Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst færa hæstv. sjútvrh. þakkir fyrir að hafa komið til þessarar umræðu þó að hann sé á sama tíma bundinn við umræður í annarri deild. Það kom mjög glöggt fram í hans máli að hann ber góðan hug til sjávarútvegsins og vilja til þess að leysa þau verkefni sem þar blasa við. Á hinn bóginn staðfestist hér í umræðunni að eins og stundum áður hafa ráðherrar Alþfl. brugðið fæti fyrir hæstv. sjútvrh. og komið í veg fyrir að hann næði góðum áformum sínum fram.
    Það liggur hér fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur haft þetta verkefni með höndum í heilt ár án þess að geta leyst það. Það liggur hér fyrir í yfirlýsingu frá hæstv. sjútvrh. að ágreiningur hefur verið á milli hans og hæstv. utanrrh. um málið og ég hygg að engum dyljist að það er meginorsök fyrir því að lausn hefur ekki fundist. Það er ástæðan fyrir því að niðurstaða dregst nú á langinn að því er varðar fiskverðsákvörðun. Þetta eru þær staðreyndir sem fyrir liggja eftir þessar umræður, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki getað tekið á þessu máli og leyst það af sinni hálfu þó að samkomulag liggi fyrir á milli þeirra sem aðild eiga að Verðlagsráði sjávarútvegsins.