Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Suðurl. fyrir að endurtaka enn einu sinni þessa sömu plötu og reyna þannig að draga fjöður yfir getuleysi þeirrar ríkisstjórnar sem hann veitti forustu. Þessi ríkisstjórn hefur leyst vandamál eftir vandamál, ótal vandamál sem hún tók við af borði þeirrar ríkisstjórnar. Þess vegna hafa þeir kjarasamningar verið gerðir sem nú hafa verið gerðir o.s.frv. Þetta veit hv. þm. að sjálfsögðu allt saman mætavel. Og ég er ekki að amast út í það þó hann leitist við að draga upp einhverja aðra mynd.
    Ég fullvissa hv. þm. um það að fiskverð verður ákveðið fyrir 28. febr. eins og ráð er gert fyrir. Aflamiðlun var alls ekki lofað 28. febr. þegar fiskverð var ákveðið á síðasta ári. Þá voru lögð drög að hugmyndum um aflamiðlun. En t.d. í þeim drögum var enn óákveðið hvort togarafiskur yrði með í þeirri aflamiðlun. Það er ekki fyrr en nýlega að ákveðið er að togarafiskur verði þar með. Og ef hv. þm. vill gera lítið úr bréfi Verkamannasambands Íslands þá hann um það. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að á bak við þetta bréf liggi það sem í því stendur að Verkamannasambandið er óánægt með að Landssamband ísl. útvegsmanna fái tvo menn í þessa aflamiðlun. Að því hefur verið unnið í gærkvöldi og í morgun að leysa það mál og ég get fullyrt að það mál mun leysast áður en fiskverð verður ákveðið fyrir 28. febr. M.a. tefur það málið núna að Kristján Ragnarsson fór erlendis í morgun, formaður Landssambands ísl. útvegsmanna. Og þeir menn sem hefur verið talað við hafa lagt á það áherslu að við hann yrði haft samband einnig um málið. Það er ekki óeðlilegt. Ég fellst fullkomlega á það. Hann hefur tekið mjög virkan þátt í því að móta þessa stefnu. Og þeir hafa sjálfir óskað eftir því að afgreiðsla ríkisstjórnarinnar verði ekki án þess að við Kristján Ragnarsson sé haft samband. Þannig að ég vil leyfa mér að upplýsa það hér að enn einu sinni mun hv. þm. verða fyrir vonbrigðum. Þessi ríkisstjórn mun leysa þetta mál. Fiskverð verður ákveðið og farsællega þannig til lykta leitt.