samtök jafnréttis og félagshyggju hafa verið formlegur aðili þessarar ríkisstjórnar þó þau hafi ekki haft ráðuneyti í henni.
    Meginástæðan fyrir því að ég kom hér upp var sú að ég ætla að fara þess á leit við hæstv. forsrh. að hann upplýsi í sambandi við væntanlegar niðurskurðartillögur eitt atriði. Auðvitað er það áhyggjuefni að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn lagt fyrir Alþingi tillögur um niðurskurð eða um lækkun útgjalda. Það vekur grunsemdir um að ríkisstjórnin sé ekki fær um að standa við sinn hluta af því samkomulagi sem gert var við aðila
vinnumarkaðarins. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að þegar um er að ræða tillögur um lækkun útgjalda, þá er þar um meiri háttar viðkvæmnismál að ræða og sitt sýnist hverjum í þeim efnum, en eitt atriði vil ég gera að umtalsefni sérstaklega. Það eru samskiptin við sveitarfélögin og þá uppgjör við sveitarfélögin.
    Ég rifja upp að þann 15. des. sl. fóru fjórir ráðherrar, þ.e. hæstv. félmrh., fjmrh., heilbrmrh. og menntmrh., þess á leit við stjórn Sambands ísl.

sveitarfélaga að kannað yrði hvort hægt væri að fresta að taka yfir á ríkið á næsta ári andvirði þeirra tveggja þátta, þ.e. tannlæknaþjónustunnar og heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík, sem duttu út við gerð kostnaðaruppgjörs eins og segir í bréfi sem ritað var og rætt á sérstökum fundi þessara ráðherra og forsvarsmanna Sambands ísl. sveitarfélaga. Þess var óskað af þessum hæstv. ráðherrum við stjórn sambandsins að rætt yrði nánar hvernig fara ætti með þessa þætti í framtíðinni og þann kostnaðarauka sem af þeim kynni að verða og beðið yrði með að ríkið tæki að sér þessa tvo kostnaðarþætti í eitt ár meðan viðræður færu fram um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig bregðast skyldi við þessum þætti vandans.
    Stjórn sambandsins svaraði þessu erindi samdægurs. Þar krafðist stjórnin þess að staðið yrði við nýsett lög, þ.e. lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og mótmælti hvers konar hugmyndum sem gengju í berhögg við þau og það víðtæka samkomulag ríkis og sveitarfélaga er að baki lægi.
    Síðan gerðist það þann 20. des., eftir að fram höfðu farið viðræður milli fulltrúa sveitarfélaganna og hæstv. ríkisstjórnar, að hæstv. forsrh. skrifaði bréf sem ég tel rétt að lesa úr, með leyfi forseta. Í bréfi forsrh. segir:
    ,,Þar sem kostnaður ríkissjóðs hefur reynst meiri af verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en áætlað var og vegna erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs er þess hér með óskað að samkomulagi um skiptingu tannlæknakostnaðar verði frestað um eitt ár. Þann tíma greiði sveitarfélögin 1 / 3 hluta heildartannlæknakostnaðar. Til þess að greiða fyrir framangreindu er ríkissjóður reiðubúinn að auka framlag sitt í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á árinu 1989 um 40 millj. kr. Í uppgjörsmálum vegna verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga er ríkissjóður jafnframt tilbúinn að gera ráð fyrir 300 millj. kr. Að öðru leyti en að framan greinir stendur verkaskiptasamkomulag ríkis og sveitarfélaga.``
    Þetta bréf sendi hæstv. forsrh. stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og hún féllst á bréfið og þar með var auðvitað kominn á samningur eða samkomulag milli hæstv. ríkisstjórnar og Sambands ísl. sveitarfélaga. Það vakti þess
vegna töluverða athygli þegar þær fréttir bárust út að ríkisstjórnin hefði gert þær tillögur að lækka þennan fjárlagalið úr 300 millj. kr. í 270 millj. kr., þ.e. taka að mestu leyti þær 40 millj. sem fjárlögin voru hækkuð um vegna sérstakra mála sem frá greindi í því bréfi sem ég las upp áðan. Ríkisstjórnin var með þessum samningi jafnframt búin að skuldbinda sig til þess að halda þessum 300 millj. sem gert var ráð fyrir. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé rétt að ríkisstjórnin hafi gert tillögur um að lækka þennan fjárlagalið um 30 millj. kr. og þar með að brjóta þá samninga sem gerðir voru fyrir um tveimur mánuðum síðan og hvers megi vænta í þeim efnum.
    Mér þótti nauðsynlegt að þetta kæmi fram nú þegar við þessa umræðu en ég vil enn fremur óska eftir því

og ítreka að hæstv. forsrh. upplýsi eftir þessa merkilegu yfirlýsingu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar hvort einhver breyting sé orðin á því sambandi sem verið hafi milli Samtaka jafnréttis og félagshyggju og ríkisstjórnarinnar.