Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Hv. félmn. hefur orðið sammála um að koma fram með brtt. við 7. gr. og hún er þannig, með leyfi forseta: ,,Í stað orðanna ,,er verðlagsnefnd búvöru heimilt að fresta`` komi: skal verðlagsnefnd búvöru fella niður.``
    Ég hef rætt þetta við hv. þm. sem eru í félmn. og hef ekki fengið viðhlítandi svör um hvernig á þessari breytingu stendur. Vegna þess að þeir hafa talið að samkomulagið sé þannig að þessi breyting sé í samræmi við það. Í samkomulaginu stendur ekkert annað en að það eigi að endurskoða búvörusamningana og að hækkanir sem eiga að verða 1. mars, 1. júní og 1. sept. hafi ekki áhrif á verðið, komi ekki til framkvæmda. En það er dálítið annað mál að fresta þessu eða fella niður. Bændur hafa áður fellt niður, ég man ekki hvort það var 1949 eða 1951, t.d. 12% sem voru þá loforð að yrði leiðrétt en aldrei efnt. Það felst ekkert í þessu samkomulagi sem réttlætir það að koma með þessa brtt. Þó fara eigi yfir verðlagsgrundvöllinn og meta hann upp á nýtt, þá er það allt annað mál. En ég skil a.m.k. þessa brtt. á þann hátt að það sé verið að ákveða það að þessi frestun sem áður var talin verði endanlega felld út. Ekki til 30. nóv. En ég vil a.m.k. biðja hæstv. landbrh. eða þá sem stóðu að þessari brtt. að skýra hér mál sitt. Því þó ég sjái að það hafi verið haft samband við formann Stéttarsambandsins og framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs er það ekki nóg fyrir mig. Ég vil fá að skilja í hverju þessi breyting felst. Er minn skilningur réttur eða rangur og hvað eru menn að fara?