Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. fór þess á leit að ég gerði grein fyrir því hver væri niðurstaðan að því er varðar svokallað aflamiðlunarmál og af því tilefni er rétt að taka fram eftirfarandi:
    1. Niðurstaðan fékkst í tengslum við gerð kjarasamninga þegar ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún mundi beita sér fyrir því að koma á fót svokallaðri aflamiðlun og aðild að stjórn hennar skyldu eiga fulltrúar hagsmunasamtaka, þannig að samkomulag um lausn þess máls var fengið í tengslum við kjarasamninga.
    2. Að því er varðar útfærslu eða framkvæmd á því er þess að geta að upphafleg áform um að hrinda þessu í framkvæmd hafa hingað til strandað á samkomulagsleysi hagsmunaaðila vegna þess að þeir hafa ekki náð saman um það með hvaða hætti stjórn aflamiðlunar yrði skipuð.
    Ég hef í dag í viðræðum við þessa aðila lýst því yfir að ég væri reiðubúinn að ganga með formlegum hætti frá stofnun þessarar aflamiðlunar á þeim forsendum að samkomulag tækist um það að hver aðili ætti þar einn fulltrúa, þá á ég við útgerðarmenn, sjómenn, fiskverkendur og fiskvinnslufólk, en oddamaður yrði skipaður með samkomulagi allra aðila. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort samkomulag hefur tekist milli hagsmunaaðila um þessa lausn.