Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Vegna fsp. hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég lýsa þeim skilningi mínum að í raun og veru hefði hvort orðalagið sem var, það sem er í 7. gr. frv. og það sem er í brtt. félmn., dugað til að gefa verðlagsnefnd heimild eða skyldu til að bregðast við í samræmi við það samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér og Stéttarsamband bænda stóð að. Það er nauðsynlegt að afla sérstakrar lagaheimildar til þess að ekki komi til annars lögboðins framreiknings verðlagsgrundvallarins á þriggja mánaða fresti og útreiknings nýs grundvallar 1. sept. ár hvert eins og lög mæla fyrir um. Það þarf einfaldlega að afla heimildar til þess að víkja frá þessu annars bindandi ákvæði laganna um að slíkur framreikningur fari fram. Hér er ekki að mínu mati, hvort orðalagið sem notað er, verið að gera neitt annað en að fresta því að framreikningurinn sjálfur eigi sér stað og mun engin áhrif hafa á verðlagsgrundvöll búvöru að loknu þessu tímabili sem samningarnir taka til. Það er ljóst að strax 1. des. 1990 fer fram venjulegur framreikningur verðlagsgrundvallar búvöru svo fremi sem ákvarðanir verði ekki fyrir þann tíma teknar um annað. Og í raun og veru er engin hætta á ferðum hvað það snertir að það er eingöngu verið að afla nauðsynlegrar lagaheimildar til þess að aðild Stéttarsambands bænda og bænda að þessu samkomulagi megi ganga fram samkvæmt lögum.