Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég hef ekki getað fylgst með þessari umræðu vegna þess að ég er bundinn við aðra umræðu inni í hv. Ed. en vegna fyrirspurna hv. 1. þm. Suðurl. vil ég taka það fram að í fyrsta lagi er það ekki rétt að ég hafi gefið yfirlýsingu um þetta mál á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna. Þar fjallaði ég með almennum hætti um það vandamál sem varðar útflutning á ferskum fiski og lýsti þeirri skoðun minni að það væri rétt að gera það með tvennum hætti, annars vegar með því að viðhalda því sem menn hafa viljað kalla skömmtunarkerfi, þ.e. miðla aflanum inn á hina erlendu markaði með stýringu sem yrði alltaf erfitt að framkvæma, sama í höndunum á hverjum það væri, og í öðru lagi sagði ég það sem mína skoðun að nauðsynlegt væri að hækka álagið sem er nú á ferskum fiski, þ.e. þeirri skerðingu sem kemur fram í kvóta.
    Ég lýsti þeirri skoðun minni jafnframt á þessum fundi að ég teldi eðlilegast að slík aflamiðlun yrði í höndum hagsmunaaðilanna sjálfra en ekki inni í Stjórnarráðinu. Ég sagði það hins vegar í sjónvarpsviðtali á sl. hausti, ég hef ekki dagsetningu á því, að ég gerði ráð fyrir að aflamiðlun yrði komið á fót eigi síðar en um áramót og forræði hennar yrði í höndum sjútvrn. Ég tel það eðlilega ráðstöfun vegna þess að hér er um hluta af fiskveiðistjórnun að ræða og vont að þetta mál sé tengt viðskiptahagsmunum okkar erlendis. Hitt er svo annað mál að það er ekkert aðalatriði í mínum huga undir hvaða ráðuneyti þessi aflamiðlun heyrir, heldur er það aðalatriði að henni verði komið á stofn.
    Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Suðurl. að það hefur verið viss áherslumunur í þessu máli milli einstakra manna í ríkisstjórninni og ég og utanrrh. höfum ekki verið þar sammála um hvert einasta atriði. Hins vegar hafa hagsmunaaðilarnir sjálfir heldur ekki verið sammála í þessu erfiða og viðkvæma máli sem e.t.v. má telja eðlilegt. Það sem hins vegar hefur
gerst núna í fyrsta skipti er að aðilar í Verðlagsráði hafa komist að ákveðinni niðurstöðu um það hvernig þeir vilja koma þessu máli við og hverjir eigi að eiga aðild að aflamiðluninni.
    Ég hef kastað þeirri skoðun fram áður að ég teldi eðlilegt að hver þessara aðila sem þar eru nefndir, þ.e. Verkamannasambandið, sjómenn, útvegsmenn og fiskvinnsla, ættu einn aðila í þessari stjórn og síðan kæmu þessir fjórir sér saman um oddamann. Ég tel að flestir geti fallist á þessa skoðun nema Landssamband ísl. útvegsmanna sem telur að þeir hafi haft svo mikið um mál þetta að segja á undanförnum árum og jafnvel áratugum að það sé eðlilegt að þeir tilnefni tvo menn í þessa stjórn.
    Ég er þeirrar skoðunar að sá ágreiningur sem þarna er uppi muni ekki hindra það að þetta mál leysist. Ég tek undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að það er mikilvægt að leysa þetta mál svo fljótt sem verða má, e.t.v. ekki næstu tvær eða þrjár klukkustundirnar, svo brýnt er það ekki, en nú alveg á næstunni verður að

fást niðurstaða í þetta mál og þeim mun fyrr þeim mun betra. Ég óttast það ekki, miðað við þær umræður sem hafa farið fram, m.a. í ríkisstjórn í morgun, að við munum ekki finna lausn á þessu máli í samvinnu við hagsmunaaðilana og við munum leggja okkur fram um það nú næstu klukkutímana að komast að þeirri niðurstöðu.